Gripur mánaðarins

Gripur mánaðarins - Nóvember

Gripur mánaðarins - Nóvember

Nú þegar veturinn er formlega hafinn er við hæfi að draga fram grip sem tengist honum!

Ekkert er skemmtilegra á fallegum vetrardögum en að nýta snjóinn í skemmtilegan leik. Þá eru ýmis leikföng tekin út sem fengið hafa að dvelja inn í geymslu frá síðasta vetri. Þannig hefur það eflaust verið með þennan glæsilega sleða sem Finnur Þorsteinsson (f.1961) gaf til safnsins árið 2018 en Finnur er sonur Þorsteins Sigurðssonar (1914-1997), læknis á Egilsstöðum, og Friðbjargar Sigurðardóttur (1918-1986). Sleðinn er fyrir barn til að sitja í og annað að ýta, líkt og skíðasleði, en hann er úr við og masónítplötur eru á hliðum. Sleðinn var smíðaður trésmíðaverkstæði Kaupfélags Héraðsbúa eftir mynd sem Friðbjörg kom með úr erlendu blaði. Ekki er vitað hver smíðaði sleðann en það var í kringum árið 1960. Notendur voru þeir bræður, Finnur og Þórhallur Þorsteinsson (f. 1948).

 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.


Gripur mánaðarins - Október

Gripur mánaðarins - Október

Nýr mánuður kallar á nýjan grip mánaðarins!Þar sem sólin er sífellt lægra á lofti teljum við heppilegast að draga fram grip sem hefur eitt sinn unnið gott verk við að lýsa upp skammdegið. Til eru mörg ljósfærin sem notuð voru í torfbæjunum í gamla daga og er svona lýsiskola, eða týra, eitt þeirra. Þessi ausulaga kola er úr steini og er með haldi. Lýsi eða flot var sett í skálina, kveikur sem snúinn var saman úr fífuhárum settur þar ofan í og síðan látið loga. Steinkolur voru notaðar áður en lampar úr málmi komu til en haldið var um skaftið á kolum sem þessum þegar ljósið var borið um innanbæjar. Því mátti svo einnig stinga í gat á stoð eða í torfvegg. Kola þessi kemur frá Bakka á Borgarfirði eystra. Þegar kolan fannst var haldið brotið af henni, en fannst skammt frá. Helgi Eyjólfsson (1925-2008), búsettur í Árbæ á Borgarfirði eystra, fann koluna, gerði við og gaf safninu.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.


Gripur mánaðarins - September

Gripur mánaðarins - September

September runninn upp og allt komið í rútínu!Eftir langt og ljúft sumarfrí er skólinn því aftur hafinn og allt gengur sinn vanagang. Margt hefur breyst á síðustu árum og áratugum hvað varðar kennsluhætti og skólagöngu barna en árið 1907 voru í fyrsta sinn sett lög um skólaskyldu á Íslandi. Hún hefur síðan þá lengst úr fjórum og upp í tíu ár.

Gripur septembermánaðar tengist einmitt skólagöngu en hann var gefinn á safnið af Vilhjálmi Hjálmarssyni (1914-2014) frá Brekku í Mjóafirði. Þetta skemmtilega skólaspjald sem sýnir mynd af beinagrind manns var keypt í grunnskólann í Mjóafirði í kringum 1930 og man Vilhjálmur eftir því að hafa notað það í kennslu þar 1936-47 sem og 1956-67. Það hefur því nýst ansi vel við skólann og eflaust mikið lengur en það. Spjaldið er eitt af fjölmörgum sem Vilhjálmur gaf á safnið árið 1985.    

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.


Gripur mánaðarins - Maí

Gripur mánaðarins - Maí

Nú er tími ferminganna og tengist því gripur mánaðarins honum!Nú kappkosta verslanir við að selja fermingarbörnum hin fullkomnu fermingarföt. Hér áður fyrr voru þó fermingarfötin oftar en ekki heimasaumuð og er það raunin með grip mánaðarins að þessu sinni en það er þessi undurfagri fermingarkjóll sem er úr kremhvítu krepi, með kraga úr hvítu atlassilki. Með honum fylgir hvítur undirkjóll úr lérefti. Fermingarkjóllinn sjálfur er alveg gólfsíður og er saumaður af Kristjönu Guðmundsdóttur (f. 20.06.1901, d. 23.06.1985), móður gefanda sem er Gunnþórunn Hvönn Einarsdóttir (f. 01.04.1934) frá Hvanná á Jökuldal. Hún fermdist árið 1948.

Eflaust hefur kjóllinn fengið að njóta sín í kirkjunni, því ekki var farið að nota fermingarkyrtla af ráði á þeim árum. Það var ekki fyrr en um og eftir 1955 sem þeir fóru að ryðja sér rúms og voru keyptir í hverja kirkjuna á fætur annarri hérlendis. Þeir þóttu gera ferminguna hátíðlegri en ella en ekki síður gerðu þeir að verkum að ekki sást munur á fátækum og ríkum við athöfnina. Safnið geymir einmitt líka nokkra kyrtla frá Þingmúlakirkju í safnkosti sínum. Í tímariti Húsfreyjunnar frá 1. mars 1955 má finna skemmtilega grein um fermingarkyrtla og reynt að gefa leiðbeiningar um t.d. úr hvaða efni sé best að sauma þá og hversu mikið efni þarf í hvern kyrtil. Einnig er, með mynd frá fermingu í Akraneskirkju, sýnt fram á hversu klæðilegir kyrtlarnir eru, jafnt á piltum sem stúlkum. Á þá einnig að liggja í augum uppi hversu mikill sparnaður þetta er fyrir aðstandendur barnanna, "ekki sízt stúlkna, því að fermingarkjólar þeirra hafa oft verið óhæfilega dýrir fyrir efnalitla foreldra".

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins. 


Gripur mánaðarins - Apríl

Gripur mánaðarins - Apríl

"Á skíðum skemmti ég mér, trallallalaa..."

