Jóladagatal Minjasafns Austurlands 2018

Jóladagatal Minjasafnsins - 24. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 24. desember

Aðfangadagur jóla er genginn í garð og þar með opnast síðasti glugginn á jóladagatali Minjasafnsins. 

Þar leynist þetta fallega heimasmíðaða jólatré sem hefur verið skreytt með efnivið úr náttúrunni eins og tíðkaðist hér áður fyrr. Uppruna jólatrésins má rekja langt aftur í aldir en í dag eru jólatré ómissandi þáttur í jólahaldi flestra. Hér má lesa ýtarlegri fróðleik um jólatrén og þennan merkilega sið.

Um leið og við þökkum þér fyrir að fylgjast með jóladagatali Minjasafnsins óskum við þér og þínum gleðilegra jóla.

20161222 Jolakvedja


Jóladagtal Minjasafnsins - 23. des

Jóladagtal Minjasafnsins - 23. des

Í glugga dagsins í gær var fjallað um jólahreingerninguna. Það er ekki bara útbreiddur siður að þrífa hús og híbýli hátt og lágt heldur er líka mikilvægt að huga að persónulegu hreinlæti áður en klukkurnar hringja inn jólin. 

Jólabaðið er ákveðinn hluti af jólahreingerningunni og sjá má á tölum frá vatnsveitum að mjög margir velja að baða sig seinnipartinn á aðfangadag. 

Gripurinn í glugga dagsins tengist persónulegu hreinlæti en er frá þeim tíma þegar það var aðeins meira mál að fara í bað en það er í dag. Gripurinn er baðker úr timbri með niðurfallsopi í öðrum endanum. Engin eru þó blöndunartækin og því þurfti að bera heitt vatn í kerið. 

1439516

Meira um gripinn á Sarpi

Sjáðu hvað leynist í öðrum gluggum jóladagatalsins með því að smella hér


Jóladagatal Minjasafnsins 22. desember

Jóladagatal Minjasafnsins 22. desember

"Ertu búin að öllu fyrir jólin?" er spurning sem stundum hljómar á þessum árstíma. Margir láta hana fara í taugarnar á sér því hvað er þetta "allt" sem þarf að klára fyrir jólin? 

Flestum þykir mikilvægt að híbýli þeirra séu tiltölulega hrein þegar jólin ganga í garð. Það er þó misjafnt hversu ítarleg jólahreingerningin er. Jólahreingerning er síður en svo ný af nálinni því fyrr á tímum var mikið kapp lagt á að skúra og skrúbba híbýli manna, þvo þær fáu flíkur sem fólk átti, þvo af rúmum, matarílát og fleira. Siðurinn hefur haldið velli þó svo að aðstæður fólks séu allt aðrar í dag og kannski ekki eins mikil þörf á alsherjarhreingerningu akkúrat fyrir jólin. 

Gripur dagsins hefur eflaust oft fengið að taka þátt í nokkrum jólahreingerningum en það er þessi forláta Nilfisk ryksuga. Nilfisk er danskt fyrirtæki sem var stofnað árið 1906. Fyrstu Nilfisk ryksugurnar komu á markað árið 1910 og voru þær engin smá smíði eða 17,5 kíló. Ryksugan á myndinni er frá árunum í kringum 1960 en á þeim tíma nutu ryksugur sem þessar mikilla vinsælda hér á landi. 

Meira má lesa um jólahreingerninguna og fleiri jólasiði á heimasíðu Þjóðminjasafnsins. 

1415895

Meira um gripinn á Sarpi.  

Sjáðu hvað leynist í öðrum gluggum jóladagatalsins með því að smella hér


Jóladagatal Minjasafnsins - 21. des

Jóladagatal Minjasafnsins - 21. des

Jólaföndur er fastur þáttur í jólaundirbúningi marga, sérstaklega yngri kynslóðarinnar.

Föndrað er í skólum, á heimilum og víðar. Hjá mörgum koma áður óþekktir hæfileikar í ljós og úr verða ódauðleg listaverk sem oftar en ekki verða ómissandi hluti af jólaskreytingum næstu ár eða áratugi á eftir. 

