Skip to main content

Hlutverk

Hvað er safn?

Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaráðs safna, ICOM, er safn skilgreint sem varanleg stofnun sem opin er almenningi en ekki rekin í hagnaðarskyni heldur í þágu þjóðfélags og framþróunar. Safn er einnig skilgreint sem stofnun sem safnar áþreifanlegum heimildum um manninn og umhverfi hans, verndar þær, rannsakar þær, miðlar upplýsingum um þær og hefur þær til sýnis, svo þær megi nýtast til rannsókna, fræðslu og skemmtunar. Íslenskt safnastarf byggir í dag á þessari grundvallarhugmynd.

Af hverju minjasafn á Austurlandi?

Hafi landshluti minjasafn, sem uppfyllir kröfur sem gerðar eru til slíkra stofnana, tryggir það geymd menningarminja í viðkomandi landshluta og þá um leið varðveislu á sögu og menningu svæðisins. Sé ekkert minjasafn í landshlutanum glatast flestir gamlir munir, þar eð íbúar svæðisins hafa engan stað til að gefa þá frá sér til varanlegrar varðveislu, eða þá að menningarminjar, ekki síst mestu gersemarnar, eru fluttar burt og geymdar langt frá sínum upprunaslóðum. Sé ekkert minjasafn flyst sagan burt úr héraði eða glatast, og þá um leið glatast samband íbúa landssvæðisins við fortíðina, líf og störf forfeðranna og þær menningarrætur sem samfélag samtímans byggir á. Minjasafn og starfsemi þess skapar auk þess atvinnu, starfar í þágu ferðaþjónustu og menningarlífs, eflir þekkingu og rannsóknir og heldur á lofti menningarlegri ímynd svæðisins og stolti yfir menningararfleifð þess.

Hlutverk Minjasafns Austurlands

Geymd menningarminja á Austurlandi: Söfnun – varðveisla – forvarsla – sýningar – rannsóknir og miðlun.

Minjasafn Austurlands er almennt byggðasafn. Hlutverk þess er:

  • að safna, skrásetja, varðveita, forverja og rannsaka minjar um austfirska búhætti, atvinnulíf og daglegt líf.
  • að skrá alla muni er því berast, merkja þá, lýsa þeim og gera sem gleggsta grein fyrir sögu þeirra og uppruna.
  • að efla áhuga almennings fyrir því að varðveita hvers kyns sögulegar minjar um mannlíf í Múlaþingi.
  • að halda sýningar á munum safnsins í Safnahúsinu og utan þess.
  • að hafa stöðugt samstarf við menntastofnanir á starfssvæðinu og birta almenningi árlega skýrslu yfir starfsemi sína.
  • að hafa samstarf við önnur hliðstæð eða skyld söfn sem starfa á starfssvæðinu eftir því sem eftir er leitað og ástæða þykir til hverju sinni.
  • að starfrækja rannsóknasvið. Aðildarsveitarfélög skulu þó ekki hafa bein fjárhagsútgjöld af þeirri starfsemi, nema samkvæmt sérstöku samkomulagi þeirra allra.

Aðild að öðrum söfnum

Minjasafn Austurlands er aðili að Ljósmyndasafni Austurlands.

Umsjón með menningarminjum og samstarf

Minjasafnið hefur í gegnum árin átt samstarf við Þjóðminjasafnið og önnur söfn og stofnanir á Austurlandi og fleiri aðila um umsjón með menningarminjum og komið að fornleifarannsóknum, húsavernd og fleiri verkefnum  í fjórðungnum.

Lög

Minjasafn Austurlands starfar samkvæmt safnalögum nr. 141/2011. Minjasafnið starfar einnig eftir safnastefnu á sviði menningarminja sem gefin var út af Þjóðminjasafni Íslands árið 2017 og samkvæmt siðareglum ICOM, Alþjóðaráðs safna