Skólaheimsóknir

Stór liður í starfi Minjasafnsins er að taka á móti skólahópum á öllum skólastigum.

Óski kennarar eftir að koma með skólahópa á Minjasafnið geta þeir haft samband í síma 471-1412 eða á netfangið: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. fyrir nánari upplýsingar.

Við minnum einnig á að Minjasafnið býður upp á námsefni sem tengist sýningum og safnkosti safnsins. Nánari upplýsingar um það má finna hér

Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi um safnaheimsóknir sem Minjasafn Austurlands býður uppá. Listinn er alls ekki tæmandi og hafi kennarar hugmyndir að öðrum umfjöllunarefnum hvetjum við þá til að hafa samband.

Jólasveinarnir og áhugamálin þeirra

Jólasveinarnir og áhugamálin þeirra

Í heimsókninni er fjallað um jólasveinana eins og þeir koma fyrir í vísum Jóhannesar úr Kötlum. Sagt er frá áhugamálum þeirra og útskýrt frá hverju þeir draga nöfn sín. Hvaða „froðu“ stal Giljagaur? Hvar var Kjötkrókur þegar hann „krækti sér í tutlu“? Hvað er „tutla“? Til hvers notar maður „þvöru“ og af hverju hentist Bjúgnakrækir upp í rjáfrin? Þessum og fleiri spurningum og vangaveltum verður svarað í heimsókninni sem hentar vel yngsta stigi grunnskóla en má einnig aðlaga að miðstigi. Í tengslum við þessa heimsókn má benda á námsefnispakkann fyrir 2. bekk í námsefni Minjasafnsins.


Leikir fyrr og nú

Leikir fyrr og nú

Í heimsóknni er fjallað um hina ýmsu leiki og þrautir, allt frá víkingatímum til vorra daga. Gestir fá tækifæri til að spila refskák og myllu, stökkva yfir sauðalegg, sækja smjör í strokkinn, spyrja spávölur, leika með horn og bein og fleira. Tilvalin heimsókn þegar farið er að vora í lofti svo hægt sé að vera úti en einnig er hægt að taka á móti hópnum innan dyra. Þessa heimsókn er hægt að sníða að öllum aldurshópum.


Hreindýr - safnarallý

Hreindýr - safnarallý

Á sýningunni Hreindýrin á Austurlandi er fjallað um þessi einkennisdýr Austurlands. Nemendur fá leiðsögn um sýninguna og í framhaldi af því fara þau í svokallað safnarallý þar sem þau geysast um sýninguna í leit að fyrirfram ákveðnum gripum. Að því loknu er horft á teiknimyndina Bjartur og hreindýrið. Námsefnispakkinn fyrir 3. bekk í námsefni Minjasafnsins fjallar um hreindýrin og tilvalið að vinna með það efni fyrir eða eftir heimsóknina. Heimsóknin hentar vel fyrir yngsta stig og miðstig grunnskóla