Jóladagatal Minjasafnsins - 16. desember

"Vantar allt malt í þig?"

Það eru sjálfsagt margir sem muna eftir þessari setningu Flosa Ólafssonar, leikara, úr frægri maltauglýsingu en lengi vel var malt markaðssett sem heilsudrykkur og selt í miklum mæli á heilbrigðisstofnanir þar sem það átti að vera næringarríkt og taugastyrkjandi fyrir fullorðna jafnt sem börn. Sama hvað því líður er malt er eitthvað sem við tengjum mikið við jólin, en þá er vinsælt að blanda því saman við appelsín og fá þannig hina klassísku "jólablöndu". Upphaflega byrjaði þessi hefð í kringum 1940 og var malti blandað við aðra drykki til að drýgja það, því að maltið var mjög dýr drykkur. Árið 1955 kom Egils appelsín á markaðinn og fóru menn þá að blanda maltinu saman við það. Árið 1960 er þetta orðinn nokkuð almennur siður á Íslandi. Gripur dagsins í dagatalinu er auðvitað þessi flotta maltflaska sem kom frá Freyshólum á Völlum, en hún - ásamt hinum flöskunum á myndinni - var þar notuð undir berjasaft. 

Við viljum minna á að hægt er að skoða grip dagins, sem og dagana á undan, í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins!

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.