Jóladagatal Minjasafns Austurlands

Fyrsti gluggi jóladagatals Minjasafns Austurlands verður opnaður 1. desember 2020. 

Jóladagatal Minjasafnsins - 24. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 24. desember

Aðfangadagur jóla er nú runninn upp og þar með opnast síðasti gluggi jóladagatals Minjasafnsins.

Í glugganum leynist þetta glæsilega heimasmíðaða jólatré sem kemur frá Bessastaðagerði í Fljótsdal, en María Pétursdóttir gaf það til safnins. Minntist hún þess þegar faðir hennar, Pétur Þorsteinsson, fór til rjúpna og tók þá með hvítan taupoka sem hann tíndi í eini sem tréð var síðan skreytt með. Var það notað vel fram yfir 1960 þegar lifandi tré tóku við. Lengi vel uxu grenitré ekki villt á Íslandi og varð fólk því að smíða þau sjálf. Þau voru yfirleitt máluð rauð eða græn og skreytt með efniviði úr náttúrunni, til að mynda eini og lyngi. Einnig tíðkaðist að þau væru vafin með glanspappír. Til að setja punktinn yfir i-ið voru kerti brædd föst á greinarnar. Uppruna jólatrésins má rekja langt aftur í aldir en í dag eru jólatré ómissandi þáttur í jólahaldi flestra. Hér má lesa ýtarlegri fróðleik um jólatrén og þennan merkilega sið.

Um leið og við þökkum þér fyrir að fylgjast með jóladagatali Minjasafnsins, viljum við óska þér og þínum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýtið hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 23. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 23. desember

Á mörgum heimilum eru jóla- og nýárskveðjurnar í útvarpinu ómissandi partur af jólahaldinu.

Frá því árið 1932 hefur Ríkisútvarpið sent út jóla- og nýárskveðjur á Þorláksmessu og voru þær upprunalega ætlaðar þeir sem voru fjarri heimahögum sínum. Jólakveðjunum fór sífjölgandi og nýtur það enn mikilla vinsælda að senda kveðju á þennan hátt. Gripur dagsins í dag er útvarp sem af gerðinni Phillips og kemur úr búi Jónasar Péturssonar í Fellabæ. Ekki er ólíklegt að hlustað hafi verið á nokkrar jólakveðjur og jafnvel jólamessur úr þvi í gegnum árin. 

Við minnum á að hægt er að sjá grip dagsins, sem og daganna á undan, í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins. 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi
Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnins - 22. desember

Jóladagatal Minjasafnins - 22. desember

Jólaljós, á hvaða formi sem er, eru ómissandi á jólunum enda fylgir þeim hátíðleiki og ró.

Hér áður fyrr var mikið lagt upp úr því að kveikja ljós í hverjum krók og kima á aðfangadagskvöld og láta ljósin svo loga á jólanótt. Gamall siður var að gefa bönum kerti en kertaljósin voru dýrindisljós á meðan lýsislamparnir og steinkolurnar voru aðalljósin, því loginn var mun bjartari. Gripur dagsins í dag er einmitt hvít, græn, gul og rauð jólakerti í upphaflegri pakkningu frá Sápuverksmiðjunni Sjöfn á Akureyri en hann kom frá Geirastöðum 1 í Hróarstungu.

Við minnum á að hægt er að sjá grip dagsins, sem og daganna á undan, í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins. 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 21. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 21. desember

Mörgum finnst algjörlega ómissandi að hafa góða bók við höndina á aðventunni og um jólin.

Flestar bækur á Íslandi eru einmitt gefnar út mánuðina fyrir jól og iða margir í skinninu þegar þeir frétta af útgáfu "Bókatíðinda" ár hvert, en blaðið hefur verið gefið út síðan 1944. Bækur eru því mjög algeng jólagjöf á Íslandi. Aðgengi að bókum hefur þó ekki alltaf verið jafn gott og nú og gengu bækur oft heimila á milli. Á aðfangadagskvöld í gamla bændasamfélaginu var yfirleitt lesinn húslestur í baðstofunni og sungnir jólasálmar úr sálmabók. Gripur dagsins í jóladagatalinu er bók sem fannst á Þorvaldsstöðum í Skriðdal þegar gamli bærinn þar var rifinn og heitir "Hundrað hugvekjur", gefin út 1926. Er hún merkt Haraldi Eyjólfssyni.  Hægt er að ímynda sér að lesnir hafi verið húslestrar úr þessari bók á jólaföstunni, en í henni eru predikanir eftir hina ýmsu presta. 

