Jóladagatal Minjasafns Austurlands 2019

Jóladagatal Minjasafnsins - 13. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 13. desember

Síðastliðna nótt kom Giljagaur til byggða.

Eins og allir vita skreið hann "ofan úr gili og skaust í fjósið inn". Þar faldi hann sig í básunum og beið eftir því að fjósakonan myndi bregða sér frá svo hann gæti stolið sér örlítilli froðu ofan af mjókinni í mjólkurskjólu fjósakonunnar.  Gripur dagsins er einmitt mjólkurskjóla eins og sú sem Giljagaur laumaðist í. Hvernig ætli Giljagaur fari að í dag þegar flestar kýr í fjósum landsins eru mjólkaðar með róbótum? 

 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 12. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 12. desember

Aðfaranótt 12. desember tíðkast það að börn setja skóinn sinn út í glugga og vonast til þess að jólasveinarnir komi við og skilji eftir litla gjöf.

Í nótt sem leið ætti Stekkjastaur, sá fyrsti, einmitt að hafa fundið leiðina til byggða. Börn þurftu auðvitað að vinna fyrir gjöfinni, þurftu að vera stillt og prúð því annars væri hætta á að fá kartöflu í skóinn og ekki var það vinsælt, þó einhverjum þætti það eflaust bara nokkuð góð gjöf. Fyrst varð vart við þennan sið hér á landi í kringum 1930. Í byrjun breiddist hann hægt út meðal afmarkaðra hópa en um miðja öldina fór að vera almennt meðal íslenskra barna að setja skóinn út í glugga.  

Í glugga jóladagatalsins í dag er einmitt að finna skópar en óvíst er hvort nákvæmlega þetta par hafi einhverntímann verið sett upp í glugga í þeirri von að fá glaðning að morgni. Skórnir eru svolítið óvenjulegir en þeir eru búnir til úr bílaslöngu og með fylgja útprjónaðir rósaleppar.  Þessa heimagerðu gúmmískó átti Einar Pétursson (1896-1970) frá Galtastöðum fram.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 11. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 11. desember

"Á öðrum sunnudegi aðventunnar alhliða hreinsunarstarf á sér stað" segir í kvæðinu Þá mega jólin koma fyrir mér eftir Braga Valdimar Skúlason. 

Jólabaðið er ómissandi þáttur í jólaundirbúningnum þó flestir bíði með það þar til á aðfangadag en klára það ekki frá á öðrum sunnudegi í aðventu eins og maðurinn í kvæði Braga. Eitt er víst, og það er að þegar farið er í jólabað er betra að vera með góða sápu við höndina. Gripur dagsins í jóladagatali Minjasafnsins er einmitt Sól sápa. 

Sólsápur voru framleiddar hjá Sápuverksmiðjan Sjöfn sem sem framleiddi sápu, þvottaefni og ýmsar hreinlætisvörur. Fyrirtækið var eitt af fyrirtækjum SÍS en það var stofnað á Akureyri árið 1932 af SÍS og KEA. Á kassanum er verðmiði með SÍS merki og hefur sápan kostað 45 krónur. 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýtið hér til sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 10. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 10. desember

Jólaföndur er fastur þáttur í jólaundirbúningi marga, sérstaklega yngri kynslóðarinnar.

Föndrað er í skólum, á heimilum og víðar. Hjá mörgum koma áður óþekktir hæfileikar í ljós og úr verða ódauðleg listaverk sem oftar en ekki verða ómissandi hluti af jólaskreytingum næstu ár eða áratugi á eftir. 

 

Að föndra jólakort er einnig góð skemmtun. Gripur dagsins í dag tengist slíkri sköpun en það eru tvær fallegar glansmyndir af jólasveinum en slíkar myndir voru oft límdar á jólakort til skreytingar. Margir setja glansmyndir á jólakort enn í dag en þó hafa límmiðar í mörgum tilfellum leyst þær af hólmi. Glansmyndir tengdust ekki bara jólum og var það vinsælt áhugamál hjá mörgum að safna slíkum myndum. 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að skoða fleiri hluti úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 9. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 9. desember

Eitt af því skemmtilega við veturinn er að geta farið á skauta.