Að föndra jólakort er einnig góð skemmtun. Gripur dagsins í dag tengist slíkri sköpun en það eru tvær fallegar glansmyndir af jólasveinum en slíkar myndir voru oft límdar á jólakort til skreytingar. Margir setja glansmyndir á jólakort enn í dag en þó hafa límmiðar í mörgum tilfellum leyst þær af hólmi. Glansmyndir tengdust ekki bara jólum og var það vinsælt áhugamál hjá mörgum að safna slíkum myndum. 

1629797

Meira um gripinn á Sarpi. 

Sjáðu hvað leynist í öðrum gluggum jóladagatalsins með því að smella hér


Jóladagatal Minjasafnsins - 20. des

Jóladagatal Minjasafnsins - 20. des

Sá siður að gefa jólagjafir eins og við þekkjum hann í dag er ekki svo ýkja gamall. Lengi hefur þó tíðkast að allt heimilisfólk fái nýja flík fyrir jólin. 

Það var ekki fyrr en á seinni hluta 19. aldar sem fólk fór að gefa gjafir í tilefni jóla með þeim hætti sem nú tíðkast. Í gamla sveitasamfélaginu var þó fyrir þann tíma lögð rík áhersla á að allir á heimilinu fengju að minnsta kosti eina nýja flík og sauðskinnsskó frá húsbændum sínum fyrir jólin en ekki var litið á þetta sem gjafir í tilefni jóla heldur frekar sem laun fyrir vel unnin störf. Mikið kapp var lagt á að klára tóvinnu og prjóna nýjar flíkur á alla því annars var hætta á að fólk færi í Jólaköttinn. Gripur dagsins gegndi þar lykilhlutverki en það er rokkurinn sem notaður var til að spinna þráð úr ullinni svo hægt væri að prjóna peysur, sokka og fleira á heimilisfólkið. 

Þrátt fyrir að tímarnir séu mikið breyttir þykir mörgum enn í dag mikilvægt að fá nýja flík fyrir jólin. Ef til vill mættum við stundum staldra við og spyrja okkur hvort við ættum kannski frekar að taka okkur nýtni forfeðranna til fyrirmyndar og nýta betur það sem við eigum í stað þess að kaupa nýtt?  

1401655

Meira um gripinn á Sarpi

Hér má lesa um upparvinnslu. 

Sjáðu hvað leynist í öðrum gluggum jóladagatalsins með því að smella hér


Jóladagatal Minjasafnsins - 19. des

Jóladagatal Minjasafnsins - 19. des

Skyrgámur kom til byggða í nótt. Ætla má að hann hafi reynt að leita uppi skyr einhvers staðar í ísskápum landsmanna.

Skyr hefur verið samofið sögu íslensku þjóðarinnar um aldir en skyr hefur verið gert á Íslandi frá landnámsöld. Þá þekktist skyr einnig í nágrannalöndunum en síðar varð það einkennandi fyrir Ísland. 

Skyrgerð var nokkuð flókin og krafðist ýmisskonar tóla. Þar með talið hlutarins sem leynist í 19. glugga jóladagatalsins en það er svokölluð skyrkirna. Við skyrgerð var undanrenna hituð að suðumarki og þannig gerilsneydd. Hún var látin kólna niður í líkamshita og þá bætt í þétta (gerlagróðri frá eldri lögun) og hleypi. Síðan var hún látin hlaupa í nokkra klukkutíma í skyrkirnu (einnig kallað upphleypudallur, skyrkolla, hleypiskirna eða skyrbiða). Mysan var svo síuð frá á skyrgrind og skyrið geymt í skyrsáum en Skyrgámur átti það einmitt til að brjóta hlemminn ofan af skyrsánum og háma í sig "uns hann stóð á blístri og stundi og hrein". 

Skyrið sem búið var til í torfbæjunum í denn er nokkuð ólíkt því sem við kaupum í búðunum í dag og þá var ekki um eins margar bragðtegundir að velja. Það er spurning hvort Skyrgámur kærir sig um skyr með súkkulaði eða creme brulee bragði eða hvort hann kjósi heldur þetta gamla góða? 

