Jóladagatal Minjasafnsins - 19. desember

Skyrgámur kom til byggða í nótt. Ætla má að hann hafi reynt að leita uppi skyr einhvers staðar í ísskápum landsmanna.

Skyr hefur verið samofið sögu íslensku þjóðarinnar um aldir en skyr hefur verið gert á Íslandi frá landnámsöld. Þá þekktist skyr einnig í nágrannalöndunum en síðar varð það einkennandi fyrir Ísland. Skyrgerð var nokkuð flókin og krafðist ýmisskonar tóla. Þar með talið hlutarins sem leynist í 19. glugga jóladagatalsins en það er svokölluð skyrkirna. Við skyrgerð var undanrenna hituð að suðumarki og þannig gerilsneydd. Hún var látin kólna niður í líkamshita og þá bætt í þétta (gerlagróðri frá eldri lögun) og hleypi. Síðan var hún látin hlaupa nokkra klukkutíma í skyrkirnu (einnig kallað upphleypudallur, skyrkolla, hleypiskirna eða skyrbiða). Mysan var svo síuð frá á skyrgrind og skyrið geymt í skyrsáum en Skyrgámur átti það einmitt til að brjóta hlemminn ofan af skyrsánum og háma í sig "uns hann stóð á blístri og stundi og hrein". 

 Skyrið sem búið var til í torfbæjunum í denn er nokkuð ólíkt því sem við kaupum í búðunum í dag og þá var ekki um eins margar bragðtegundir að velja. Það er spurning hvort Skyrgámur kærir sig um skyr með súkkulaði eða creme brulee bragði eða hvort hann kjósi heldur þetta gamla góða? 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.