 

Við minnum á að hægt er að sjá grip dagsins, sem og daganna á undan, í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins. 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 20. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 20. desember

Flestum þykir mikilvægt að híbýli þeirra séu tiltölulega hrein þegar jólin ganga í garð.

Það er þó misjafnt hversu ítarleg jólahreingerningin er. Jólahreingerning er síður en svo ný af nálinni því fyrr á tímum var mikið kapp lagt á að skúra og skrúbba híbýli manna, þvo þær fáu flíkur sem fólk átti, þvo af rúmum, matarílát og fleira. Siðurinn hefur haldið velli þó svo að aðstæður fólks séu allt aðrar í dag og kannski ekki eins mikil þörf á alsherjarhreingerningu akkúrat fyrir jólin. 

Gripur dagsins hefur eflaust oft fengið að taka þátt í nokkrum jólahreingerningum en það er þessi forláta Nilfisk ryksuga sem Ólöf Björgheiður Sölvadóttir (f. 1926) gaf til safnsins. Nilfisk er danskt fyrirtæki sem var stofnað árið 1906. Fyrstu Nilfisk ryksugurnar komu á markað árið 1910 og voru þær engin smá smíði eða 17,5 kíló. Ryksugan á myndinni er frá árunum í kringum 1960 en á þeim tíma nutu ryksugur sem þessar mikilla vinsælda hér á landi. 

Við minnum á að hægt er að sjá grip dagsins, sem og daganna á undan, í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins. 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýtið hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 19. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 19. desember

Eitt af því allra nauðsynlegast um jólin er gott konfekt.

Og þá sérstaklega með góðum kaffi- eða kakóbolla. Ein er sú tegundin sem við tengjum hvað mest við jólin og höfum gert í áratugi, en þar erum við auðvitað að tala um Quality Street konfekið frá Macintosh sem framleitt hefur verið síðan 1936. Eitthvað hefur innihald kassans breyst í tímanna rás en í dag eru um 15 tegundir mola í boxinu og eiga allir sinn uppáhalds mola. Eftir að molarnir klárast er síðan tilvalið að nota dallinn undir ýmislegt smádót, eins og gripur dagsins sýnir, en ýmislegt saumadót hefur verið geymt í honum. Dallurinn kemur úr búi Jónasar Péturssonar (1910-1997) í Fellabæ. 

Við minnum á að hægt er að sjá grip dagsins, sem og daganna á undan, í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins. 

 Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 18. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 18. desember

Ekki er ýkja langt síðan Íslendingar hófu að skreyta híbýli sín um jólin. 

Upp úr aldamótunum 1900 fór fyrst að bera á jólaskreytingum hérlendis í heimahúsum, einkum hjá vel stæðu fólki, og má segja að jólaskreytingar hafi farið stigvaxandi síðan þá. Upp úr 1940 fer að færast meira fjör í leikinn, en mikið af jólaskrauti kom þá frá Ameríku sem og Þýskalandi. Á þessum árum var mikið um skraut úr kreppappír, þá sérstaklega svokallaðar lengjur sem voru hengdar horn úr horni í loftum og gluggum. Í glugga dagsins í dag leynist einmitt ein slík sem kemur úr búi Jónasar Péturssonar í Fellabæ. Lengjan er með spotta í miðjunni svo hægt sé að draga hana út.

Við minnum á að hægt er að sjá grip dagsins, sem og daganna á undan, í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins. 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 17. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 17. desember

Síðastliðna nótt kom Askasleikir til byggða. Af því tilefni er gripurinn í glugga dagsins sérstakt áhugamál hans.