1421502

Heima um gripinn á Sarpi

Heimild

Sjáðu hvað leynist í öðrum gluggum jóladagatalsins með því að smella hér


Jóladagatal Minjasafnsins - 18. des

Jóladagatal Minjasafnsins - 18. des

Nú fer hver að verða síðastur að setja jólakortin í póst ef þau eiga að berast viðtakendum fyrir jól. Gripur dagsins tengist jólakortahefðinni eins og hún var í ákveðnum skóla á Fljótsdalshéraði. 

Gripurinn sem um ræðir er þessi fallegi vagn frá grunnskólanum á Hallormsstað. Vagninn var smíðaður af nemendum Hallormsstaðaskóla fyrir jólin 1975 og síðan notaður í mörg ár þar á eftir til að geyma jólakort nemenda. Börnin settu jólakort til skólafélaga og starfsfólks í vagninn en áður en þau fóru í jólafrí var botninn tekinn úr vagninum, pósturinn flokkaður og síðan afhentur viðtakendum á litlu jólunum. 

Nú geymir vagninn minningar um skemmtilega jólahefð sem fyrrum nemendur Hallormsstaðaskóla eiga saman.  

 

1583598

Meira um gripinn á Sarpi

Sjáðu hvað leynist í öðrum gluggum jóladagatalsins með því að smella hér


Jóladagatal Minjasafnsins - 17. des

Jóladagatal Minjasafnsins - 17. des

Síðastliðna nótt kom Askasleikir til byggða. Af því tilefni er gripurinn í glugga dagsins sérstakt áhugamál hans. 

Askur er matarílát sem Íslendingar fóru að nota þegar húsakynni tóku að þrengjast vegna kólnandi veðurfars og ekki var mögulegt að matast við borð. Hver heimilismaður átti sinn ask og sinn spón og sat heimilisfólkið á rúmum sínum í baðstofunni á meðan það borðaði. Oftast var skammtað í askinn á kvöldin og hann geymdur á góðum stað þess á milli. Í kvæði Jóhannesar úr Kötlum er talað um að fólk hafi sett askana á gólfið fyrir kött og hund og þá hafi Askasleikir laumast úr fylgsni sínu og gætt sér á því sem eftir var í honum. 

Askurinn sem er í glugga dagsins var ekki notaður til að borða úr heldur til skrauts. Hann er fagurlega útskorinn út birki og eru gjarðirnar renndar á belginn. Askasleikir myndi örugglega ekki fúlsa við bita úr þessum fallega aski.

410713
 

Meira um gripinn á Sarpi

Sjáðu hvað leynist í öðrum gluggum jóladagatalsins með því að smella hér

 


Jóladagatal Minjasafnsins - 16. des

Jóladagatal Minjasafnsins - 16. des

Gripi eins og þann sem er í glugga jóladagatalsins í dag þekkja eflaust margir. Þessi hefur sérstöðu fyrir þær sakir að hann var áður í eigu eins merkasta listamanns þjóðarinnar.

Gripi sem þessa þekkja margir undir nafninu englaspil. Þegar kveikt er á kertunum sem setja á í stjakana gerir hitinn frá þeim það að verkum að englarnir snúast og slást í bjöllurnar. Úr verður skemmtilegt sjónarspil og fallegur bjölluhljómur.

Þetta englaspil var áður í eigu Jóhannesar Kjarval listmálara og tilheyrir stóru safni af persónulegum munum listamannsins sem Minjasafnið varðveitir. 

 

1809042

Meira um gripinn á Sarpi

Sjáðu hvað leynist í öðrum gluggum jóladagatalsins með því að smella hér


Jóladagatal Minjasafnsins - 15. des

Jóladagatal Minjasafnsins - 15. des

Mörgum finnst laufabrauð ómissandi með jólamatnum og sem snakk til að laumast í yfir hátíðirnar.

Laufabrauðið er arfleifð frá þeim tíma þegar mjöl var munaðarvara og reynt var að tryggja að allir fengju að minnsta kosti eina slíka köku á jólunum með því að fletja þær út næfurþunnar. Heimilisfólkið skar síðan falleg mynstur í kökurnar sem bætti upp yfir það hve matarlítil hún var og jók enn frekar á tilbreytinguna og hátíðleikann sem þeim fylgdu á jólahátíðinni. Brauðið ber þessi séríslenski siður bæði merki um útsjónarsemi og listsköpun íslenskrar alþýðu fyrr á tímum. 

