Gestagangur í desember
Það hefur verið gestkvæmt á safninu í desember en undanfarna daga hafa um 220 grunnskólanemendur heimsótt safnið í skipulögðum jólaheimsóknum.
Flestir hafa nemendurnir verið af yngsta stigi og var þeim boðið upp á fræðslu um jólasveinana þrettán með áherslu á þá gripi og athafnir sem þeir draga nöfn sín af eða höfðu sérstakan áhuga á samkvæmt jólasveinavísum Jóhannesar úr Kötlum. Í gegnum það varð til skemmtilegt spjall um líf fólks í gamla daga, matarhefðir, athafnir og hluti sem þá voru í daglegri notkun en fá þekkja í dag. Nemendur af miðstigi heimsóttu einnig safnið og varð þeim boðið upp á notalega sögustund í rökkrinu þar sem rætt var um þjóðsögur sem tengjast jólunum og álfa, tröll og vættir sem þá fara stundum á kreik. Þá var gestunum boðið að kíkja inn í Grýluhellinn sem birtist í sýningarsal safnsins í byrjun aðventunnar.
Það sem af er ári hafa í kringum 670 nemendur af öllum skólastigum heimsótt safnið í skipulögðum skólaheimsóknum eða tekið þátt í fræðsluverkefnum sem safnið hefur boðið upp á í skólunum. Þar fyrir utan hefur safnið staðið fyrir nokkrum opnum smiðjum og viðburðum fyrir börn og fjölskyldur þeirra, t.d. jólasamveru í desember í samstarfi við Bókasafn Héraðsbúa þar sem yfir 100 manns mættu og fóru í ratleiki, föndruðu, skreyttu kerti o.fl.