Þá hefur aprílmánuður látið sjá sig og þeir sem dýrka skíðasportið nýta nú hverja mínútu til iðkunar. Það má með sanni segja að skíðabúnaður hafi breyst mikið síðustu ár og áratugi, allt til þess að bæta árangur og öryggi skíðafólks. Við viljum endilega tengja grip mánaðarins við þessa ágætu íþrótt en að þessu sinni eru það þessir glæsilegu, vínrauðu skíðaskór með hvítu loðfóðri kringum ökklann. Skórnir eru í stærð 9 (ca. 37-38) og eru vel máðir sem segir okkur að eitthvað hafi þeir verið notaðir. Þeir voru í eigu Guðrúnar Sigurðardóttur (f. 19.08.1933, d. 14.11.2015), húsfreyju á Hallormsstað en hún var eiginkona Sigurðar Benediktssonar Blöndal (f. 03.11.1924, d. 26.08.2014), skógræktarstjóra á Hallormsstað.  Hér má sjá mynd af þeim hjónum af vef Ljósmyndasafns Austurlands.

 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins. 


Gripur mánaðarins - Mars

Gripur mánaðarins - Mars

Marsmánuður er mættur á svæðið og langþráður öskudagur að renna upp!

Öskudagur er upphafsdagur lönguföstu, miðvikudagurinn í 7. viku fyrir páska. Hann hefur löngum verið mikilvægur dagur í kaþólska kirkjuárinu og er nafn hans dregið af því að þá er sumstaðar ösku dreift yfir höfuð kirkjugesta og jafnvel notaður sérstakur vöndur til þess. Askan átti að hreinsa fólk af syndum þess. 

Nafnið öskudagur kemur fyrir í íslenskum handritum frá 14. öld. Þar má sjá að dagurinn gegnir sama hlutverki hér og í öðrum kaþólskum sið í Evrópu, hann er dagur iðrunar fyrir gjörðar syndir. Þótt hátíðleiki öskudagsins hafi minnkað og jafnvel horfið hér á landi við siðbreytinguna hélt fólk áfram að gera sér glaðan dag síðustu dagana fyrir lönguföstu og hér hafa þróast ýmsir siðir kringum bolludag, sprengidag og öskudag. Að hengja öskupoka á fólk á þessum degi virðist hafa verið alíslenskur siður. Eina útlenda dæmið um einhvers konar öskupoka, sem fundist hefur, er frá Danmörku og kemur fyrir hjá sagnfræðingnum Troels-Lund í verki hans Dagligt liv i Norden, en það er í þá veru að menn hafi slegið hvern annan með öskupokum, en ekki hengt þá hver á annan. Í gamla daga var til siðs að konur hengdu poka með ösku á karla en karlar hengdu poka með smásteinum á konurnar.

Elsta heimild um orðið „öskupoki“ er úr orðabók Jóns Ólafssonar úr Grunnavík, líklega frá miðbiki 18.aldar en þar segir:

„Öskupoki, stundum öskuposi: Lítill poki fylltur ösku, sem piltar eða stúlkur hengja, sér til gamans á klæði annarra eða koma öðrum til að bera óvart á einhvern hátt á öskudag, það er að segja miðvikudag í föstuinngang. Sama á við um burð á steinum eða steinvölum. Þessi venja er án efa leifar úr kaþólskum sið.“

Gripur mánaðarins að þessu sinni er því að sjálfsögðu þessi glæsilegi öskupoki, en þeir eru þónokkrir í safnkostinum. Sá sem varð fyrir valinu að þessu sinni kemur úr dánarbúi Jónasar Péturssonar, Lagarfelli í Fellabæ og var gefinn á safnið af Önnu Bryndísi Tryggvadóttur árið 1997. Pokinn er úr hvítu fóðursilki, kappmellaður á hliðum með appelsínugulu bandi. Framan á er bróderuð blá skeifa og ýmis blóm í rauðum og appelsínugulum lit. Efst er band sem hægt er að þrengja opið með þegar búið var að setja eitthvað ofan í pokann.

Til gamans má geta að samkvæmt hjátrúnni á öskudagurinn sér 18 bræður sem þýðir að á eftir honum eiga að koma 18 dagar með eins veðurfar. Ekki eru allir sammála um það hvort það séu 18 næstu dagar eða hvort þeir geti dreifst á lengra tímabil.

 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins. 

Stutt kennslumyndband sem sýnir réttu handtökin í öskupokagerð frá Minjasafni Austurlands,í  samstarfi við Bókasafn Héraðsbúa og Soroptimistaklúbb Austurlands.

 

Heimildir: "Af hverju er öskudagurinn haldinn hátíðlegur?" Svar frá Unnari Árnasyni, bókmenntafræðingi, 5.3.2003. Af Vísindavef Háskóla Íslands. 


Gripur mánaðarins - Febrúar

Gripur mánaðarins - Febrúar

Sólin sífellt hærra á lofti og tími fyrir nýjan grip mánaðarins! 

Að þessu sinni tengist gripur mánaðarins leik barna hér áður fyrr. Þessi fallegi leikfangakistill og innihald hans kemur frá Höfða á Völlum og heimasmíðaður að öllu leyti, eitthvað sem var ekki óalgengt að sjá. Kistillinn er úr grófum spýtum og hefur verið blámálaður að utan en málningin talsvert farin að mást af. Innan í kistlinum má svo finna leikföng, útskorin úr tré; tveir hestar, tvö folöld, ein kona og tveir karlar. Þau hafa einnig öll verið máluð blá en sér nú mikið á þeim, líklega vegna þess hversu mikið hefur verið leikið með þau. Kistillinn var gefinn á safnið árið 1990 af Aðalsteini Bjarnasyni (1914-2002) en hann ólst upp hjá systkinunum frá Höfða á Völlum, þeim Eyjólfi, Einari, Jónasi og Hólmfríði Jónsbörnum (fædd á árunum 1878-1885). Systkinin áttu kistilinn er þau bjuggu sem börn í Mjóanesi í Vallahreppi. Ingibjörg Stefánsdóttir (1916-2003), ljósmóðir á Egilsstöðum, afhenti safninu gripinn en hún mundi sjálf eftir að hafa leikið sér að leikföngunum sem barn í kringum 1923-1924. 

Gott dæmi um hvað fólk þurfti að vera sjálfu sér nægt um hina ýmsu hluti, og óhætt er að segja að þeir hlutir verði dýrmætari með tímanum. 

