Jóladagatal Minjasafnsins - 17. desember

Síðastliðna nótt kom Askasleikir til byggða. Af því tilefni er gripurinn í glugga dagsins sérstakt áhugamál hans.

Askur er matarílát sem Íslendingar fóru að nota þegar húsakynni tóku að þrengjast vegna kólnandi veðurfars og ekki var mögulegt að matast við borð. Hver heimilismaður átti sinn ask og sinn spón og sat heimilisfólkið á rúmum sínum í baðstofunni á meðan það borðaði. Oftast var skammtað í askinn á kvöldin og hann geymdur á góðum stað þess á milli. Í kvæði Jóhannesar úr Kötlum er talað um að fólk hafi sett askana á gólfið fyrir kött og hund og þá hafi Askasleikir laumast úr fylgsni sínu og gætt sér á því sem eftir var í honum. 

Askurinn sem er í glugga dagsins var ekki notaður til að borða úr heldur til skrauts. Hann er fagurlega útskorinn út birkii. Gjarðirnar eru nýjar og renndar af Guðmundi Þorsteinssyni frá Lundi en askurinn var gefinn til safnsins af systkinunum frá Litla-Bakka í Hróarstungu. Askasleikir myndi örugglega ekki fúlsa við bita úr þessum fallega aski.

Við viljum minna á að hægt er að skoða grip dagins, sem og dagana á undan, í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins!

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.