Jóladagatal Minjasafnsins - 8. desember

“Ég fæ einn pakka frá afa og ömmu, og annan líka frá pabba og mömmu.”

Nokkuð víst er að jólagjafirnar skipa stórt hlutverk í hátíð ljóss og friðar. Í níunda glugga jóladagatalsins má finna eitthvað sem gæti vel hafa glatt barnshjarta við jólatréð á aðfangadag. Það er nefnilega þessi fallegi dúkkuvagn úr tré. Hann er grænmálaður, nema drapplitur á hliðum. Á sitthvora hliðina er málað landslag, annars vegar fjöll, sjór og víkingaskip á sjónum en hins vegar vatn og fjöll. Á skerminn er málað blómamynstur og handfangið er svartmálað. Dúkkuvagn þessi var upphaflega í eigu Sigríðar Þormar Pálsdóttur (f. 1924, d.1944), frá Neskaupsstað, en hún fórst með Goðafossi. Vagninn varð síðar í eigu Svanbjargar Sigurðardóttur, bónda á Hánefsstöðum, sem gaf hann svo til safnsins.

Við minnum á að hægt er að sjá grip dagsins og dagana á undan í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins! 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.