Jóladagatal Minjasafnsins 22. desember

"Ertu búin að öllu fyrir jólin?" er spurning sem stundum hljómar á þessum árstíma. Margir láta hana fara í taugarnar á sér því hvað er þetta "allt" sem þarf að klára fyrir jólin? 

Flestum þykir mikilvægt að híbýli þeirra séu tiltölulega hrein þegar jólin ganga í garð. Það er þó misjafnt hversu ítarleg jólahreingerningin er. Jólahreingerning er síður en svo ný af nálinni því fyrr á tímum var mikið kapp lagt á að skúra og skrúbba híbýli manna, þvo þær fáu flíkur sem fólk átti, þvo af rúmum, matarílát og fleira. Siðurinn hefur haldið velli þó svo að aðstæður fólks séu allt aðrar í dag og kannski ekki eins mikil þörf á alsherjarhreingerningu akkúrat fyrir jólin. 

Gripur dagsins hefur eflaust oft fengið að taka þátt í nokkrum jólahreingerningum en það er þessi forláta Nilfisk ryksuga. Nilfisk er danskt fyrirtæki sem var stofnað árið 1906. Fyrstu Nilfisk ryksugurnar komu á markað árið 1910 og voru þær engin smá smíði eða 17,5 kíló. Ryksugan á myndinni er frá árunum í kringum 1960 en á þeim tíma nutu ryksugur sem þessar mikilla vinsælda hér á landi. 

Meira má lesa um jólahreingerninguna og fleiri jólasiði á heimasíðu Þjóðminjasafnsins. 

1415895

Meira um gripinn á Sarpi.  

Sjáðu hvað leynist í öðrum gluggum jóladagatalsins með því að smella hér