Gripur dagsins er þessi vasahnífur sem var í eigu Vigfúsar Sigurðssonar frá Egilsstöðum í Fljótsdal. Algengt var að fólk notaði vasahnífa sína til að skera falleg mynstur í laufabrauð fyrir jólin. Kannski hefur þessi einhvern tíma verið notaður til að skera laufabrauð, hver veit. 

1567551

Meira um gripinn á Sarpi.

Sjáðu hvað leynist í öðrum gluggum jóladagatalsins með því að smella hér


Jóladagatal Minjasafnsins - 14. des

Jóladagatal Minjasafnsins - 14. des

Verslanir eru oftar en ekki einkar duglegar að skreyta fyrir jólin og geta jólaútstillingar í búðargluggum verið mikið augnayndi. 

Gripurinn sem leynist í 14. glugga jóladagatals Minjasafnsins er þessi föngulegi jólasveinn sem kemur úr fórum Pálínu Waage sem rak Verslun E.J. Waage á Seyðisfirði um árabil. Að öllum líkindum hefur Pálína búið sveininn til sjálf og saumað á hann fötin en hún var mikil hannyrðakona. Sveininn prýddi svo glugga verslunarinnar og fylgdist þannig með Seyðfirðingum í jólainnkaupunum.

Þessa dagana er sveinki hluti af jólasýningu Minjasafnsins sem ber einmitt heitið Jólagluggi verslunar Pálínu Waage en þar er búið að setja upp eftirlíkingu af búðarglugga þar sem til sýnis eru margvíslegar vörur úr þessari frægu verslun. 

 

Jlasveinn
Pallawaage

Meira um gripinn á Sarpi

Sjáðu hvað leynist í öðrum gluggum jóladagatalsins með því að smella hér


Jóladagatal Minjasafnsins - 13. des.

Jóladagatal Minjasafnsins - 13. des.

Síðastliðna nótt kom Giljagaur til byggða. Eins og allir vita skreið hann "ofan úr gili og skaust í fjósið inn"

Þar faldi hann sig í básunum og beið eftir því að fjósakonan myndi bregða sér frá svo hann gæti stolið sér örlítilli froðu ofan af mjókinni í mjólkurskjólu fjósakonunnar. 

Gripur dagsins er einmitt mjólkurskjóla eins og sú sem Giljagaur laumaðist í. Hvernig ætli Giljagaur fari að í dag þegar flestar kýr í fjósum landsins eru mjólkaðar með róbótum? 

1636521

Sjáðu hvað leynist í öðrum gluggum jóladagatalsins með því að smella hér


Jóladagatal Minjasafnsins - 12. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 12. desember

Í 12. glugga jóladagatalsins leynast leikföng sem hafa ratað í ófáa jólapakka um víða veröld í gegnum árin. 

Það eru LEGO-kubbarnir sívinsælu. Framleiðsla á LEGO kubbum úr plasti hófst árið 1949 en fram að því hafði fyrirtækið LEGO framleitt leikföng úr tré. Kubbarnir nutu strax mikilla vinsælda og ekki leið á löngu uns þeir bárust til Íslands. 

Kubbarnir sem er í glugga dagatalsins er frá sjöunda áratugnum. Ef vel er að gáð má sjá að útlit þeirra er örlitið öðruvísi en útlit LEGO kubbanna sem framleiddir eru í dag. T.d. eru þeir með raufir á hliðunum sem ekki eru á kubbum dagsins í dag. 

12.12.LEGO

Meira um gripina á Sarpi

Sjáðu hvað leynist í öðrum gluggum jóladagatalsins með því að smella hér


Jóladagatal Minjasafnsins - 11. des

Jóladagatal Minjasafnsins - 11. des

Í kvöld er kominn tími til að setja skóinn út í glugga því von er á Stekkjastaur í nótt. 

