Fyrri sýningar

Hreindýradraugur #3

Hreindýradraugur #3

Sumarsýning Minjasafns Austurlands var opnuð 17. júní 2022. Þar sýndi franski sjónlistamaðurinn François Lelong skúlptúra og málverk sem innblásin voru af hreindýrum og náttúru Austurlands.

François hefur í meira en áratug unnið með landslag og innan þess. Hann velur staði fyrir inngrip og finnur þar efni sem hann notar í skúlptúra og innsetningar sem eru innblásin af menningarlegum, félagslegum og sögulegum einkennum hvers staðar fyrir sig. Þannig vinnur François með tengingarnar milli manna, dýra og umhverfis og á sýningu hans í Minjasafni Austurlands birtist þessi áhugi í tilvist hreindýranna og samspili þeirra við mannfólkið. Efniviðinn sækir hann í náttúruna og vinnur m.a. með hreindýrshorn, tré og jurtir. Sýningin fléttast saman við aðra fasta sýningu safnsins, Hreindýrin á Austurlandi, þannig að til verður skemmtilegt samspil milli listar og menningararfs. 

Sýningin var þriðja sýning François sem innblásin var af hreindýrum en áður hafði hann unnið að list sinni og sett upp sýningar á Húsavík og á Skriðuklaustri. François dvaldi á Fljótsdalshéraði í aðdraganda sýningarinnar á Minjasafni Austurlands og vann að nýjum skúlptúr sem bætist við fyrri verk hans tengd hreindýrunum. 

Sýningin hlaut styrki úr Safnasjóði, Uppbyggingarsjóði Austurlands og frá Múlaþingi. 

Vefur listamannsins. 


Skessur sem éta karla

Skessur sem éta karla

Sumarsýning Minjasafnsins Austurlands, Skessur sem éta karla, verður opnuð á þjóðhátíðardaginn. 

Sýningin er afrakstur rannsókna Dagrúnar Óskar Jónsdóttir þjóðfræðings sem hefur rannsakað mannát í íslenskum þjóðsögum. Á sýningunni vinnur Dagrún með hvernig mannátið birtist í þjóðsögunum og hvað það getur sagt okkur um samfélagið sem sögurnar tilheyra. Í rannsóknum sínum fléttar hún saman þjóðsögum og nútíma hugmyndum um feminisma og bregður þannig ljósi á nýjar hliðar bæði á þjóðsögunum og ójafnrétti kynjanna. "Þjóðsagnir endurspegla á vissan hátt hugmyndaheim og heimsmynd þeirra sem þeim safna og þær skrifað. Tröllskessur ráða ríkjum í tröllaheiminum og í sögum af mannáti eru það nánast alltaf tröllskessur sem éta mennska karlmenn. Það voru aðallega karlar sem söfnuðu, skrifuðu og gáfu út þjóðsagnaefni og hafa fræðimenn velt því fyrir sér hvort þessi birtingarmynd kvenna sem éta karla geti endurspeglað á einhvern hátt ótta karla við að missa völd sín yfir konunum" segir Dagrún. Niðurstöðum sínum miðlar Dagrún á veggspjöldum sem eru fagurlega myndskreytt með vatnslitamyndum Sunnevu Guðrúnar Þórðardóttur. 

Sýningin hefur verið sett upp víða um land, m.a. á Ísafirði, Hólmavík, Akureyri og Reykjavík. Hún verður á neðstu hæð Safnahússins og mun standa til haustsins. Hún verður sem fyrr segir opnuð á þjóðhátíðardaginn en þann dag verður opið hús hjá Minjasafninu frá kl. 10:00 - 18:00 og frítt inn á allar sýningar. 


Sumar

Sumar

Á sumardaginn fyrsta var opnuð ný örsýning í sýningarskápnum á efstu hæð safnahússins. Sú ber einfaldlega nafnið sumar og er, eins og nafnið gefur til kynna, tileinkuð hinu íslenska sumri. Á sýningunni eru margvíslegir gripir úr safnkosti safnsins sem allir  tengjast sumrinu á einhvern hátt auk þess sem þar er hægt að skoða ýmsar sumarlegar ljósmyndir frá Ljósmyndasafni Austurlands.. 


