Skip to main content

Söfnunarstefna

Söfnunarstefna Minjasafns Austurlands stýrist af hlutverki safnsins sem almenns byggðasafns. Safninu er ætlað að safna og varðveita menningarminjar á Austurlandi, og miðla þeim arfi til gesta safnsins með sýningarhaldi og miðlun af ýmsu tagi. Söfnunar- og sýningarstefnan markast mestmegnis af safnsvæði Minjasafnsins sem er Austurland norðan Lónsheiðar (Suður- og Norður-Múlasýsla). Áhersla Minjasafnsins liggur í að safna gömlum munum á Austurlandi úr fortíðinni en einnig er safnað munum frá síðustu árum og áratugum eins og tök eru á og tilefni er til. Safnað er munum sem tengjast atvinnuháttum, heilbrigðis- mennta- og menningarmálum, samfélagsþróun og daglegu lífi og starfi fólks, nytjahlutum, bæði smíðisgripum hagleiksmanna og fjöldaframleiddum munum úr eigu fyrirtækja og einstaklinga, persónulegum hlutum, verkfærum, innanstokksmunum, skrautmunum og fatnaði o.s.frv.

Söfnun menningarminja er ábyrgðarmikið hlutverk sem Minjasafn Austurlands leitast við að rækja sem best. Til grundvallar allri meðferð muna, aðföngum þeirra og grisjun skal fylgja siðareglum Alþjóðaráðs safna - ICOM (International Council of Museums). Rétt meðhöndlun og virðing fyrir safnmunum skal höfð í fyrirrúmi í öllu safnastarfi sem og fyrir fyrri eigendum þeirra. Forðast skal að taka við munum er safnið hefur ekki möguleika á að skrá, varðveita, geyma eða sýna við viðunandi aðstæður. Ekki skal að taka við munum sem á einhvern hátt fylgja sérstök skilyrði nema í algerum undantekningartilvikum. Ef svo er gert skal skýrt tekið fram í munaskrá ef einhver skilyrði fylgja safngripnum. Enn sem komið er hefur Minjasafn Austurlands ekki haft sérmenntað starfsfólk í forvörslu á sínum snærum og leitar til sérfræðinga Þjóðminjasafnsins þegar við á, og farið er að fyrirmælum forvarða Þjóðminjasafns um geymslur og pökkun muna í umbúðir og frágang þeirra í geymslum o.s.frv. Sérstökum reglum er einnig fylgt í skráningu gripa. Hver safngripur er skráður eins ítarlega og tök eru á í gagnagrunninn Sarp og er þar fylgt kröfum um skráningu muna. Mikilvægi þess að skráning sé ítarleg og faglega unnin er haldið á lofti.

Skýrt afmörkuð söfnunarstefna sem fylgt er vel eftir gerir það að verkum að grisjun eða förgun safngripa er óþörf og eftir því vinnur Minjasafnið. Meginregla í söfnunarstefnu safnsins er sú að ef tekið hefur verið við grip til varðveislu þá skal hann upp frá því verða hluti af safnkosti safnsins, en þó áskilur safnið sér rétt til grisjunar skv. safnalögum og þeim fyrirmælum sem þar eru sett og kröfum um samráð áður en til grisjunar kæmi. 

Samvinna og samstarf

Samvinna og skipuleg söfnun skiptir máli og höfð að leiðarljósi hjá Minjasafni Austurlands. Þar sem söfnunarsvæði Minjasafnsins spannar Múlasýslurnar tvær en nokkur önnur söfn eru á Austurlandi þá er mikilvægt að söfnunarstefnan taki mið af þeirra söfnunarsviðum þannig að ekki verði um óþarfa skörun að ræða. Gott og gagnvirkt samráð skal hafa við önnur söfn í fjórðungnum sem og á landinu öllu, sérstaklega ef munir utan skilgreindra söfnunarflokka koma til álita.

Er öllu safnað?