Sá siður að setja skóinn út í glugga í von um gjafir á rætur sínar að rekja langt aftur í aldir til sagna um Heilagan Nikulás. Siðurinn er þó ekki ýkja gamall hér á landi en vitað er um dæmi fyrir árið 1930. Þetta mun þó ekki hafa orðið almennur siður fyrr en eftir miðja 20. öld. Meira má lesa um uppruna skógjafa hér og hér.

Gripurinn sem leynist í 11. glugga jóladagatals Minjasafnsins hefur líklega aldrei verið settur út í glugga en hefur þó marga fjöruna sopið. Hér er um að ræða tréskó sem kom í trollið á togarnum Berki NK einhvern tíma á árunum 1970-1979. Skórinn er illa farinn og ormaétinn en gæti þó mögulega þjónað tilgangi sem skór í glugga. 

11.des Skor
11.des Skor2

Meira um gripinn á Sarpi

Sjáðu hvað leynist í öðrum gluggum jóladagatalsins með því að smella hér


Jóladagatal Minjasafnsins - 10. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 10. desember

Jólaljós, á hvaða formi sem er, eru ómissandi á jólunum enda fylgir þeim hátíðleiki og ró.

Hér áður fyrr var mikið lagt upp úr því að kveikja ljós í hverjum krók og kima á aðfangadagskvöld og láta ljósin svo loga á jólanótt. Síðar voru jólatrén skreytt með lifandi ljósum en í dag eru þau skreytt með rafmagnsseríum enda varasamt að hafa logandi kerti á mikið skreyttum jólatrjám. 

Gripur dagsins er þessi kertapakki frá kertaverksmiðjunni Hreini en þar hófst kertaframleiðsla árið 1920. Pakkinn innheldur falleg, lítil, snúin kerti í mörgum litum og hafa þau eflaust hentað afar vel á gamalsdags jólatré á sínum tíma.

Farið varlega með kertin yfir hátíðirnar.

1563870

Meira um gripinn á Sarpi.

Sjáðu hvað leynist í öðrum gluggum jóladagatalsins með því að smella hér


Jóladagatal Minjasafnsins - 9. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 9. desember

"Á öðrum sunnudegi aðventunnar alhliða hreinsunarstarf á sér stað" segir í kvæðinu Nú mega jólin koma fyrir mér eftir Braga Valdimar Skúlason. 

Jólabaðið er ómissandi þáttur í jólaundirbúningnum þó flestir bíði með það þar til á aðfangadag en klára það ekki frá á öðrum sunnudegi í aðventu eins og maðurinn í kvæði Braga. Eitt er víst, og það er að þegar farið er í jólabað er betra að vera með góða sápu við höndina. Gripur dagsins í jóladagatali Minjasafnsins er einmitt Sól sápa. 

Sólsápur voru framleiddar hjá Sápuverksmiðjan Sjöfn sem sem framleiddi sápu, þvottaefni og ýmsar hreinlætisvörur. Fyrirtækið var eitt af fyrirtækjum SÍS en það var stofnað á Akureyri árið 1932 af SÍS og KEA. Á kassanum er verðmiði með SÍS merki og hefur sápan kostað 45 krónur. 

9.des Dagatal

Meira um gripinn á Sarpi. 

Hér má hlýða á lagið Nú mega jólin koma fyrir mér í flutningi Sigurðar Guðmundssonar og Mempfismafíunnar. 

Sjáðu hvað leynist í öðrum gluggum jóladagatalsins með því að smella hér

 


Jóladagatal Minjasafnsins - 8. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 8. desember

Fátt er betra en að gæða sér á góðum konfektmola á meðan gluggað er í jólabók eða jólakortin lesin. 

 Í áttunda glugga jóladagatals Minjasafnsins leynist þessi fallegi konfekt kassi frá sælgætisgerðinni Lindu. Kassinn er kominn til ára sinna en hver veit nema einhver hafi gætt sér á innihaldi hans á jólum. 

1469534

Meira um gripinn á Sarpi. 