Eyðibýli á heimaslóðum.

Eyðibýli á heimaslóðum.

Ljósmyndasýningin "Eyðibýli á heimaslóðum" var lokaverkefni Önnu Birnu Jakobsdóttur (f. 2001) frá Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 2020. Eins og nafn sýningarinnar gefur til kynna var um að ræða ljósmyndir af nokkrum völdum eyðibýlum á Austurlandi, en samtals tók Anna Birna fyrir níu eyðibýli víðsvegar um landshlutann. 


Óskadraumur eiginkonunnar.

Óskadraumur eiginkonunnar.

Á örsýningunni "Óskadraumur eiginkonunnar" sem stóð yfir haustið 2020 voru til sýnis margvíslegir gripir úr safnkosti safnsins sem allir tengdust snyrtingu og útliti. Þar mátti meðal annars sjá forláta snyrtiborð, háfjallasól og Ronson hárþurrkur. Nafn sýningarinnar var einmitt fengið úr auglýsingu fyrir fyrrnefndar háþurrkur þar sem þeim var lýst á þennan háfleyga hátt. Í sumum tilfellum eru sambærilegir hlutir og sáust á sýningunni notaðir enn í dag á meðan tímans tönn hefur ekki farið eins mildum höndum um aðra. 


Vetur

Vetur

Í upphafi árs 2021 var sjónum beint að íþróttum og tómstundum sem tengjast vetrinum á örsýningunni Vetur. Þar voru til sýnis ýmsir gripir úr safnkosti safnsins sem tengudust vetrinum og vetraríþróttum ásamt ljósmyndum frá Ljósmyndasafni Austurlands sem sýndu austfirskar vetraríþróttir í gegnum tíðina. 


Fleyg orð - Flugdrekabók

Fleyg orð - Flugdrekabók

Sýningin Fleyg orð - Flugdrekabók sveif um loftin í anddyrinu á miðhæð Safnahússins sumarið 2020 og fram á árið 2021. Á sýningunni voru sjö verk eftir listamanninn Guy Stewart sem hvert og eitt var tileinkað fornu bókmenntaverki. 

Sýningin var nokkurs konar óður til bókarinnar og bókmenningar, íhuguls lesturs og frelsis ímyndunaraflsins. Listamaðurinn beindi sjónum sínum að þeim áhrifum sem nýir miðlar eins og internetið hafa á hugsanagang okkar og hvernig við umgöngumst bækur í dag. Niðurstaðan var að bækur væru eins og flugdrekar. Á meðan internetið er alltumlykjandi er bókin hlutur sem við tökum okkur í hendur á ákveðnum tímum við ákveðnar aðstæður, rétt eins og flugdrekar sem aðeins er hægt að fljúga í vindi.

Guy Stewart hefur unnið sem leikari, grunnskólakennari og hönnuður. Hann er fæddur og uppalinn í Kanada en hann hefur búið á Íslandi frá árinu 1994.

Sýningin var sett upp í Safnahúsinu á Egilsstöðum í samvinnu við Bókasafn Héraðsbúa og Héraðsskjalasafn Austfirðinga og var styrkt af Fljótsdalshéraði.

Flugdrekabókin hefur verið sett upp á bókasöfnum bæði hér á landi og erlendis. Meðal annars á Amtsbókasafninu á Akureyri, Borgarbókasafni og Íslenska bókasafninu í Háskólanum í Manitoba.