Svarið er neitandi. Söfnunarstefna Minjasafns Austurlands felur óhjákvæmilega í sér úrvalingarstefnu sem stýrist af söfnunarstefnu safnsins og sögulegu gildi safngripa sem óskað er eftir að afhenda á safnið og samsetningar þess safnskosts sem þegar er fyrir hendi á safninu. Meginmarkmið allra safna er að varðveita sögu mannsins og samfélags hans en sú saga í formi minja sem varðveitt er verður óhjákvæmilega úrval hluta sem veljast til varðveislu. Safn tekur sér nýja ábyrgð á hendur með hverjum nýjum hlut sem það eignast, þessi ábyrgð felst í skrásetningu, varðveislu og forvörslu gripsins. Haft er í huga að til að styrkja faglega umsýslu á Minjasafninu að huga vel að gildi safngripa. Í því sambandi er t.d. haft í huga að þegar auðvelt er að rekja uppruna grips þá hefur hann mun meira gildi söfnunarlega séð en gripur sem ríkir mikil óvissa um. Óvissu er hins vegar reynt að eyða og skiptir þar mestu það rannsóknarferli sem fer af stað við skráningu muna sem afhentir eru á safnið.

Hér á eftir eru helstu söfnunarflokkar Minjasafns Austurlands taldir upp. Flokkunum er ekki á neinn hátt raðað eftir mati á mikilvægi þeirra.

Helstu söfnunarflokkar í söfnunarstefnu Minjasafnsins:

Heimilishald

Þær miklu breytingar sem orðið hafa í íslensku samfélagi frá hinu rótgróna bændasamfélagi til nútímasamfélags koma einkum vel fram í miklum breytingum á heimilishaldi Íslendinga á þessum tíma. Því leggur Minjasafn Austurlands áherslu á að safna munum er varpað geta ljósi á þessar breytingar.

Klæðnaður: Safnað er klæðnaði fólks, bæði hversdagsfatnaði sem og þjóðbúningum.

Hannyrðir: Hannyrðum er safnað, prjónlesi, útsaum, vefnaði og öðrum hannyrðavörum. Einnig er þeim tækjum og tólum sem notuð voru, s.s. prjónavélum, vefstólum, prjónum og uppskriftum safnað.

Húsbúnaður: Safnað er munum er tengjast daglegu heimilishaldi sem og húsgögnum.

Skólahald

Munum er tengjast skólahaldi í fjórðungnum er safnað, á það jafnt við það sem tengist námsefni og kennslu sem og almennu félagslífi í skólum. Sérstök áhersla er á að safna munum frá Eiðum og Hallormsstað.

Atvinnuhættir

Fjölbreyttir atvinnuhættir hafa verið og eru enn stundaðir á Austurlandi. Minjasafn Austurlands sinnir þeim sviðum atvinnulífsins sem önnur austfirsk söfn sinna ekki.

Veiðar og öflun lífsviðurværis: Safnað er munum er tengjast veiðum og öflun matbjarga með áherslu á skotveiðar. Ljóst er að mikið fuglalíf á Héraði sem og sú staðreynd að hreindýr þrífast eingöngu á Austurlandi skapar þessum þætti vissa sérstöðu miðað við önnur landsvæði.

Skógrækt: Munum er tengjast skógrækt á Héraði sem og annars staðar í fjórðungnum er safnað.

Verslun og þjónusta: Munum er tengjast verslun og þjónustu er safnað. Verslunarsagan er stór þáttur í uppbyggingu og myndun Egilsstaða og mikilvægt að koma því til skila. Kaupfélag Héraðsbúa spilar þar veigamikinn þátt og verður því lögð nokkur áhersla á að safna munum er því tengjast.

Landbúnaður: Munum er safnað er tengjast landbúnaði. Austurland er engin undantekning er kemur að mikilvægi landbúnaðar í samfélagsgerðinni, sérstaklega fram til miðrar 20. aldar.

Matargerð: Safnað er munum er tengjast matargerð, bæði á heimilum sem og annars staðar.

Útgerð og fiskveiðar: Sjóminjasafnið á Eskifirði er aðalsafn fjórðungsins þegar kemur að sjóminjum. Þó er í samráði við það safn tekið á móti vissum munum á Minjasafnið er útgerð tengjast ef ástæða þykir til.

Tækniminjar: Safnið tekur á móti tækniminjum en Tækniminjasafnið á Seyðisfirði ber hitann og þungan af varðveislu tækniminja á Austurlandi og samstarf er á milli Minjasafnsins og þess safns varðandi móttöku og varðveislu tækniminja.