Við viljum vekja athygli á því að ný örsýning, "Uppáhalds gripir", hefur litið dagsins ljós í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins en þar má einmitt finna þennan fallega leikfangakistil ásamt fleiri uppáhaldsmunum úr safnkostinum að mati starfskvenna Minjasafnsins. Við hvetjum gesti og gangandi til að líta við. 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins. 


Gripur mánaðarins - Janúar

Gripur mánaðarins - Janúar

Nýtt ár gengið í garð, jóladagatalið búið og nýr gripur mánaðarins lítur dagsins ljós!

Nú er kominn tími til að pakka jóladótinu í kassa og henda upp á háaloft. Sumir hverjir umbreyta heimilinu algjörlega fyrir jólin til að koma öllu jóladótinu fyrir, skipta t.d. út gardínum og dúkum. Þar sem jóladúkarnir ættu nú að vera komnir ofan í kassa, er kominn tími til að finna þá dúka sem voru á heimilinu fyrir jól. Vel gæti verið að gripur mánaðarins að þessu sinni hafi einhverntímann þurft að víkja fyrir jóladúk í desember en það er þessi fallegi kommóðudúkur sem kom til safnsins árið 1948 og er því kominn talsvert til ára sinna, en er mikil prýði þrátt fyrir það. Dúkurinn, sem er 46x85 cm stór, er heklaður með rússnesku hekli. Grunnurinn er jurtalitaður brúnn og breiður kantur er allan hringinn. Munstur er heklað í dúkinn, en í miðju er hann prjónaður og munstur þar saumað út með krosssaumi í ýmsum litum. Dúkurinn var gerður af Guðnýju Halldórsdóttur (1878-1953), ráðskonu á Krossanesi við Reyðarfjörð. Guðný var fædd á Haugum í Skriðdal.

Á vef Héraðsskjalasafnsins má sjá mynd (nr. 14) af Guðnýju viðra handavinnu sína en myndin er úr safni Jónasar Jónassonar frá Kolmúla. 

Nánari upplýsingar um grip mánaðarins á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins. 


Gripur mánaðarins - Nóvember

Gripur mánaðarins - Nóvember

Hvort sem þið trúið því eða ekki, þá er kominn nóvember......

....og tími til kominn að hér inn komi nýr gripur mánaðarins. Það er úr mörgu að velja í safnkosti Minjasafnsins en alls eru þar skráðir 12.093 gripir þegar þetta er skrifað og hver og einn gripur með sína sögu. Gripurinn sem valinn var að þessu sinni er nú ekki ýkja stór, en fagur er hann. Hér er nefnilega um að ræða einstaklega fallegt gleraugnahulstur. Svona hulstur eru sjaldséð í dag en þetta er gert úr harðviði og opnast með löm að hluta til að ofan. Skorið er ofan í það lykkjumynstur, mánaðardagur og ártal við lömina: "17. apríl 1901". Á bakhliðinni stendur: "Ljósbjörg Magnúsdóttir", með einföldu skrauti í kring. Eigandi var langamma gefanda, Ljósbjörg Magnúsdóttir (f.08.01.1848), húsfreyja á Freyshólum í Vallahreppi. Guðjón Jónsson, snikkari á Reyðarfirði, hagur bæði á járn og tré, sonur Ljósbjargar smíðaði gleraugnahúsið. Gleraugun fylgja húsinu. 

 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.

 


Gripur mánaðarins - Október

Gripur mánaðarins - Október

Október er mættur í allri sinni dýrð.Gripur októbermánaðar er ekki af verri endanum og eflaust margir sem kannast við grip af þessu tagi, nema kannski aðeins nýlegri gerð sem algengt var að sjá á heimilinum í kringum 1960-1970. Gripurinn sem hér um ræðir er nefnilega þrívíddarmyndakíkir úr tré ásamt 46 heilum myndum (og fimm brotnum). Gripurinn var einnig stundum nefndur "myndsjá og var notaður til að skoða myndir í þrívídd en þá var myndunum stillt upp á "syllu" fyrir framan sjónglerin og svo var kíkt í gegn.  Myndirnar sem fylgja með eru geymdar í tveimur gömlum vindlakössum en á þeim sést aðallega erlent landslag í svarthvítu. Myndsjár af þessu tagi voru algengar í byrjun 20. aldar, og kemur þessi frá Hallormsstað. Gefendur eru synir Guttorms Pálssonar, skógarvarðar, þeir Hjörleifur Guttormsson (f. 1935) og Gunnar Guttormsson (f. 1935). Upphaflega gæti myndsjáin hafa komið með föður þeirra frá Danmörku þegar hann kom frá skógræktarnámi árið 1908 og minnast synir hans þess að hún hafi ætíð verið geymd í skáp í svonefndri "litlu stofu" á Hallormsstaðabænum. Þegar krakkarnir voru veikir og lágu í bælinu var gripurinn oft dreginn fram til ánægju og yndisauka. 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins. 


Gripur mánaðarins - September

Gripur mánaðarins - September

Nú hefur september runnið upp og liðurinn "Gripur mánaðarins" því kominn úr sumarfríi! 

Í sumar barst safninu skemmtilegur gripur með mikla sögu, en það er þessi dásamlega handknúna saumavél. Saumavélin er steypt úr stáli, svartmáluð og á miklum flúruðum fæti en hún kemur úr búi Þórunnar Jóhannesdóttur (f. 11.09.1860, d.09.12.1953), húsfreyju í Geitavík á Borgarfirði eystra. Þórunn var fædd að Mörtungu á Síðu og reiddi Jóhannes S. Kjarval fjögurra ára gamlan frá Meðallandi til Borgarfjarðar en foreldrar Þórunnar tóku hann í fóstur til sín í Geitavík. Jóhannes (f. 24.06.1836, d.12.05.1906), faðir Þórunnar, var móðurbróðir Kjarvals. Talið er víst að Þórunn hafi saumað föt á Kjarval á þessa vél. Þórunn gaf Þorbjörgu Jónsdóttur (f. 08.07.1923, d. 21.08.2006) í Geitavík saumavélina og varð hún síðar eftir þar eftir að Þorbjörg fluttist suður. Dóttir Þorbjargar, Guðrún Björnsdóttir (f. 30.08.1949) gaf safninu vélina í sumar sem áætla má að sé frá því fyrir aldamótin 1900.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins. 