Málfríður Jónsdóttir - blinda stúlkan frá Kolmúla

Málfríður Jónsdóttir - blinda stúlkan frá Kolmúla

Málfríður Jónsdóttir fæddist 27. september 1910 að Hreimsstöðum í Hjaltastaðaþinghá, fyrsta barn hjónanna Guðnýjar Guðmundsdóttur frá Heiðarseli í Tungu og Jónasar Benediktssonar frá Kolsstöðum á Völlum. Þegar Málfríður var á 10. aldursári fluttist fjölskyldan að Vattarnesi við Reyðarfjörð og síðar í Kolmúla. Árið sem fjölskyldan flutti að Vattarnesi veiktist Málfríður illa af heilahimnubólgu og missti bæði sjón og heyrn eftir hálf árs þjáningafull veikindi. Heyrnina fékk hún þó að einhverju leyti aftur. Þrátt fyrir þetta lauk hún 14 ára gömul fullnaðarprófi eins og önnur börn, en foreldrar hennar aðstoðuðu hana við námið með því að lesa fyrir hana og uppfræða á alla lund. Málfríður dvaldi veturlangt í Reykjavík við nám í dönsku og blindraletri til undirbúnings frekara námi við kvennaskóla fyrir blinda í Danmörku. Styrkur hlaust til 2ja ára skólasetu ytra. Málfríður ræktaði talsvert það sem hún hafði yndi af - tónlist, ljóðlist, sögum og fræðum og eignaðist talsvert bókasafn fjölbreyttra rita á blindraletri. Ennfremur hlaut Málfríður mikla þjálfun í vefnaði ýmiskonar og voru afköst hennar og vandvirkni með ólíkindum. Hróður Málfríðar barst víða og var handavinna hennar seld og gefin vítt um land og til útlanda. Málfríður var, þótt ferill hennar gefi annað í skyn, fremur heilsuveil og lést hún aðeins þrítug að aldri, þann 20. mars 1941.

 


Eftirlýstir Íslendingar á 17. og 18. öld

Eftirlýstir Íslendingar á 17. og 18. öld

Sýningin Eftirlýstir Íslendingar á 17. og 18. öld var opnuð í Safnahúsinu þann 30. október, á fyrsta degi byggðahátíðarinnar Dagar myrkurs. 

Sýningin samanstendur af 30 teikningum nemenda á teiknibraut við Myndlistaskólann í Reykjavík. Teikningarnar voru unnar upp úr lýsingum á eftirlýstu fólki sem birtust í Alþingisbókum Íslands frá miðri 17. öld og undir lok 18. aldar en á þeim tíma voru ekki aðrar leiðir færar til að lýsa eftir strokufólki og sakamönnum en að setja saman kjarnyrtar lýsingar á útliti þeirra sem lesnar voru upp á Alþingi og bárust síðan manna á milli. 

Verkefnið er samstarfsverkefni skólans og Daníels G. Daníelssonar sagnfræðings og er sprottið upp úr rannsóknum Daníels fyrir verkefnið ,,Fötlun fyrir tíma fötlunar“. Við opnun sýningarinnar flutti Daníel fyrirlestur þar sem hann kynnti rannsóknir sínar á efninu og dró fram nokkra eftirlýsta Austfirðinga fyrri tíma. 

Sýningin hefur verið sett upp víða um land, m.a. í Háskóla Íslands, Minjasafninu á Akureyri og Sagnheimum í Vestmannaeyjum. Sýningin í Safnahúsinu og fyrirlestur Daníels var samstarfsverkefni Minjasafns Austurlands, Bókasafns Héraðsbúa og Héraðsskjalasafns Austfirðinga og er styrkt af Alcoa Fjarðaáli.


Slifsi

Slifsi

Sýningin Slifsi stendur nú yfir í Minjasafni Austurlands. Þar eru til sýnis nokkur af þeim fjölmörgu peysufataslifsum sem safnið varðveitir. Þau eru frá ýmsum tímum og eins ólík og þau eru mörg en eiga það öll sameiginlegt að hafa prýtt peysuföt austfirskra kvenna við hátíðleg tækifæri. Sýningarhönnun var í höndum Perlu Sigurðardóttur hjá PES ehf. 