Askur er matarílát sem Íslendingar fóru að nota þegar húsakynni tóku að þrengjast vegna kólnandi veðurfars og ekki var mögulegt að matast við borð. Hver heimilismaður átti sinn ask og sinn spón og sat heimilisfólkið á rúmum sínum í baðstofunni á meðan það borðaði. Oftast var skammtað í askinn á kvöldin og hann geymdur á góðum stað þess á milli. Í kvæði Jóhannesar úr Kötlum er talað um að fólk hafi sett askana á gólfið fyrir kött og hund og þá hafi Askasleikir laumast úr fylgsni sínu og gætt sér á því sem eftir var í honum. 

Askurinn sem er í glugga dagsins var ekki notaður til að borða úr heldur til skrauts. Hann er fagurlega útskorinn út birkii. Gjarðirnar eru nýjar og renndar af Guðmundi Þorsteinssyni frá Lundi en askurinn var gefinn til safnsins af systkinunum frá Litla-Bakka í Hróarstungu. Askasleikir myndi örugglega ekki fúlsa við bita úr þessum fallega aski.

Við viljum minna á að hægt er að skoða grip dagins, sem og dagana á undan, í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins!

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 16. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 16. desember

"Vantar allt malt í þig?"

Það eru sjálfsagt margir sem muna eftir þessari setningu Flosa Ólafssonar, leikara, úr frægri maltauglýsingu en lengi vel var malt markaðssett sem heilsudrykkur og selt í miklum mæli á heilbrigðisstofnanir þar sem það átti að vera næringarríkt og taugastyrkjandi fyrir fullorðna jafnt sem börn. Sama hvað því líður er malt er eitthvað sem við tengjum mikið við jólin, en þá er vinsælt að blanda því saman við appelsín og fá þannig hina klassísku "jólablöndu". Upphaflega byrjaði þessi hefð í kringum 1940 og var malti blandað við aðra drykki til að drýgja það, því að maltið var mjög dýr drykkur. Árið 1955 kom Egils appelsín á markaðinn og fóru menn þá að blanda maltinu saman við það. Árið 1960 er þetta orðinn nokkuð almennur siður á Íslandi. Gripur dagsins í dagatalinu er auðvitað þessi flotta maltflaska sem kom frá Freyshólum á Völlum, en hún - ásamt hinum flöskunum á myndinni - var þar notuð undir berjasaft. 

Við viljum minna á að hægt er að skoða grip dagins, sem og dagana á undan, í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins!

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu. 


Jóladagatal Minjasafnsins - 15. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 15. desember

Ef einhverntímann er tilefni til að baka þá er það á aðventunni!

Það er sjálfsagt óhætt að segja að eitthvað hafi dregið úr fjölda sorta sem bakaðar eru á hverju heimili, en mörgum finnst ómissandi að fá kökuilminn í húsið á þessum tíma. Á fyrri hluta 20. aldar fór að færast í vöxt að húsmæður bökuðu smákökur og tertur í stórum stíl fyrir jólin. Líkleg ástæða þess að jólabakstur varð svona vinsæll á þessum tíma er sjálfsagt sú að þá fyrst var hægt að nálgast ýmiss konar hráefni sem í baksturinn þurfti og bakarofnar voru orðnir almenn eign á heimilum. Allur bakstur varð þar með auðveldari og því tilvalið að baka alls kyns kökur og sætindi til að narta í um jólin.

Í glugga dagsins leynist ótrúlega áhugaverður gripur úr safnkostinum, en það er þetta smákökubox úr fórum Jóhannesar S. Kjarvals, listmálara. Ekki er nú smákökuboxið tómt, heldur er það fullt af girnilegum smákökum. Má þar greina t.d. hálfmána og vanilluhringi. Það má þó þess geta að Kjarval lést árið 1972 svo kökurnar hafa verið í boxinu í alllavega 48 ár og óhætt að segja að þær beri aldurinn vel.

Við viljum minna á að hægt er að skoða grip dagins, sem og dagana á undan, í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins!

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi. 

Ýtið hér til að sjá fleiri gripi í jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 14. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 14. desember

Sá siður að gefa jólagjafir eins og við þekkjum hann í dag er ekki svo ýkja gamall. Lengi hefur þó tíðkast að allt heimilisfólk fái nýja flík fyrir jólin.

