Jóladagatal Minjasafnsins - 15. desember

Ef einhverntímann er tilefni til að baka þá er það á aðventunni!

Það er sjálfsagt óhætt að segja að eitthvað hafi dregið úr fjölda sorta sem bakaðar eru á hverju heimili, en mörgum finnst ómissandi að fá kökuilminn í húsið á þessum tíma. Á fyrri hluta 20. aldar fór að færast í vöxt að húsmæður bökuðu smákökur og tertur í stórum stíl fyrir jólin. Líkleg ástæða þess að jólabakstur varð svona vinsæll á þessum tíma er sjálfsagt sú að þá fyrst var hægt að nálgast ýmiss konar hráefni sem í baksturinn þurfti og bakarofnar voru orðnir almenn eign á heimilum. Allur bakstur varð þar með auðveldari og því tilvalið að baka alls kyns kökur og sætindi til að narta í um jólin.

Í glugga dagsins leynist kökukefli frá Brennistöðum í Eiðaþinghá, sem eflaust hefur verið notað mikið við bakstur hér áður fyrr, hvort sem það var í jólabakstri eða ekki.  

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýtið hér til að sjá fleiri gripi í jóladagatalinu.