Samhliða sýningunni var opnuð vefsýning á Sarpi þar sem áhugasamir geta skoðað myndir af slifsunum og nálgast nánari upplýsingar um þau. 


Jólagluggi verslunar Pálínu Waage

Jólagluggi verslunar Pálínu Waage

Jólasýning Minjasafnsins árið 2018 bar yfirskriftina Jólagluggi Verslunar Pálínu Waage. 

Verslun E.J. Waage á Seyðisfirði var upphaflega stofnuð af Pálínu Guðmundsdóttur Waage árið 1907 í nafni eiginmanns hennar, Eyjólfs Jónssonar Waage. Síðar tók Jón sonur þeirra við rekstrinum en árið 1962 var komið að Pálínu Waage yngri, dótturdóttur Pálínu og Eyjólfs að taka við keflinu. Undir stjórn Pálínu yngri var verslunin nefnd Pöllubúð í daglegu tali. Búðin er ógleymanleg öllum sem í hana komu en þar var sannarlega hægt að fá allt milli himins og jarðar. Í viðtali við Morgunblaðið árið 1999 svaraði Pálína spurningu um hvað hún seldi í búðinni með orðunum "hvað sel ég ekki?"

Minjasafn Austurlands geymir mikið safn gripa sem tengist verslunarrekstri Pálínu Waage og bættist í það safn árið 2018 þegar safnið fékk afhenta fleiri gripi, m.a. nokkra sem tengust jólum. Í tilefni af því var jólasýning safnsins helguð versluninni og settur var upp búðargluggi með jólavörum úr búðinni í skápnum fyrir framan Bókasafnið á þriðju hæð.


Austfirskt fullveldi: Sjálfbært fullveldi?

Austfirskt fullveldi: Sjálfbært fullveldi?

Sýningin Austfirskt fullveldi - Sjálfbært fullveldi var hluti af stærra verkefni sem níu mennta-, menningar- og rannsóknarstofnanir á Austurlandi tóku höndum saman um í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands árið 2018. Markmiðið var að skoða með nýstárlegum hætti hugtökin fullveldi og sjálfbærni og tengslin þar á milli. Sýningin sem opnuð var í Minjasafni Austurlands var ein af fjórum sambærilegum sýningum sem opnaðar voru á sama tíma á Austurlandi 17. júní 2018. Hinar voru opnaðar í Tækniminjasafninu á Seyðisfirði, í Randulfssjóhúsi á Eskifirði og á Skriðuklaustri í Fljótdal. Sýningarnar fjölluðu um börn árin 1918 og 2018 og var líf þeirra, nánasta umhverfi og samfélag speglað við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Í tengslum við verkefnið var opnuð heimasíða þar sem finna á margvíslegan fróðleik. Verkefnið náði hápunkti á veglegri lokahátíð sem fór fram í Menntaskólanum á Egilsstöðum á fullveldisdaginn, 1. desember. Þar voru sýningarnar fjórar sameinaðar á einum stað, nemendukynntu verkefni sem tengjast fullveldinu og fleira. Auk þeirra stofnana sem þegar hafa verið nefndar komu Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Skólaskrifstofa Austurlands, Safnastofnun Fjarðabyggðar og Landgræðsla ríkisins einnig að því en það var leitt af Austurbrú. Sýningin var styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands og Alcoa


Nr. 2 Umhverfing

Nr. 2 Umhverfing

Sýningin Nr. 2 Umhverfing var samsýning 37 listamanna sem allir eiga það sameiginlegt að tengjast Fljótsdalshéraði á einn eða annan hátt. Sýningarstaðirnir voru þrír, Safnahúsið, Sláturhúsið og hjúkrunarheimilið Dyngja. Í tengslum við sýninguna var jafnframt gefin út samnefnd bók með upplýsingum um listamennina og verk þeirra.

Sýningin var hluti af röð sýninga sem settar verða upp víða um land á næstu árum. Fyrsta sýningin var sett upp á Sauðárkróki sumarið 2017 og bar hún titilinn Nr. 1 Umhverfing. Hugmyndin að baki verkefninu er að setja upp myndlistarsýningar í óhefðbundnum rýmum þar sem ekki er hefð fyrir nútíma myndlistarsýningum.