Það var ekki fyrr en á seinni hluta 19. aldar sem fólk fór að gefa gjafir í tilefni jóla með þeim hætti sem nú tíðkast. Í gamla sveitasamfélaginu var þó fyrir þann tíma lögð rík áhersla á að allir á heimilinu fengju að minnsta kosti eina nýja flík og sauðskinnsskó frá húsbændum sínum fyrir jólin en ekki var litið á þetta sem gjafir í tilefni jóla heldur frekar sem laun fyrir vel unnin störf. Mikið kapp var lagt á að klára tóvinnu og prjóna nýjar flíkur á alla því annars var hætta á að fólk færi í jólaköttinn. Gripur dagsins gegndi þar lengi lykilhlutverki en það er snælda sem notuð var til að spinna þráð úr ullinni svo hægt væri að prjóna peysur, sokka og fleira á heimilisfólkið. Seinna meir tóku rokkar við af snældunum og léttu mikið undir. Snælda þessi, sem er með hvítu ullargarni á, kom frá Skeggjastöðum 1 og var í eigu Jarþrúðar Einarsdóttur (1859-1927), húsfreyju þar.

Þrátt fyrir að tímarnir séu mikið breyttir þykir mörgum enn í dag mikilvægt að fá nýja flík fyrir jólin. Ef til vill mættum við stundum staldra við og spyrja okkur hvort við ættum kannski frekar að taka okkur nýtni forfeðranna til fyrirmyndar og nýta betur það sem við eigum í stað þess að kaupa nýtt?  

Við minnum á að hægt er að skoða grip dagsins, sem og dagana á undan, á efstu hæð Safnahússins. 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 13. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 13. desember

Það er eitthvað róandi og notalegt við að hafa kveikt á nokkrum kertum á heimilinu, svona í svartasta skammdeginu.

Hér áður fyrr, áður en rafmagnið kom til sögunnar, þurftu Íslendingar að lifa við meira myrkur en við í dag getum ímyndað okkur. Lýsi var algengasta ljósmeti sem almenningur notaði og fara þurfti sparlega með það. Tímarnir hafa breyst og nú kveikir fólk aðallega kertaljós til að gera huggulegt og fær sér gúlsopa af lýsi á morgnanna. Gripur, eða gripir dagsins, hafa eflaust einhverntímann verið notaðir í huggulegum tilgangi en það eru þessir útsöguðu jólaálfar sem halda á kertahöldurum og voru framleiddir af Pálínu Waage á árunum 1938-1939.

Við minnum á að hægt er að sjá grip dagsins, og dagana á undan, á efstu hæð Safnahússins!

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 12. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 12. desember

Aðfaranótt 12. desember tíðkast það að börn setja skóinn sinn út í glugga og vonast til þess að jólasveinarnir komi við og skilji eftir litla gjöf.

Í nótt sem leið ætti Stekkjastaur, sá fyrsti, einmitt að hafa fundið leiðina til byggða. Börn þurftu auðvitað að vinna fyrir gjöfinni, þurftu að vera stillt og prúð því annars væri hætta á að fá kartöflu í skóinn og ekki var það vinsælt, þó einhverjum þætti það eflaust bara nokkuð góð gjöf. Fyrst varð vart við þennan sið hér á landi í kringum 1930. Í byrjun breiddist hann hægt út meðal afmarkaðra hópa en um miðja öldina fór að vera almennt meðal íslenskra barna að setja skóinn út í glugga.  

Í glugga jóladagatalsins í dag er einmitt að finna skópar en óvíst er hvort nákvæmlega þetta par hafi einhverntímann verið sett upp í glugga í þeirri von að fá glaðning að morgni, þar sem þetta eru ónotaðir skór sem komu úr verslun Pálínu Waage á Seyðisfirði. Skórnir eru úr leðri, í stærð 34. 

Við minnum á að hægt er að sjá grip dagsins og dagana á undan í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins! 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 11. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 11. desember

"Á öðrum sunnudegi aðventunnar alhliða hreinsunarstarf á sér stað" segir í kvæðinu Þá mega jólin koma fyrir mér eftir Braga Valdimar Skúlason. 