Sjáðu hvað leynist í öðrum gluggum jóladagatalsins með því að smella hér


Jóladagatal Minjasafnsins - 7. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 7. desember

Það á að gefa börnum brauð að bíta í á jólunum segir í kvæðinu og er þar eflaust átt við laufabrauð sem er ómissandi á jólaborðið á mörgum heimilum. 

Í glugga dagsins á jóladagatali Minjasafnsins leynist þetta kökukefli. Keflið er komið til ára sinna en það kom úr búi hjónanna Magnúsar Þórarinssonar og Guðbjargar Sigbjörnsdóttur sem bæði voru fædd á síðari hluta 19. aldar og bjuggu á Brennistöðum í Eiðaþinghá. Eflaust hefur þetta kökukefli einhvern tíma verið notað til að fletja út örþunnar laufabrauðskökur sem glöddu heimilisfólkið fyrir jólin.

Laufabrauðið er þjóðararfur frá þeim tíma þegar mjöl var af skornum skammti og reynt var að tryggja að allir fengju a.m.k. eina köku með því að fletja þær út örþunnar. Listilegur útskurður bætti síðan fyrir hve matarlítil kakan var í raun. Þannig ber laufabrauðið bæði merki um útsjónarsemi og listfengi íslenskrar alþýðu fyrr á tímum. 

1435166

Meira um gripinn á Sarpi

Sjáðu hvað leynist í öðrum gluggum jóladagatalsins með því að smella hér. 

 


Jóladagatal Minjasafnsins - 6. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 6. desember

Fátt er skemmtilegra en fallegur jólapappír og stundum gleður pappírinn litlar manneskjur meira en gjafirnar sem hann geymir. Ótal tegundir eru til af jólapappír en það er ekki oft sem maður sér íslenskan jólapappír. 

 Í glugga dagsins á jóladagatali Minjasafnsins er þessi fallegi jólapappír sem prýddur er kunnuglegum myndum. Myndirnar sýna nefnilega íslenskar byggingar, m.a. Akureyrarkirkju, Háskóla Íslands og fleiri. Pappírinn er frá árinu 1957. 

6. Des Jlapappr

Meira um gripinn á Sarpi. 

Sjáðu hvað leynist í öðrum gluggum jóladagatalsins með því að smella hér


Jóladagatal Minjasafnsins - 5. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 5. desember

Allir fá þá eitthvað fallegt, í það minnsta kerti og spil, segir í kvæðinu og víst er að jólagjafirnar skipa stórt hlutverk í hátíð ljóss og friðar. 

Í fimmta glugga dagatals Minjasafnsins er þetta fallega bollastell sem eflaust hefði passað vel í velvalinn jólapakka. Bollastellið er komið úr verslun Pálínu Waage á Seyðisfirði en Minjasafn Austurlands varðveitir marga muni úr þeirri sögufrægu búð.

Svo skemmtilega vill til að í dag var jólasýning Minjasafnsins formlega opnuð í skápnum fyrir framan Bókasafnið á þriðju hæð Safnahússins. Hana nefnum við Jólaglugga verslunar Pálínu Waage og eins og nafnið bendir til höfum við sett upp búðarglugga með jólavörum úr versluninni.

Plna Waage

Meira um gripinn á Sarpi

Sjáðu hvað leynist í öðrum gluggum jóladagatalsins með því að smella hér

 


Jóladagatal Minjasafnsins - 4. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 4. desember

Þá er 4. desember genginn í garð og eflaust margir farnir að baka til jólanna. Í fjórða glugga jóladagatals Minjasafnsins leynist nokkuð sem er ómissandi í baksturinn.

Í glugganum leynast þrjár tegundir af smjöri. Reyndar er ofsögum sagt að hér sé um alvöru smjör að ræða, þetta eru bara sýnishorn af umbúðum sem notaðar voru utan um smjör sem framleitt var hjá Mjólkurstöð Kaupfélags Héraðsbúa á Egilsstöðum.

Í hugum margra eru jólasmákökurnar ómissandi um jólin og smjörið er ómissandi í jólabaksturinn. Á fyrri hluta 20. aldar fór að færast í vöxt að húsmæður bökuðu smákökur og tertur í stórum stíl fyrir jólin. Líkleg ástæða þess að jólabakstur varð svona vinsæll á þessum tíma er sjálfsagt sú að þá fyrst var hægt að nálgast ýmiss konar hráefni sem í baksturinn þurfti og bakarofnar voru orðnir almenn eign á heimilum. Allur bakstur varð þar með auðveldari og því tilvalið að baka alls kyns kökur og sætindi til að narta í um jólin.

