Skip to main content

Grunnsýningar

Á safninu eru tvær grunnsýningar, annars vegar sýningin Sjálfbær eining og hins vegar Hreindýrin á Austurlandi.

Hreindýrin á Austurlandi

Sýningin Hreindýrin á Austurlandi opnuð sumarið 2015. Hreindýrin hafa í gegnum árin skapað náttúru og menningu Austurlands sérstöðu. Sýningin fjallar um lífshætti og lífsbaráttu hreindýranna, hætturnar sem þau búa við af völdum náttúru og mannsins, um rannsóknir á þeim, um sögu hreindýraveiða og hvernig afurðir dýranna hafa verið nýttar til matar og í handverki og hönnun. Á sýningunni er meðal annars hægt að horfa á kvikmyndina Á hreindýraslóðum eftir Eðvarð Sigurgeirsson frá fimmta áratug 20. aldar, glænýja stuttmynd (teiknimynd) um hreinreið Bjarts í Sumarhúsum eftir Láru Garðarsdóttur teiknimyndahönnuð og leikstjóra og nýja heimildamynd Hjalta Stefánssonar og Heiðar Óskar Helgadóttur um hreindýrin. Einnig er hægt að hlusta á frásagnir hreindýraveiðimanna auk þess sem mikið magn ljósmynda er á sýningunni og ýmsir munir úr hreindýrshorni og hreindýrsskinni svo fátt eitt sé nefnt. Höfundur sýningar er Unnur Birna Karlsdóttir en sýninguna hannaði Björn G. Björnsson. 

Sjálfbær eining

Yfirskrift sýningarinnar vísar til þess að áður fyrr þurfti hvert íslenskt sveitaheimili að vera sjálfu sér nægt um brýnustu lífsnauðsynjar, fæði, klæði, áhöld, verkfæri og húsaskjól. Til sýnis eru ýmsir gripir sem tilheyra sögu gamla sveitasamfélagsins á Austurlandi eins og það var fram undir miðja 20. öld. Þessir gripir eru vitnisburður um búskaparhætti, handverk og lífsbaráttu fólks sem lifði af landi sínu og bústofni fyrir daga nútímatækni. Flestir gripirnir á sýningunni tengjast hagnýtu hlutverki þeirra í daglegu lífi, bústörfum, klæða- og matargerð. Aðrir gripir á sýningunni endurspegla að lífið snerist ekki aðeins um hið hagnýta heldur einnig um að búa til fallega hluti til prýði og yndisauka. Á sýningunni má meðal annars finna baðstofu frá bænum Brekku í Hróarstungu. Sýninguna hannaði Björn G. Björnsson.