Jólabaðið er ómissandi þáttur í jólaundirbúningnum þó flestir bíði með það þar til á aðfangadag en klára það ekki frá á öðrum sunnudegi í aðventu eins og maðurinn í kvæði Braga. Eitt er víst, og það er að þegar farið er í jólabað er betra að vera með góða sápu við höndina. Gripur dagsins í jóladagatali Minjasafnsins er einmitt Sól sápa. 

Sólsápur voru framleiddar hjá Sápuverksmiðjan Sjöfn sem sem framleiddi sápu, þvottaefni og ýmsar hreinlætisvörur. Fyrirtækið var eitt af fyrirtækjum SÍS en það var stofnað á Akureyri árið 1932 af SÍS og KEA. Á kassanum er verðmiði með SÍS merki og hefur sápan kostað 45 krónur. 

Við minnum á að hægt er að sjá grip dagsins og dagana á undan í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins! 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýtið hér til sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 10. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 10. desember

Jólaföndur er fastur þáttur í jólaundirbúningi marga, sérstaklega yngri kynslóðarinnar.

Föndrað er í skólum, á heimilum og víðar. Hjá mörgum koma áður óþekktir hæfileikar í ljós og úr verða ódauðleg listaverk sem oftar en ekki verða ómissandi hluti af jólaskreytingum næstu ár eða áratugi á eftir. Að föndra jólakort er einnig góð skemmtun. Gripur, eða gripir dagsins í dag tengist slíkri sköpun en það eru þessar fallegu jólasveinaglansmyndir sem koma frá Brekku í Fljótsdal. Glansmyndir voru oft límdar á jólakort til skreytingar. Margir setja glansmyndir á jólakort enn í dag en þó hafa límmiðar í mörgum tilfellum leyst þær af hólmi. Glansmyndir tengdust ekki bara jólum og var það vinsælt áhugamál hjá mörgum að safna slíkum myndum. 

Við minnum á að hægt er að sjá grip dagsins og dagana á undan í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins! 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að skoða fleiri hluti úr jóladagatalinu. 


Jóladagatal Minjasafnsins - 9. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 9. desember

Eitt af því skemmtilega við veturinn er að geta farið á skauta.

Á mörgum heimilum hér áður fyrr voru til skautar á alla meðlimi fjölskyldunnar. Það var mikið gleðiefni þegar sást að gott skautasvell var að myndast og var þá skautað sér til gamans langt fram á kvöld. Eflaust hafa nokkrir krakkar í gamla daga fengið skauta í jólagjöf, líkt og finna má í jóladagatalinu í dag, en þeir eru úr svörtu leðri með hvítum reimum af sitt hvoru tagi. Annar skautinn er merktur "Ólafur Jónsson" en hinn "Óli Ósi". Samkvæmt Sveitir og jarðir í Múlaþingi, II bindi (bls. 357) bjó Jón Mikaelsson frá Djúpavogi á Unaósi frá árinu 1914 -1922 og átti son sem hét Ólafur og hefur hann að öllum líkindum átt þessa skauta. Gefandi var Ólöf Björgheiður Sölvadóttir (f. 1926) fyrrum bóndi á Unaósi.

Við minnum á að hægt er að sjá grip dagsins og dagana á undan í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins! 

 Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýtið hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 8. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 8. desember

“Ég fæ einn pakka frá afa og ömmu, og annan líka frá pabba og mömmu.”

Nokkuð víst er að jólagjafirnar skipa stórt hlutverk í hátíð ljóss og friðar. Í níunda glugga jóladagatalsins má finna eitthvað sem gæti vel hafa glatt barnshjarta við jólatréð á aðfangadag. Það er nefnilega þessi fallegi dúkkuvagn úr tré. Hann er grænmálaður, nema drapplitur á hliðum. Á sitthvora hliðina er málað landslag, annars vegar fjöll, sjór og víkingaskip á sjónum en hins vegar vatn og fjöll. Á skerminn er málað blómamynstur og handfangið er svartmálað. Dúkkuvagn þessi var upphaflega í eigu Sigríðar Þormar Pálsdóttur (f. 1924, d.1944), frá Neskaupsstað, en hún fórst með Goðafossi. Vagninn varð síðar í eigu Svanbjargar Sigurðardóttur, bónda á Hánefsstöðum, sem gaf hann svo til safnsins.