Á mörgum heimilum hér áður fyrr voru til skautar á alla meðlimi fjölskyldunnar. Það var mikið gleðiefni þegar sást að gott skautasvell var að myndast og var þá skautað sér til gamans langt fram á kvöld.   Eflaust hafa nokkrir krakkar í gamla daga fengið skauta í jólagjöf, líkt og finna má í jóladagatalinu í dag, en þá átti Vigfús Eiríksson en þá fékk hann frá Kristmundi Bjarnasyni frá Hallfreðarstöðum er hann var í Laugaskóla. Skautarnir eru heimasmíðaðir og ættaðir norðan úr Þingeyjarsýslu. Þeir eru nokkuð frábrugðnir skautunum sem við þekkjum í dag en þessir voru bundnir utan um skóna.

 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýtið hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 8. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 8. desember

“Ég fæ einn pakka frá afa og ömmu, og annan líka frá pabba og mömmu.”

Nokkuð víst er að jólagjafirnar skipa stórt hlutverk í hátíð ljóss og friðar. Í níunda glugga jóladagatalsins má finna eitthvað sem gæti vel hafa glatt eitthvert barnið á jólunum, fyrir mörgum árum síðan. Það er nefnilega þessi fallegi bangsi sem kom frá Brekku í Fljótsdal. Hann hafði þann eiginlega að geta “baulað” ef honum var hallað aftur. Bangsinn er klæddur í hvítan slopp sem á að vera hægt að binda en bandið hefur týnst enda er hann vel kominn til ára sinna.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 7. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 7. desember

"Ertu búin að öllu fyrir jólin?" er spurning sem stundum hljómar á þessum árstíma.

Margir láta hana fara í taugarnar á sér því hvað er þetta "allt" sem þarf að klára fyrir jólin? Eitt af því sem þótti nauðsynlegt að gera fyrir jólin, og þykir jafnvel enn á sumum heimilum, var að skipta út öllum gardínum og dúkum út fyrir jólagardínur og jóladúka. Þá var allt þvegið og strauborðið drifið fram. Hver einasti dúkur þurfti að vera sléttur! Gripur, eða gripir, dagsins eru því réttilega þrír litlir jóladúkar sem koma frá Múla 2 í Álftafirði. Tveir þeirra eru reyndar úr plasti og voru því sennilega ekki oft straujaðir meðan þeir voru í notkun, en allir eiga þeir það sameiginlegt að hafa lífgað upp á svartasta skammdegið á sínum tíma.

 Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 6. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 6. desember

„Jólaklukkur klingja, kalda vetrarnótt“.  

Líkan af kirkjum mátti sjá og má enn sjá á mörgum heimilum fyrir jólin. Oft á tíðum var hægt að kveikja ljós inn í þeim og sumar innihéldu spiladós sem spilaði angurvært „Heims um ból“ eða annað hugljúft lang. Oft voru kirkjurnar líkan af einhverri sérstakri kirkju en það virðist ekki vera með grip dagsins sem kemur frá Setbergi í Fellum og er frá árunum 1950-55. Kirkjuna átti Fanney Einarsdóttir, en hún bjó hana til sjálf.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að skoða fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 5. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 5. desember

Óhætt er að segja að það vermi hjörtu okkar að fá sent fallegt jólakort með persónulegri kveðju um jólin.

Fyrstu jólakortin komu á markað á Íslandi í kringum 1890 og voru oftast dönsk eða þýsk. Þau urðu oft lágmarks tengiliður milli frændfólks og vina sem höfðu fjarlægst eftir að fólk tók að flytjast úr sveitum í kaupstaði. Með nútíma tækni fara þó vinsældir jólakorta hnígandi og margir senda nú einungis jóla- og nýárskveðjur á samfélagsmiðlum.

Gripurinn sem leynist í glugganum í dag er handgert jólakort, að öllum líkindum með teikningu eftir einn helsta listmálara Íslands, Jóhannes S. Kjarval. Á myndinni sjást útlínur landslags og á sjónum sigla tvö seglskip. Einnig má sjá fugla og blóm og hér og þar stendur „Gleðileg jól“ og „Farsælt komandi ár.“

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér  til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 4. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 4. desember

Kertasteypa var því eitt af hinum árvissu verkefnum sem þurfti að ljúka fyrir jólin.

Var þá mest notast við sauðatólg. Tólgarkerti voru helst notuð á stórhátíðum og þá einna helst á jólunum þegar skammdegið var sem svartast. Kveikurinn var ýmist snúinn saman úr fífu, ull eða innfluttu ljósagarni.

Gripur dagsins er þetta flotta kertamót sem kemur frá Gilsá í Breiðdal og hefur eflaust verið mikið nýtt fyrir jólakertagerð hér áður fyrr.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.


