Gripur mánaðarins - Apríl
Það er ekki hægt að segja annað en að við séum að upplifa skrítna og óraunverulega tíma núna en öll vonumst við eftir að komast í rétta rútínu sem allra fyrst.
Eitthvað hefur heyrst að fólk sé í þessu ástandi að hamstra hina og þess hluti og hefur þá einna helst klósettpappír verið í umræðunni sem og allskyns dósamatur. Eitt er það þó sem fólk vill alls ekki vera án ef það þarf að vera lengi innilokað og er það kaffi! Hlutur dagsins tengist því kaffidrykkju, þá einna helst kaffidrykkju áður fyrr. En kannski væri tilvalið að hefja aftur framleiðslu á þessum hlut á þessum tímum, kaffipokinn myndi endast lengur og minni áhyggjur þyrfti að hafa yfir að verða uppiskroppa með kaffi.
Jú, við erum einmitt að tala um kaffibæti, eða öllu heldur bauk undan "Ekta David kaffibæti" sem kom úr búi Vigfúsar Eiríkssonar og Sigríðar Jónsdóttur frá Hallfreðarstöðum í Hróarstungu. Kaffibætir þessi var framleiddur af Kaffibætisverksmiðju O. Johnson og Kaaber í Reykjavík. Aftan á bauknum stendur: "1/5 kg. Ludvig David er framúrskarandi bragðgóður og ilmsterkur kaffibætir, framleiddur úr beztu hráefnum. Ludvig David geymist bezt á svölum og ekki of þurrum stað."
Kaffibætir var fluttur inn frá því um 1870 og þótti sjálfsagt að nota hann til að drýgja kaffið. Kaffibætir var gerður úr rótum kaffifífils eða sikoría (Cichorium intybus) sem er fjölær matjurt. Rótinni var blandað saman við malað kaffi, stundum allt að því til helminga. Kaffi án kaffibætis var gjarnan nefnt baunakaffi. Ekki líkaði öllum kaffibætirinn þó vinsæll væri fram undir miðja síðustu öld. O. Johnson & Kaaber flutti inn Ludvig David kaffibæti sem einhverra hluta vegna var ávallt kallaður Export. Kaffibætirinn var einnig nefndur rót og þannig er tilkomið að rætt var um rótsterkt kaffi. Í innflutningshöftunum í kreppunni miklu upp úr 1930 var farið að vinna Export kaffibæti hér á landi. Kaffibætirninn var í plötum og yfirleitt var notast við fjórðung úr plötu eða hálfa í hvern uppáhelling.
Nánar um grip mánaðarins á Sarpi.
Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.