Við minnum á að hægt er að sjá grip dagsins og dagana á undan í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins! 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 7. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 7. desember

"Ertu búin að öllu fyrir jólin?" er spurning sem stundum hljómar á þessum árstíma.

Margir láta hana fara í taugarnar á sér því hvað er þetta "allt" sem þarf að klára fyrir jólin? Eitt af því sem þótti nauðsynlegt að gera fyrir jólin, og þykir jafnvel enn á sumum heimilum, var að skipta út öllum gardínum og dúkum út fyrir jólagardínur og jóladúka. Þá var allt þvegið og strauborðið drifið fram. Hver einasti dúkur þurfti að vera sléttur! Gripur dagsins er því réttilega þetta dásamlega straujárn, sem hefur mögulega straujað nokkra jóladúka- og gardínur. Straujárnið kom úr búi Þorbergs Jónssonar frá Skeggjastöðum 1. 

Við minnum á að hægt er að sjá gripi jóladagatalsins í sýningarskáp á efri hæð Safnahússins! 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi. 

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 6. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 6. desember

„Jólaklukkur klingja, kalda vetrarnótt“.  

Líkan af kirkjum mátti sjá og má enn sjá á mörgum heimilum fyrir jólin. Oft á tíðum var hægt að kveikja ljós inn í þeim og sumar innihéldu spiladós sem spilaði angurvært „Heims um ból“ eða annað hugljúft lang. Oft voru kirkjurnar líkan af einhverri sérstakri kirkju en það virðist ekki vera með grip dagsins sem kemur frá Setbergi í Fellum og er frá árunum 1950-55. Kirkjuna átti Fanney Einarsdóttir (1923-1956), en hún bjó hana til sjálf.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að skoða fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 5. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 5. desember

Nú má heyra víðsvegar sungið um jólasveinana og þeirra foreldra, hvernig sem þau öll líta út!

Allir kannast við jólasveinana í rauðu fötunum með hvíta skeggið en við þekkjum jafnvel ennþá betur gömlu góðu íslensku sveinana sem segir frá í jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum. Upphaflega var þeirra hlutverk að hræða börn dagana fyrir jól og voru ekkert í líkingu við þennan alþjóðlega jólasvein eins og hann birtist í dag, rauðklæddur, síðskeggjaður sem gefur krökkum gjafir. Á 20. öldinni runnu gömlu jólasveinarnir saman við hann og eru ekki lengur þessi miklu og vondu tröll sem þeir voru.

Gripur dagsins í dag eru einmitt nokkrir íslenskir jólasveinar, þó ekki þrettán talsins eins og þeir ættu að vera, heldur einungis tíu. Með þeim er þó móðir þeirra Grýla og eru þau öll búin til úr prjónavoð eða ull. Fyrirtækið Föndur s/f í Reykjavík framleiddi þessar fígúrur þannig að efnað var niður í þær og leiðbeiningar fylgdu með svo fólk gæti sett sjálft saman. Leiðbeiningar eru með hverjum sveini því þeir eru mismunandi.

Við minnum á að hægt er að sjá grip dagsins og fyrri daga í sýningarskáp á efri hæð Safnahússins. 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.

 


Jóladagatal Minjasafnsins - 4. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 4. desember

Kertasteypa var því eitt af hinum árvissu verkefnum sem þurfti að ljúka fyrir jólin.

Var þá mest notast við sauðatólg. Tólgarkerti voru helst notuð á stórhátíðum og þá einna helst á jólunum þegar skammdegið var sem svartast. Kveikurinn var ýmist snúinn saman úr fífu, ull eða innfluttu ljósagarni.