Gripur mánaðarins - Maí

Gripur mánaðarins - Maí

Það var mikil sorg sem ríkti þegar hætt var framleiðslu á bláum ópal í september 2005.

Skýr­ing­in var sögð vera að „fram­leiðslu mik­il­væg­asta bragðefn­is­ins hefði verið hætt og þrátt fyr­ir ít­ar­lega eft­ir­grennsl­an og rann­sókn­ir sæl­gæt­is­meist­ara Nóa-Síríus­ar hefði ekki fund­ist hliðstætt efni hjá öðrum fram­leiðend­um“. Þetta lykilbragðefni var klóróform. Þetta var þó ekki í fyrsta sinn sem framleiðslu var hætt var blár ópal var ekki framleiddur frá 1982-1984 vegna hertra reglugerða um notkun klóróforms. Klóróform er hinsvegar ekki notað í matvælagerð í dag. 

Það eru sumir sem hafa átt erfitt með að sætta sig við að þessi tegund ópals sé ekki lengur seld en til eru dæmi um að bláir ópalpakkar hafi verið seldir á uppboði fyrir þúsundir króna.  

Það er gaman að segja frá því að fyrr á árinu áskotnaðist Minjasafninu þrír pakka af bláum ópal, en einn pakkinn er þó tómur. Hinir eru óáteknir. Pakkarnir voru meðal muna sem bjargað var úr rústum Tækniminjasafns Austurlands á Seyðisfirði eftir að stór aurskriða féll á safnið í desember 2020. 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins. 

 


Gripur mánaðarins - Apríl

Gripur mánaðarins - Apríl

Aprílmánuður er runninn upp og sólin sífellt hærra á lofti.

Við erum nýfarin að heyra í okkar yndislegu farfuglum aftur og lundin léttist óneitanlega. Einn af mestu hátíðisdögum Íslendinga í gegnum tíðina er einnig á næsta leyti, Sumardagurinn fyrsti sem í ár ber upp fimmtudaginn 22. apríl. Ýmist þjóðtrú tengist deginum en það átti að boða gott sumar ef sumar og vetur frysi saman aðfaranótt Sumardagsins fyrsta. Í Sögu daganna – hátíðir og merkisdagar (bls. 50, 2. útg., 1977) eftir Árna Björnsson, þjóðháttafræðing segir svo um þennan dag: 

"Hvarvetna var fylgst með því, hvort frost væri aðfaranótt sumardagsins fyrsta, þ.e. hvort saman frysti sumar og vetur. Yfirleitt var það talið góðs viti og jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns". 

Algengt var, og er enn, að gefa sumargjafir og má sjá í gömlum heimildum að þær tíðkuðust að minnsta kosti fjórum öldum áður en jólagjafir komu til sögunnar. Algengt var að fólk gæfi börnum sínum gjafir sem tengdust sumrinu, svo sem veiðidót, tjald, bolta, sápukúlur eða einhverskonar útileikföng. 

Gripir dagsins hafa mögulega einhverntímann verið sumardagsgjafir en það eru þessi fínu krokketsett og eru í því alls 24 gripir - kylfur, boltar og pinnar. Annað settið virðist nokkuð eldra en hitt. Settin koma úr búi Sigurðar Blöndal, skógræktarstjóra, og Guðrúnar Sigurðardóttur á Hallormsstað.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins. 

 


Gripur mánaðarins - Mars

Gripur mánaðarins - Mars

Það eru eflaust margir sem hverfa langt aftur í tímann við það að sjá þessa tegund af þvottavél!

Þvottavél þessi kallaðist "Þörf" og var ein af fjölmörgum uppfinningum Alexanders Einbjörnssonar (f. 24.06.1922, d. 20.11.2015) frá Borgarholti í Miklaholtshreppi. Í viðtali við Alexander úr Tímanum frá árinu 1952 segir hann að sér hafi orðið það ljóst að það þyrfti að finna upp eitthvað tæki sem létti húsmæðrum, sem ekki höfðu rafmagn, þvottinn með einhverjum hætti. Hann hafði séð sænska handsnúna þvottavél og hóf að smíða samkonar vél. Vélar þessar tóku í kringum 3-4 kg af þvotti og voru eflaust mikil búbót. Alexander smíðaði um þúsund svona þvottavélar.

 Í safnkosti Minjasafnsins má finna tvær þvottavélar þessar tegundar. Sú vél sem er gripur mánaðarins er grænmáluð og eins og þær allar er hún í tveimur hlutum (þvottavélarkassinn stendur undir). Hún er opnuð að ofan og á lokinu er sveif sem snýr spaðanum inn í henni fram og til baka í hálfhring. Í botninum er gat og gúmmíslanga fyrir afrennsli. Vélin kemur úr búi Maríu Reimarsdóttur og Elís Sveinbjörnssonar frá Flögu í Breiðdal en þau fengu vélina í kringum 1960.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.


Gripur mánaðarins - Febrúar

Gripur mánaðarins - Febrúar

Nú er tíminn til að stunda vetraríþróttirnar! 

Hér fyrir austan kom loksins góður snjóskammtur og þeir sem stunda vetraríþróttir fagna eflaust ákaft. Skíði og sleðar af öllum gerðum dregnir fram og allt nýtt út í ystu æsar þó kuldinn sé mikill þessa dagana. Gripur dagsins tengist vetraríþróttum og er þessi fallegi stýrissleði sem kemur frá Hilmari Hilmarsyni (f. 1955) frá Eskifirði. Í lýsingu gripsins á Sarpi segir gefandi:

"Þessi sleði var keyptur Noregi um 1960. Á þeim árum létu Íslendingar (ekki síst Austfirðingar) smíða fyrir sig fjölda fiskiskipa í Noregi. Þegar skipin voru sótt var tækifærið gjarnan nýtt til innkaupa á einu og öðru sem annað hvort var ekki fáanlegt á Íslandi eða hægt var að fá á lægra verði en hér á landi. Meðal þess sem margir sjómenn og útgerðarmenn festu kaup á í þessum ferðum og fluttu heim með skipunum voru barnaleikföng af ýmsu tagi og sem mörg hver þóttu nýstárleg og taka fram því sem hér hafði áður sést. Allmargir sleðar í líkingu við þennan voru fluttir til Eskifjarðar á þessum tíma. Þessi sleði var (ef ég man rétt) stærri, einkum breiðari, en flestir aðrir.

