Jóladagatal Minjasafnsins - 20. desember

Flestum þykir mikilvægt að híbýli þeirra séu tiltölulega hrein þegar jólin ganga í garð.

Það er þó misjafnt hversu ítarleg jólahreingerningin er. Jólahreingerning er síður en svo ný af nálinni því fyrr á tímum var mikið kapp lagt á að skúra og skrúbba híbýli manna, þvo þær fáu flíkur sem fólk átti, þvo af rúmum, matarílát og fleira. Siðurinn hefur haldið velli þó svo að aðstæður fólks séu allt aðrar í dag og kannski ekki eins mikil þörf á alsherjarhreingerningu akkúrat fyrir jólin. 

Gripur dagsins hefur eflaust oft fengið að taka þátt í nokkrum jólahreingerningum en það er þessi forláta Nilfisk ryksuga sem Ólöf Björgheiður Sölvadóttir (f. 1926) gaf til safnsins. Nilfisk er danskt fyrirtæki sem var stofnað árið 1906. Fyrstu Nilfisk ryksugurnar komu á markað árið 1910 og voru þær engin smá smíði eða 17,5 kíló. Ryksugan á myndinni er frá árunum í kringum 1960 en á þeim tíma nutu ryksugur sem þessar mikilla vinsælda hér á landi. 

Við minnum á að hægt er að sjá grip dagsins, sem og daganna á undan, í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins. 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýtið hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.