Gripur dagsins er þetta flotta kertamót sem kemur frá Gilsá í Breiðdal og hefur eflaust verið mikið nýtt fyrir jólakertagerð hér áður fyrr. Að notast við kertamót var ein aðferð við að steypa kerti en oft á tíðum nægði fólki að dýfa kveikunum oft ofan í bráðna tólg þar til kertið var orðið nógu stórt.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 3. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 3. desember

Fallegur jólapappír gleður augað!

Stundum gleður pappírinn litlar manneskjur meira en gjafirnar sem hann geymir.  Í dag er pappírinn oftar en ekki frekar mínímalískur, en útlit hans fylgir eflaust tíðaranda hverju sinni.  

Í þriðja glugga jóladagatals Minjasafnsins má finna þessar fallegu, litlu arkir af jólapappír sem gleðja aldeilis augað enda frekar litríkar og jólalegar, en þær koma frá Múla 2 í Álftafirði. Kannski hefur þessi pappír verið notaður áður utan um jólagjafir, enda algjör óþarfi að henda jólapappír ef maður nær honum sæmilega heilum eftir að hafa tekið upp pakkann. Þannig er hægt að endurnýta pappírinn næstu jól og spara pening sem annars færi í að kaupa nýjan pappír. Umhverfisvænt og gott og við mælum heilshugar með því. 

Við minnum á að hægt er að skoða grip dagsins, og fyrri daga, í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins! 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 2. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 2. desember

Eflaust eru margir farnir að huga að því að skrifa á jólakort, svo þau berist í tæka tíð.

Óhætt er að segja að það vermi hjörtu okkar að fá sent fallegt jólakort með persónulegri kveðju um jólin. Fyrstu jólakortin komu á markað á Íslandi í kringum 1890 og voru oftast dönsk eða þýsk.  Þau urðu oft lágmarks tengiliður milli frændfólks og vina sem höfðu fjarlægst eftir að fólk tók að flytjast úr sveitum í kaupstaði.  Með nútíma tækni fara þó vinsældir jólakorta hnígandi og margir senda nú einungis jóla- og nýárskveðjur á samfélagsmiðlum.

Gripurinn sem leynist í glugganum í dag er handgert jólakort, með fínlegri teikningu eftir einn helsta listmálara Íslands, Jóhannes S. Kjarval.  Á myndinni sjást útlínur landslags og á sjónum sigla tvö seglskip.  Einnig má sjá fugla og blóm og hér og þar stendur „Gleðileg jól“ og „Farsælt komandi ár.“ 

Við minnum á að hægt er að sjá grip hvers dags og fyrri daga, á efstu hæð Safnahússins, 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 1. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 1. desember

Fyrsti dagur desembermánaðar er runninn upp og stundin sem allir hafa beðið eftir er komin! 

Í dag opnum við nefnilega fyrsta glugga jóladagatals Minjasafnsins en eins og fram hefur komið verður sú nýbreytni á að hægt verður að skoða grip hvers dags í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins. Þann 24. des verða því komnir 24 dásamlegir gripir sem á einhvern hátt eru tengdir jólunum og fá að vera í skápnum til og með 6. janúar. Við byrjum í dag með grip sem á svo sannarlega vel við þetta litla verkefni okkar. Þar er um að ræða lítið jóladagatal sem kom úr búi Jónasar Péturssonar í Fellabæ. Dagatalið er úr þunnum pappa og hægt er að leggja það saman. Þegar það er opnað blasir við lukkuhjól sem hægt er að snúa og myndir af margvíslegum vinningum. Svo eru að sjálfsögðu 24 gluggar til að opna einn og einn fram að jólum. Aftan á dagatalinu er texti á dönsku, þýsku og ensku sem er eitthvað á þessa leið í íslenskri þýðingu:

 Jóladagatal með lukkuhjóli
Með þessu jóladagatali getur þú leikið þér með lukkuhjól og kannski vinnurðu einmitt það sem þig langaði í í jólagjöf - það eru verðlaun í boði ef hjólið stoppar á bókstaf og þú mátt velja vinning sem byrjar á þeim bókstaf - en mundu, þetta er bara leikur. Þú getur leikið þér alveg fram á aðfangadagskvöld. Góða skemmtun!

 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.