Jóladagatal Minjasafnsins - 21. desember

Mörgum finnst algjörlega ómissandi að hafa góða bók við höndina á aðventunni og um jólin.

Flestar bækur á Íslandi eru einmitt gefnar út mánuðina fyrir jól og iða margir í skinninu þegar þeir frétta af útgáfu "Bókatíðinda" ár hvert, en blaðið hefur verið gefið út síðan 1944. Bækur eru því mjög algeng jólagjöf á Íslandi. Aðgengi að bókum hefur þó ekki alltaf verið jafn gott og nú og gengu bækur oft heimila á milli. Á aðfangadagskvöld í gamla bændasamfélaginu var yfirleitt lesinn húslestur í baðstofunni og sungnir jólasálmar úr sálmabók. Gripur dagsins í jóladagatalinu er bók sem fannst á Þorvaldsstöðum í Skriðdal þegar gamli bærinn þar var rifinn og heitir "Hundrað hugvekjur", gefin út 1926. Er hún merkt Haraldi Eyjólfssyni.  Hægt er að ímynda sér að lesnir hafi verið húslestrar úr þessari bók á jólaföstunni, en í henni eru predikanir eftir hina ýmsu presta. 

 

Við minnum á að hægt er að sjá grip dagsins, sem og daganna á undan, í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins. 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.