Jóladagatal Minjasafnsins - 12. desember

Aðfaranótt 12. desember tíðkast það að börn setja skóinn sinn út í glugga og vonast til þess að jólasveinarnir komi við og skilji eftir litla gjöf.

Í nótt sem leið ætti Stekkjastaur, sá fyrsti, einmitt að hafa fundið leiðina til byggða. Börn þurftu auðvitað að vinna fyrir gjöfinni, þurftu að vera stillt og prúð því annars væri hætta á að fá kartöflu í skóinn og ekki var það vinsælt, þó einhverjum þætti það eflaust bara nokkuð góð gjöf. Fyrst varð vart við þennan sið hér á landi í kringum 1930. Í byrjun breiddist hann hægt út meðal afmarkaðra hópa en um miðja öldina fór að vera almennt meðal íslenskra barna að setja skóinn út í glugga.  

Í glugga jóladagatalsins í dag er einmitt að finna skópar en óvíst er hvort nákvæmlega þetta par hafi einhverntímann verið sett upp í glugga í þeirri von að fá glaðning að morgni. Skórnir eru svolítið óvenjulegir en þeir eru búnir til úr bílaslöngu og með fylgja útprjónaðir rósaleppar.  Þessa heimagerðu gúmmískó átti Einar Pétursson (1896-1970) frá Galtastöðum fram.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.