Á sleðum þessum renndu krakkar sér niður brekkur, einkum niður brattar götur þar sem snjór þjappaðist vel og best var reyndar að renna sér þar sem svell hafði myndast. Mest þótti gaman í löngum brekkum þar sem "bunan" gat orðið sem lengst og sleðarnir náð miklum hraða. Skapaðist þá stundum hætta, einkum ef krakkar renndu sér þvert yfir götur þar sem bílar gátu verið á ferð.  Kirkjutungan (á Eskifirði) var vinsæl sleðabraut og ef færi var gott þar runnum við stundum alveg niður á bryggju fyrir neðan afgreiðsluna en ekki man ég eftir neinum alvarlegum óhöppum í þessu sambandi. Þó er, eins og sjá má, dæld í stuðarann á sleðanum. Hún á sér þá skýringu að einhvern tíma hafði verið rekinn staur í miðja götuna á móts við hús Jónatans Helgasonar (Kirkjustíg 1), líklega til að hindra för bíla upp götuna. Er svo ekki að orðlengja það að í einni langreið minni á sleðanum niður brekkuna keyri ég beint á staurinn og hendist af sleðanum. Jónatan var þar nærstaddur og sá þetta og hefur líklega brugðið; að minnsta kosti snaraðist hann inn til sín, sótti stóra sög og sagaði staurinn niður með þeim orðum að hann ætlaði sko ekki að láta börnin stórslasa sig á þessari rammbyggilegu umferðarhindrun og eftir það varð umferðarmerkið "innakstur bannaður" að duga til að stöðva bílstjóra sem hugðust keyra upp götuna." (Hilmar Hilmarsson).

Þá má minna á að í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins stendur yfir örsýning sem ber nafnið "Vetur" þar sem sjá má ýmsa hluti sem tengjast vetrinum og vetraríþróttum.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarsins. 


Gripur mánaðarins - Nóvember

Gripur mánaðarins - Nóvember

Gripir mánaðarins nálgast fimmtugsaldurinn en eiga skemmtilega tengingu til dagsins í dag, nánar tiltekið nýsameinaðs sveitarfélags á Austurlandi. 

Í safnkosti Minjasafnsins má nefnilega finna þónokkur stykki af gripum mánaðarins, og eflaust má finna þá á veggjum margra heimila á Austurlandi. Gripirnir eru þessir veggplattar sem framleiddir voru í tilefni 1100 ára Íslandsbyggðar árið 1974. Haldnar voru afmælishátíðir víðsvegar um landið, t.a.m. á Eiðum.  Sérstök þjóðhátíðarnefnd var skipuð og í henni voru aðalmenn Jónas Pétursson (1910-1997), Sigurður Óskar Pálsson (1930-2012) og Þórður Pálsson (1943).

Það var fyrirtækið Glit hf. sem framleiddi veggplattana úr leirmassa fyrir Múlaþing, en samkvæmt skjölum tengdum hátíðinni var hugmyndin að fyrirtækið myndi hanna veggskildi, einn fyrir hvert hérað, á vegum og samkvæmt pöntunum hátíðarnefnda héraða og bæja. Samræmi yrði í stærð og litum plattanna, svo þeir gætu myndað röð handa söfnurum. Þessar einstöku hátíðarnefndir myndu þá taka ákvörðun um teikn eða mynd fyrir skildi viðkomandi héraðs.

Ákveðnar voru tvær myndir fyrir Múlaþing. Annars vegar Dyrfjöllin frá Héraði séð, teiknuð af Steinþóri Eiríkssyni, en hinsvegar dreki – landvættur Austurland, teiknaður af Halldóri Sigurðssyni frá Miðhúsum. Neðst á plöttunum stendur „874 Múlaþing 1974“. Veggskildirnir komu í einfaldri hvítri pappaöskju. Einnig voru pöntuð 7000 barmmerki, hringlaga í 25 eyrings stærð, með mynd af drekanum, útfærð og lituð af teiknistofu Kristínar Þorkelsdóttur í Kópavogi.

Plattarnir voru pantaðir í 2000 eintökum og áttu að kosta 1220 kr/stk. Treyst var á þegnskyldu Austfirðinga að kaupa þessa platta, sem og barmmerkin, en þessir hlutir voru aðaltekjulindin til að standa straum af kostnaði við undirbúning og framkvæmd hátíðinnar.

Nánari upplýsingar um gripina hér og hér. 

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins. 


Gripur mánaðarins - Október

Gripur mánaðarins - Október

Þá er októbermánuður runninn upp með öllum sínum sjarma og fallegu litum.

Dagurinn verður þó sífellt styttri. Við erum auðvitað löngu orðin vön því ferli og leitum yfirleitt allskonar leiða til að lýsa upp mesta skammdegið, t.d. með að kveikja á kertum og fallegum lömpum. Í vor bættist skemmtilegur hlutur við safnkost Minjasafnsins en hann nýttist einstaklega vel þeim sem ekki voru tilbúnir að segja skilið við sólina í svartasta skammdeginu. Hann átti reyndar líka að hafa gríðarlega góð áhrif á húð og andlega heilsu, en rannsóknir síðari ára hafa reyndar sýnt fram á að mikil notkun á hlutnum geti haft alvarlegar afleiðingar. Við erum auðvitað að tala um háfjallasól en sólin sú var verulega vinsæl á íslenskum heimilum í marga áratugi. 

 Í auglýsingu frá Raftækjaeinkasölu ríkisins í Læknablaðinu árið 1937 segir svo: "Hver sem tekur sólböð háfjallasólarinnar - Original Hanau - finnur andlegt fjör færast í sig, kemst í gott skap, og verður glaðlyndur. Hjá sjúklingum verða áhrifin sefandi, lífgandi og styrkir líðanina allstaðar í hinum sýkta líkama sem fær nýtt fjör og efldan mótstöðukraft gegn sjúkdómsbölinu."