Félagsleg uppbygging

Með félagslegri uppbyggingu er í raun átt við ytri og innri formgerð samfélagsins, sérstaklega þeir málaflokkar sem lúta umsjá opinberra aðila.

Samgöngumál: Munir er tengjast samgöngumálum í fjórðungnum er safnað. Jafnt þeir sem tengjast skipulagningu og gerð samgöngukerfis (vega o.þ.h.) sem og notkun íbúanna á mannvirkjunum.

Heilbrigðismál: Munum er tengjast heilbrigðismálum er safnað. Einnig er dýralækningamunum safnað.

Dægradvöl

Hugtakið dægradvöl er að mörgu leyti óljóst og margt sem getur flokkast þar undir. Algengasta skýringin er að dægradvöl sé það sem gert er í tómstundum fólks, ekki þegar það er í vinnu. Þessi skilgreining á illa við um íslenska sögu framan af. Býlin voru sérstakar framleiðslueiningar og fólk sótti ekki launaða vinnu út frá heimilinu. Því er líklegt að skörun verði á þessum söfnunarflokki og öðrum, sérstaklega þegar kemur að munum er tengjast heimilishaldi, því vissulega fór/fer mikið af dægradvöl einstaklinga fram inni á heimilum.

Íþróttir og tómstundaiðkun: Munum er safnað er tengjast íþróttaiðkun í fjórðungnum.

Listir og handverk: Munum er safnað er tengjast og varpa ljósi á listiðkun og listsköpun í fjórðungnum.

Tónlist: Munum er safnað er tengjast og varpa ljósi á tónlistariðkun og tónlistarsköpun í fjórðungnum.

Félagsstarf: Safnað er munum er tengjast félagsstarfsemi ýmis konar.

Hús og híbýlahættir

Munum er varða hús og híbýlahætti er safnað. Þá er átt við muni og heimildir er tengjast hönnun húsa, byggingu þeirra, efnistökum og viðhaldi. Skipulagsmál koma hér einnig við sögu og verða æ veigameiri þáttur eftir því sem dreifbýli eykst og stækkar.

Kirkjumunir

Þjóðminjasafn er formlegur varðveisluaðili kirkjumuna og því skal varðveisla og söfnun kirkjumuna ætíð vera í samstarfi við Þjóðminjasafnið sem og Minjastofnun Íslands. Minjasafnið hefur tekið við og tekur við kirkjumunum til varðveislu í samráði við Þjóðminjasafn og Minjastofnun.

Fornmunir

Minjasafn Austurlands hefur staðið fyrir ýmsum fornleifarannsóknum á Austurlandi og átt samstarf við aðila vegna fornleifaskráningar og uppgraftrar og eru þeir gripir sem fundust í þeim rannsóknum varðveittir á Þjóðminjasafni Íslands, eins og lög gera ráð fyrir.

Ljósmyndir

Töluvert safn ljósmynda hefur í gegnum tíðina verið afhent Minjasafni Austurlands, ljósmyndir einar sér eða sem hluti af afhendingu einhverra muna af ýmsu tagi. Minjasafn Austurlands er aðili að Ljósmyndasafni Austurlands og leggur til þess fjárveitingu á ári hverju, en rekstur ljósmyndasafnsins er á forræði Héraðsskjalasafns Austfirðinga. Minjasafnið lætur Ljósmyndasafnið hafa til vörslu þær ljósmyndir sem koma inn á borð Minjasafnsins í afhendingum, og er tengingin við upprunann í afhendingu tryggð í skráningu í munaskrá Minjasafnsins. Minjasafnið hefur einnig samstarf við Ljósmyndasafn Austurlands um varðveislugildi ljósmyndasafna og ljósmyndasýningar.

Bækur og skjöl

Töluvert af bókum og skjölum (sendibréf, handrit og prentað útgefið efni) hefur í gegnum tíðina verið afhent Minjasafni Austurlands, bækur og skjöl ein sér eða sem hluti af afhendingu einhverra muna af ýmsu tagi. Minjasafnið lætur Héraðsskjalasafn Austfirðinga hafa til vörslu þær bækur og þau skjöl sem koma inn á borð Minjasafnsins í afhendingum, og er tengingin við upprunann í afhendingu tryggð í skráningu í munaskrá Minjasafnsins.