Jóladagatal Minjasafnsins - 1. desember

Fyrsti dagur desembermánaðar er runninn upp og stundin sem allir hafa beðið eftir er komin! 

Í dag opnum við nefnilega fyrsta glugga jóladagatals Minjasafnsins en eins og fram hefur komið verður sú nýbreytni á að hægt verður að skoða grip hvers dags í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins. Þann 24. des verða því komnir 24 dásamlegir gripir sem á einhvern hátt eru tengdir jólunum og fá að vera í skápnum til og með 6. janúar. Við byrjum í dag með grip sem á svo sannarlega vel við þetta litla verkefni okkar. Þar er um að ræða lítið jóladagatal sem kom úr búi Jónasar Péturssonar í Fellabæ. Dagatalið er úr þunnum pappa og hægt er að leggja það saman. Þegar það er opnað blasir við lukkuhjól sem hægt er að snúa og myndir af margvíslegum vinningum. Svo eru að sjálfsögðu 24 gluggar til að opna einn og einn fram að jólum. Aftan á dagatalinu er texti á dönsku, þýsku og ensku sem er eitthvað á þessa leið í íslenskri þýðingu:

 Jóladagatal með lukkuhjóli
Með þessu jóladagatali getur þú leikið þér með lukkuhjól og kannski vinnurðu einmitt það sem þig langaði í í jólagjöf - það eru verðlaun í boði ef hjólið stoppar á bókstaf og þú mátt velja vinning sem byrjar á þeim bókstaf - en mundu, þetta er bara leikur. Þú getur leikið þér alveg fram á aðfangadagskvöld. Góða skemmtun!

 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.