Til eru sögur af því að háfjallasól hafi verið notuð á börn í grunnskólum hér áður fyrr, þar sem þau sátu fyrir framan hana með logsuðugleraugu til að verja augun. Háfjallasólin sem færð var safninu er af tegundinni Original Jomi og kemur í hvítri tösku með handfangi. Græn gleraugu, sem nota skyldi við notkun, fylgja með. 

Nánari upplýsingar um grip mánaðarins á Sarpi.

Ýttu hér til sjá fleiri gripi mánaðarins. 


Gripur mánaðarins - September

Gripur mánaðarins - September

September er genginn í garð, haustið handan við hornið og því ekki úr vegi að endurvekja grip mánaðarins eftir gott sumarfrí.

Það eru margir sem bíða í ofvæni eftir haustinu, en þá er tími uppskerunnar. Fólk flykkist út í móa til að draga björg í bú, ýmist í sveppa- eða berjamó. Þeir hörðustu sitja heilu dagana með tínur og marga dalla en aðrir láta duga að tína jafnóðum upp í sig. Lítið mál er að skjótast í næstu búð, ef manni skyldi detta í hug að hendast snöggvast í berjamó, og kaupa berjatínur fyrir alla í fjölskyldunni. Það hefur auðvitað ekki alltaf verið svo auðvelt en hlutur septembermánaðar er einmitt gott dæmi um sjálfbæra hugsun fyrri kynslóða og hvernig hlutum af heimilinu var gefið framhaldslíf. Þessi glæsilega berjatína er algjörlega heimasmíðuð úr gamalli pilsnerdós en algengt var að dósir, t.d. niðursuðudósir væru notaðar. Haldið hefur verið tinað við, sem og tindarnir sem grípa berin á lynginu. Neðst á dósinni hefur léreftspoki verið bundinn vð. Berjatínan var gefin á safnið af Sigrúnu Jónsdóttur (f.03.11.1934, d.24.08.2000), húsfreyju á Hafrafelli 1, Fellum. 

Nánari upplýsingar um grip mánaðarins á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.

Til gamans má geta að aðra heimasmíðaða berjatínu, smíðaða úr niðursuðudós, má finna á sýningunni Sjálfbær eining á Minjasafninu.

 


Gripur mánaðarins - Júní

Gripur mánaðarins - Júní

Gripur mánaðarins er að þessu sinni tengdur póstsögu landsins en það er þessi skemmtilegi póstlúður, gerður úr látúni.

Lúðurinn, sem á vantar ólina, átti Einar Ólason, landpóstur, en lúðrar af þessu tagi voru notaðir til að tilkynna komu póstsins, svo hann þyrfti ekki að koma heim á hvern einasta bæ í sveitinni. Póstferðir á Íslandi, kostaðar af opinberu fé, hófust 1782 - fyrst á Vestfjörðum. Voru þeir menn sem kölluðust landpóstar þekktir menn á sínum tíma vegna þeirra harðinda og erfiðleika sem þeir urðu við að etja á ferðum sínum, þá sérstaklega á veturna. Tæp vöð, sundvötn, jökulhlaup og veglausar heiðar - allt var þetta á leiðum póstanna. 

Einar Ólason var fæddur að Útnyrðingsstöðum á Völlum 1. nóvember 1844. Hann hóf póstferðir sínar árið 1882 frá Eskifirði til Bjarnarness eða Borga í Austur-Skaftafellssýslu. Hann sinnti póstferðum á þessari leið til ársins 1894, en lét þá af störfum vegna óskemmtilegs atviks. Það var þannig að úr pósti milli Prestbakka á Síðu og Eskifjarðar hurfu peningar. Á þessari leið voru þá póstar þeir Gísli Gíslason frá Rauðabergi og Einar Ólason. Voru þeir báðir teknir til yfirheyrslu en ekkert kom út úr þeim, en málarekstur þessi hafði það í för með sér að Einar hætti póstferðum, og tók við þeim Pétur Sigurðsson á Högnastöðum í Reyðarfirði. Peningar héldu hinsvegar áfram að hverfa og tóku böndin þá að berast að Bjarna Þórarinssyni, prófasti og póstafgreiðslumanni á Prestbakka á Síðu, og reyndist hann sannur að sök. Að máli þessu loknu var Einari aftur boðin staða sem póstur, en hann taldi sig ekki geta tekið við henni sökum vantrausts þess, er sér hefði verið sýnt. Eftir að hann hætti póstferðum fluttist hann til Borgarfjarðar eystra, fyrst í Hvannstóð en síðar að Hvoli. Þaðan fór hann að Bakkagerði í Borgarfirði og bjó þar í þurrabúð í mörg ár, allt þar til hann flutti til sonar síns, Einars, að Þingmúla í Skriðdal. 

Einar þótti harðsnúinn ferðamaður og bráðduglegur. Hann var hreinn og beinn og stórbrotinn í skapi. Þótti hann jafnvel stundum kappsamur um of í ferðum sínum. Eitt sinn í póstferð, kom Einar að Jökulsá í Lóni ófærri af krapastíflu og íshroða. Töldu allir kunnugir, að áin væri algjörlega ófær. En Einar vildi halda áfram ferð sinni og lagði þegar í ána. Óð hann krapann upp í mitti og braut með hnjám og leggjum ísinn fyrir hestunum og komst þannig yfir um ána. Var hann verulega illa leikinn eftir þetta og bar ör árum saman. 

Einar lést 1. desember 1934 að Hafranesi við Reyðarfjörð, þá níræður að aldri og var jarðsettur að Mýrum. 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins. 

 

Heimild: Söguþættir landpóstanna, 1.-3. bindi. 

