Jóladagatal Minjasafnsins - 14. desember

Sá siður að gefa jólagjafir eins og við þekkjum hann í dag er ekki svo ýkja gamall. Lengi hefur þó tíðkast að allt heimilisfólk fái nýja flík fyrir jólin.

Það var ekki fyrr en á seinni hluta 19. aldar sem fólk fór að gefa gjafir í tilefni jóla með þeim hætti sem nú tíðkast. Í gamla sveitasamfélaginu var þó fyrir þann tíma lögð rík áhersla á að allir á heimilinu fengju að minnsta kosti eina nýja flík og sauðskinnsskó frá húsbændum sínum fyrir jólin en ekki var litið á þetta sem gjafir í tilefni jóla heldur frekar sem laun fyrir vel unnin störf. Mikið kapp var lagt á að klára tóvinnu og prjóna nýjar flíkur á alla því annars var hætta á að fólk færi í jólaköttinn. Gripur dagsins gegndi þar lengi lykilhlutverki en það er snælda sem notuð var til að spinna þráð úr ullinni svo hægt væri að prjóna peysur, sokka og fleira á heimilisfólkið. Seinna meir tóku rokkar við af snældunum og léttu mikið undir. Snælda þessi, sem er með hvítu ullargarni á, kom frá Skeggjastöðum 1 og var í eigu Jarþrúðar Einarsdóttur (1859-1927), húsfreyju þar.

Þrátt fyrir að tímarnir séu mikið breyttir þykir mörgum enn í dag mikilvægt að fá nýja flík fyrir jólin. Ef til vill mættum við stundum staldra við og spyrja okkur hvort við ættum kannski frekar að taka okkur nýtni forfeðranna til fyrirmyndar og nýta betur það sem við eigum í stað þess að kaupa nýtt?  

Við minnum á að hægt er að skoða grip dagsins, sem og dagana á undan, á efstu hæð Safnahússins. 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.