1469592

Meira um gripinn á Sarpi

Sjáðu hvað leyndist í öðrum gluggum dagatalsins með því að smella hér.

Heimild


Jóladagatal Minjasafnsins - 3. des

Jóladagatal Minjasafnsins - 3. des

Í ár fagna Íslendingar því að hundrað ár eru liðin frá því að landið fékk fullveldi. Hátíðarhöldin náðu hámarki nú um helgina, á sjálfan fullveldisdaginn, og þá mátti víða sjá fána blakta við hún í hríðinni. 

Það er því vel við hæfi að gripur dagsins sé þessi forláta jólasveinn því ef vel er að gáð gæti sveinki verið að fagna fullveldinu. Við fyrstu sýn virðist vera um að ræða hinn rauðklædda ameríska svein og víst er að þessi er ekki klæddur á þann hátt sem hinir íslensku bræður voru vanir að klæðast hér í denn. Þegar betur er að gáð má þó sjá að þessi sveinn er afar þjóðlegur enda heldur hann á íslenskum fáum í sitt hvorri hendinni. Sveinninin er líka sprellikarl svo hann hefur eflaust glatt börnin sem hann áttu með sprelli sínu. 

1724225

Nánari upplýsingar um gripinn má finna á Sarpi. 

Smelltu hér til að sjá hvað leyndist í öðrum gluggum dagatalsins. 


Jóladagatal Minjasafnsins - 2. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 2. desember

Jólaljós hafa í gegnum tíðina skipað stór hlutverk í kringum hátíðirnar enda jólin hátíð ljóss og friðar. Hér áður fyrr trítluðu börnin um bæinn með tólgarkertin sín en seinna urðu jólaseríur ómissandi hluti af jólahaldinu.

Í öðrum glugga jóladagatals Minjasafnsins leynist þessi jólasería. Á seríunni eru fimmtán perur og utan um hverja er bjalla sem skreytt er með límmiða. Seríur sem þessar voru framleiddar á Reykjalundi á árunum 1950 -1965. Seríurnar voru til á mörgum heimilum og margir tengja fyrstu minningar sínar um jólaseríur við bjölluseríur frá Reykjalundi. Við vitum meira að segja af samskonar seríum sem eru í góðu lagi enn í dag. 

1584708

Nánari upplýsingar um þennan grip er að finna á sarpi. 

Smelltu hér til að sjá hvað leyndist í öðrum gluggum dagatalsins. 


Jóladagatal Minjasafnsins - 1. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 1. desember

Í desember ætlum við á Minjasafninu að telja niður til jóla með því að fjalla um 24 gripi úr safnkosti safnsins sem allir tengjast jólunum. Við byrjum í dag með grip sem á svo sannarlega vel við þetta litla verkefni okkar.

Þar er um að ræða lítið jóladagatal. Dagatalið er úr þunnum pappa og hægt er að leggja það saman. Þegar það er opnað blasir við lukkuhjól sem hægt er að snúa og myndir af margvíslegum vinningum. Svo eru að sjálfsögðu 24 gluggar til að opna einn og einn fram að jólum. Aftan á dagatalinu er texti á dönsku, þýsku og ensku sem er eitthvað á þessa leið í íslenskri þýðingu: 

 Jóladagatal með lukkuhjóli
Með þessu jóladagatali getur þú leikið þér með lukkuhjól og kannski vinnurðu einmitt það sem þig langaði í í jólagjöf - það eru verðlaun í boði ef hjólið stoppar á bókstaf og þú mátt velja vinning sem byrjar á þeim bókstaf - en mundu, þetta er bara leikur. Þú getur leikið þér alveg fram á aðfangadagskvöld. Góða skemmtun!

20181201 1des1
20181201 1des2
20181201 1des3

Frekari upplýsingar um gripinn má finna á Sarpi