 


Gripur mánaðarins - Maí

Gripur mánaðarins - Maí

Gripur mánaðarins er þessi fallega hálsfesti. Hún má teljast nokkuð óvenjuleg að því leyti að hún er búin til úr mannshári. Í festinni er nefnilega hár systranna Sigurlaugar (1847-1936) og Guðríðar Jónsdætra frá Njarðvík. Þær voru dætur Jóns "fræðimanns" Sigurðssonar (1802-1883) fæddum á Surtsstöðum og Sigþrúðar Sigurðardóttur (1816-1887) frá Njarðvík. Guðríður og Sigurlaug voru giftar feðgum, þeim Stefáni Benediktssyni (1836-1914) og Þorvarði Stefánssyni (1859-1944) frá Borgarfirði eystra. Systurnar fluttu frá Borgarfirði með fjölskyldum sínum til Ameríku á miðjum aldri og bjuggu þar til æviloka. Guðríður lést fyrr og lét þá systir hennar, Sigurlaug, búa til festina úr hári þeirra beggja og bar hún hana þar til hún lést. Ágústa Þorvarðardóttir (líklega dóttir Guðríðar) sendi festina til Íslands að þeim látnum til Sigríðar Eyjólfsdóttur (1921-2008) prestsfrúar á Borgarfirði eystra. Ásta Steingerður Geirsdóttir, dóttir Sigríðar, gaf safninu gripinn. Til gamans má hér sjá mynd af Guðríði og Þorvarði, og hér af Sigurlaugu, Stefáni og fósturdóttur þeirra en myndirnar eru varðveittar á Ljósmyndasafni Austurlands. 

Í Evrópu hefur frá fornu fari þekkst að vinna list- og skrautmuni úr mannshári og á 19. öld varð þar til sérstök fagstétt sem notaðist við þennan efnivið til að gera myndir. Algengt var að á síðari hluta 19. aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu að úr mannshári væri gerðir ýmsir skartgripir, s.s. hálsfestar, eyrnalokkar, hringar, snúrur á vasaúr, nælur og fleira. Að öllum líkindum var þessi festi gerð í Ameríku, en vitað er um að umboð hafi verið á Seyðisfirði fyrir norskt fyrirtæki sem sérhæfði sig í þessari iðju. Í safnkosti Minjasafnsins er að finna þónokkra hluti gerða úr eða skreytta með mannshári, t.d. þennan hring og þessa úrfesti.

Nánari upplýsingar um grip mánaðarins að þessu sinni má finna HÉR.

Ýttu HÉR til að sjá fleiri gripi mánaðarins. 


Gripur mánaðarins - Apríl

Gripur mánaðarins - Apríl

Það er ekki hægt að segja annað en að við séum að upplifa skrítna og óraunverulega tíma núna en öll vonumst við eftir að komast í rétta rútínu sem allra fyrst. 

Eitthvað hefur heyrst að fólk sé í þessu ástandi að hamstra hina og þess hluti og hefur þá einna helst klósettpappír verið í umræðunni sem og allskyns dósamatur. Eitt er það þó sem fólk vill alls ekki vera án ef það þarf að vera lengi innilokað og er það kaffi! Hlutur dagsins tengist því kaffidrykkju, þá einna helst kaffidrykkju áður fyrr. En kannski væri tilvalið að hefja aftur framleiðslu á þessum hlut á þessum tímum, kaffipokinn myndi endast lengur og minni áhyggjur þyrfti að hafa yfir að verða uppiskroppa með kaffi. 

 Jú, við erum einmitt að tala um kaffibæti, eða öllu heldur bauk undan "Ekta David kaffibæti" sem kom úr búi Vigfúsar Eiríkssonar og Sigríðar Jónsdóttur frá Hallfreðarstöðum í Hróarstungu. Kaffibætir þessi var framleiddur af Kaffibætisverksmiðju O. Johnson og Kaaber í Reykjavík. Aftan á bauknum stendur: "1/5 kg. Ludvig David er framúrskarandi bragðgóður og ilmsterkur kaffibætir, framleiddur úr beztu hráefnum. Ludvig David geymist bezt á svölum og ekki of þurrum stað." 

Kaffibætir var fluttur inn frá því um 1870 og þótti sjálfsagt að nota hann til að drýgja kaffið. Kaffibætir var gerður úr rótum kaffifífils eða sikoría (Cichorium intybus) sem er fjölær matjurt. Rótinni var blandað saman við malað kaffi, stundum allt að því til helminga. Kaffi án kaffibætis var gjarnan nefnt baunakaffi. Ekki líkaði öllum kaffibætirinn þó vinsæll væri fram undir miðja síðustu öld. O. Johnson & Kaaber flutti inn Ludvig David kaffibæti sem einhverra hluta vegna var ávallt kallaður Export. Kaffibætirinn var einnig nefndur rót og þannig er tilkomið að rætt var um rótsterkt kaffi. Í innflutningshöftunum í kreppunni miklu upp úr 1930 var farið að vinna Export kaffibæti hér á landi. Kaffibætirninn var í plötum og yfirleitt var notast við fjórðung úr plötu eða hálfa í hvern uppáhelling.

Nánar um grip mánaðarins á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.  


Gripur mánaðarins - Mars

Gripur mánaðarins - Mars

Ekki er hægt að segja að veðurguðirnir hafi verið okkur hér á Austurlandinu mjög hliðhollir það sem af er ári, en hver lægðin á eftir annarri hefur gengið yfir og varla hundi út sigandi á köflum.

Þá er nú fátt betra en að geta setið inni í skjóli og gripið í góða bók eða það sem mörgum þykir betra, smá handavinnu. Gripur mánaðarins að þessu sinni tengist einmitt handavinnu en það eru þessir stórglæsilegu prjónavettlingar með gatamunstri sem Málfríður Jónasdóttir prjónaði. Saga hennar er fyrir margt áhugaverð. Málfríður var fædd 27. september 1910 að Hreimsstöðum í Hjaltastaðaþinghá, fyrsta barn hjónanna Guðnýjar Guðmundsdóttur frá Heiðarseli í Tungu og Jónasar Benediktssonar frá Kolsstöðum á Völlum. Þegar Málfríður var á 10. aldursári fluttist fjölskyldan að Vattarnesi við Reyðarfjörð en sama ár veiktist hún illa af heilahimnubólgu og missti bæði sjón og heyrn eftir hálf árs þjáningafull veikindi. Heyrnina fékk hún þó að einhverju leyti aftur.  Þrátt fyrir þetta lauk hún 14 ára gömul fullnaðarprófi eins og önnur börn, en foreldrar hennar aðstoðuðu hana við námið með því að lesa fyrir hana og uppfræða á alla lund. Málfríður dvaldi veturlangt í Reykjavík við nám í dönsku og blindraletri til undirbúnings frekara námi við kvennaskóla fyrir blinda í Danmörku. Styrkur hlaust til 2ja ára skólasetu ytra. Málfríður ræktaði talsvert það sem hún hafði yndi af - tónlist, ljóðlist, sögum og fræðum og eignaðist talsvert bókasafn fjölbreyttra rita á blindraletri. Ennfremur hlaut Málfríður mikla þjálfun í vefnaði ýmiskonar og voru afköst hennar og vandvirkni með ólíkindum. Hróður Málfríðar barst víða og var handavinna hennar seld og gefin vítt um land og til útlanda. Málfríður var, þótt ferill hennar gefi annað í skyn, fremur heilsuveil og lést hún aðeins þrítug að aldri, þann 20. mars 1941. 

