Jóladagatal Minjasafnsins - 15. desember

Ef einhverntímann er tilefni til að baka þá er það á aðventunni!

Það er sjálfsagt óhætt að segja að eitthvað hafi dregið úr fjölda sorta sem bakaðar eru á hverju heimili, en mörgum finnst ómissandi að fá kökuilminn í húsið á þessum tíma. Á fyrri hluta 20. aldar fór að færast í vöxt að húsmæður bökuðu smákökur og tertur í stórum stíl fyrir jólin. Líkleg ástæða þess að jólabakstur varð svona vinsæll á þessum tíma er sjálfsagt sú að þá fyrst var hægt að nálgast ýmiss konar hráefni sem í baksturinn þurfti og bakarofnar voru orðnir almenn eign á heimilum. Allur bakstur varð þar með auðveldari og því tilvalið að baka alls kyns kökur og sætindi til að narta í um jólin.

Í glugga dagsins leynist ótrúlega áhugaverður gripur úr safnkostinum, en það er þetta smákökubox úr fórum Jóhannesar S. Kjarvals, listmálara. Ekki er nú smákökuboxið tómt, heldur er það fullt af girnilegum smákökum. Má þar greina t.d. hálfmána og vanilluhringi. Það má þó þess geta að Kjarval lést árið 1972 svo kökurnar hafa verið í boxinu í alllavega 48 ár og óhætt að segja að þær beri aldurinn vel.

Við viljum minna á að hægt er að skoða grip dagins, sem og dagana á undan, í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins!

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi. 

Ýtið hér til að sjá fleiri gripi í jóladagatalinu.