Jóladagatal Minjasafnsins - 3. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 3. desember

Fallegur jólapappír gleður augað!

Fátt er skemmtilegra en fallegur jólapappír og stundum gleður pappírinn litlar manneskjur meira en gjafirnar sem hann geymir. Í dag er pappírinn oftar en ekki frekar mínímalískur, en útlit hans fylgir eflaust tíðaranda hverju sinni.

Í þriðja glugga jóladagatals Minjasafnsins má finna þessar fallegu, litlu arkir af jólapappír sem gleðja aldeilis augað enda frekar litríkar og jólalegar.   Kannski hefur þessi pappír verið notaður áður utan um jólagjafir, enda algjör óþarfi að henda jólapappír ef maður nær honum sæmilega heilum eftir að hafa tekið upp pakkann. Þannig er hægt að endurnýta pappírinn næstu jól og spara pening sem annars færi í að kaupa nýjan pappír. Umhverfisvænt og gott.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.


Jóladagatal Minjasafnsins - 2. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 2. desember

Jólasveinar geta verið allskonar!

Við þekkjum þessa í rauðu fötunum með hvíta skeggið en við þekkjum jafnvel ennþá betur gömlu góðu íslensku sveinana sem segir frá í jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum. Upphaflega var þeirra hlutverk að hræða börn dagana fyrir jól og voru ekkert í líkingu við þennan alþjóðlega jólasvein eins og hann birtist í dag, rauðklæddur, síðskeggjaður sem gefur krökkum gjafir. Á 20. öldinni runnu gömlu jólasveinarnir saman við hann og eru ekki lengur þessi miklu og vondu tröll sem þeir voru.

Gripur dagsins í dag eru einmitt nokkrir íslenskir jólasveinar, þó ekki þrettán talsins eins og þeir ættu að vera, heldur einungis tíu. Með þeim er þó móðir þeirra Grýla og eru þau öll búin til úr prjónavoð eða ull. Fyrirtækið Föndur s/f í Reykjavík framleiddi þessar fígúrur þannig að efnað var niður í þær og leiðbeiningar fylgdu með svo fólk gæti sett sjálft saman. Leiðbeiningar eru með hverjum sveini því þeir eru mismunandi.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.

 


Jóladagatal Minjasafnsins - 1. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 1. desember

Við hjá Minjasafninu ætlum að telja niður til jóla með því fjalla um 24 safngripi úr safnkosti Minjasafnsins sem allir tengjast jólunum á einhvern hátt.

Við byrjum í dag með grip sem á svo sannarlega vel við þetta litla verkefni okkar en þar er um að ræða lítið jóladagatal.

Dagatalið er úr þunnum pappa og hægt er að leggja það saman. Þegar það er opnað blasir við lukkuhjól sem hægt er að snúa og myndir af margvíslegum vinningum. Svo eru að sjálfsögðu 24 gluggar til að opna einn og einn fram að jólum. Aftan á dagatalinu er texti á dönsku, þýsku og ensku sem er eitthvað á þessa leið í íslenskri þýðingu:

 Jóladagatal með lukkuhjóli
Með þessu jóladagatali getur þú leikið þér með lukkuhjól og kannski vinnurðu einmitt það sem þig langaði í í jólagjöf - það eru verðlaun í boði ef hjólið stoppar á bókstaf og þú mátt velja vinning sem byrjar á þeim bókstaf - en mundu, þetta er bara leikur. Þú getur leikið þér alveg fram á aðfangadagskvöld. Góða skemmtun!

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

 


Jóladagatal Minjasafnsins - 3. desember

Jóladagatal Minjasafnsins - 3. desember

Fallegur jólapappír gleður augað!

Fátt er skemmtilegra en fallegur jólapappír og stundum gleður pappírinn litlar manneskjur meira en gjafirnar sem hann geymir. Í dag er pappírinn oftar en ekki frekar mínímalískur, en útlit hans fylgir eflaust tíðaranda hverju sinni.

Í þriðja glugga jóladagatals Minjasafnsins má finna þessar fallegu, litlu arkir af jólapappír sem gleðja aldeilis augað enda frekar litríkar og jólalegar.   Kannski hefur þessi pappír verið notaður áður utan um jólagjafir, enda algjör óþarfi að henda jólapappír ef maður nær honum sæmilega heilum eftir að hafa tekið upp pakkann. Þannig er hægt að endurnýta pappírinn næstu jól og spara pening sem annars færi í að kaupa nýjan pappír. Umhverfisvænt og gott.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi úr jóladagatalinu.