Á Minjasafninu eru til fjöldamargir hlutir gerðir af henni, svosem sokkar, vettlingar, kjólar, vefnaðarsýnishorn og heilu rúmteppin. Ekki er annað hægt en að dást að þessu einstaka handbragði Málfríðar.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins. 


Gripur mánaðarins - Febrúar

Gripur mánaðarins - Febrúar

Nú hefur janúarmánuður runnið sitt skeið og sólin fer ört hækkandi á lofti, öllum til ánægju. Þá er ekki úr vegi að njóta þess sem veturinn hefur upp að bjóða með því að skella sér á skíði eða jafnvel skauta. Gripur mánaðarins tengist skautaíþróttinni einmitt, en hann var notaður þegar það tíðkaðist að skauta á Lagarfljótinu. Gripurinn er svokallað skautasegl, að öllum líkindum heimasaumað, og samanstendur það úr tveimur sívölum trésköftum, 2,04 m og 2,10 m á lengd, og segli úr hvítu þéttu lérefti sem er margbundið við stangirnar. Með fylgir þverslá, 2,70 m á lengd, sívöl og mjókkar til beggja enda. Segið kemur úr búi Sveins Jónssonar (1893-1981) og Sigríðar Fanneyjar Jónsdóttur (1894-1998) á Egilsstöðum. Sveinn var góður skautamaður og notaði seglið er hann renndi sér á ís á Lagarfljótinu í góðum byr. Ásdís dóttir hans (1922-1991) mundi eftir að hafa setið á handlegg hans en með hinni hendinni hélt hann á seglinu og brunuðu þau eftir ísnum. Eitt sinn mun Sveinn hafa rennt sér upp í Hallormsstað með seglið.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýtið hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.


Gripur mánaðarins - Janúar

Gripur mánaðarins - Janúar

Eftir langt og ljúft jólafrí hefst skólinn aftur. Allt gengur sinn vanagang. Gripur janúarmánaðar tengist einmitt skólagöngu en það er þessi dásamlega skólataska sem kemur frá Múla 2 í Álftafirði.

Líklegast þykir að hún sé frá árunum 1960-65. Framan á töskunni má sjá mynd af Mjallhvíti og dvergunum sjö. Í henni er eitt stórt hólf og eitt minna framan á. Taskan er svolítið farin að láta á sjá, hefur líklega þjónað vel sínum tilgangi.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi

Smelltu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.


Gripur mánaðarins - Desember

Gripur mánaðarins - Desember

Jólaljósin gleðja augað! 

Kominn er desember, sem þýðir m.a. að brátt fer daginn aftur að lengja en lengsti dagur ársins er í ár þann 22. desember.  Þá má segja að allt fari upp á við. Það er óhætt að segja að Íslendingar séu duglegir að lýsa upp þetta svartasta skammdegi, en jólaljós prýða flest öll hús á þessum tíma.  Gripur mánaðarins tengist auðvitað jólunum og hefur eflaust lýst upp heimili eiganda þess á þeim tíma. Um er að ræða fimmtán ljósa bjölluseríu sem framleidd var á Reykjalundi í kringum 1950-1965. Bjöllurnar eru í mismunandi litum og skreyttar með límmiðum. Serían kom úr búi Páls Sigfússonar (1931-2017) á Hreiðarsstöðum.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi. 

Smellið hér  til að sjá gripi fyrri mánaða. 


Gripur mánaðarins - Nóvember

Gripur mánaðarins - Nóvember

Á veturna, þegar erfitt var að fara á milli staða á hestum, var gott að geta gripið í skíðin.

Í dag eru skíðin hinsvegar nánast eingöngu notuð sem afþreying og státum við Austfirðingar t.d. af tveimur frábærum skíðasvæðum. Gripur nóvember mánaðar eru þessi tréskíði sem voru í eigu Þorsteins Sigurðssonar, læknis, sem þjónaði lengi á Fljótsdalshéraði og á Borgarfirði eystra. Hann ferðaðist oft í vitjanir á skíðum bæði innan Héraðs og eins á Borgarfjörð og þótti góður skíðamaður.   Skíðin sjálf eru rauð að neðan og þeim fylgja skíðastafir úr bambus.

 Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi. 

Smellið hér til að sjá gripi fyrri mánaða. 


Gripur mánaðarins - Október

Gripur mánaðarins - Október

Ullin hefur haldið hita á Íslendingum alveg frá því að land byggðist.  

Í dag er það talið ágætis afþreyting að prjóna en hér áður fyrr var prjónavinnan skyldustarf sem flestir á heimilinu tóku þátt í og unnið var myrkranna á milli. Ullin var unnin að vetri til en hófst ekki fyrr en eftir sláturtíð. Prjónles til heimilisnota var einkum sokkar, belgvettlingar, fingravettlingar, treflar, peysur, buxur, skór, hettur, húfur og jafnvel axlabönd. Oft voru einnig nærföt karla og sokkabönd kvenna prjónuð og jafnvel tjöld og koddaver.

Gripur októbermánaðar tengist einmitt ullarvinnslu og er þessi fallegi kembulár frá 1880 sem kemur frá Skriðu í Breiðdal. Lyppan, sem varð til þegar ullin var kembd, var geymd í kembulárum áður en hún var spunnin á snældu.  

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.