Að sýningunum stendur félagsskapur fjögurra myndlistakvenna sem nefnist Akademía skynjunarinnar. Að henni standa þær Anna Eyjólfsdóttir, Ragnhildur Stefánsdóttir, Rúrí og Þórdís Alda Sigurðardóttir. Þær voru allar á meðal þeirra listamanna sem áttu verk á sýningunni en nöfn þeirra allra má sjá hér. Samstarfsaðilar akademíunnar í verkefninu eru Minjasafn Austurlands, Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Bókasafn Héraðsbúa, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs og Heilbrigðisstofnun Austurlands. Sýningin var styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands, Fljótsdalshéraði og Listasjóði Dungal.


Verbúðarlíf - menning og minning

Verbúðarlíf - menning og minning

Fjölmargir Íslendingar kynntust verbúðalífi og verbúðaflakki um og upp úr miðri síðustu öld. Peningalyktin barst úr sjávarplássunum og þangað streymdi unga fólkið, laust og liðugt, í von um skjótan gróða. Sumir sáu í fiskvinnslunni tækifæri til að afla á sumarvertíðinni nægilegs fjár til skólans næsta vetur, en aðrir þraukuðu lengur og unnu jafnt sumarvertíðir sem vetrarvertíðir og færðu sig jafnvel milli plássa, frá Eyjum á Eskifjörð og frá Grindavík á Suðureyri. Allt í senn í von um meiri vinnu, meiri pening og meira fjör.

Á sýningunni Verbúðarlíf sem opnuð var í Minjasafni Austurlands á Dögum myrkurs 2017, fengu gestir að skyggnast inn í herbergi á verbúð. Þar var verbúðalífi þessa tíma gerð skil, annars vegar með myndum og texta og hins vegar með hálftíma langri kvikmynd og jafnlöngum útvarpsþætti.

Sýningin er farandsýningin og var unnin af Spor - menningarmiðlun


Þorpið á Ásnum

Þorpið á Ásnum

Árið 2017 voru 70 ár frá því að Egilsstaðahreppur var formlega stofnaður og þéttýli tók að myndast við Gálgaás. Af því tilefni settu Minjasafn Austurlands og Héraðsskjalasafn Austfirðinga upp sýningu tileinkaða tímamótunum í Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, Sláturhúsinu, sumarið 2017. Eftir að sýningartímanum í Sláturhúsinu lauk var hluti sýningarinnar settur upp í Safnahúsinu. 

Á sýningunni vorutil sýnis munir, ljósmyndir, skjöl, hljóð- og myndefni úr fórum safnanna tveggja sem allt tengist sögu Egilsstaða á einn eða annan hátt. Hér var ekki um að ræða tæmandi sögu Egilsstaða heldur var áhersla lögð á að fjalla um upphafið, um frumbyggjana og frumkvöðlana, sýna hvernig byggðin hefur þróast og taka dæmi um það fjölbreytta mannlíf sem hefur blómstrað á Ásnum alla tíð. Vonir stóðu til að sýningin myndi vekja upp minningar hjá eldri kynslóðum og gæfi um leið yngri kynslóðum tækifæri til að fræðast um þá sem á undan þeim gengu um götur þorpsins á Ásnum.

 

 


Leikið á Ásnum

Leikið á Ásnum

Í hópi frumbyggja Egilsstaða voru að sjálfsögðu mörg börn. Leiksvæði þeirra var annað og öðruvísi en Egilsstaðabörn þekkja í dag enda hefur bærinn breyst og þróast í tímans rás. Í sýningarskápum í sýningarsal Minjasafnsins má skoða leikföng frá þeim tíma þegar fyrstu innfæddu Egilsstaðabúarnir voru að alast upp. Þar má m.a. sjá brúður, bíla, LEGO kubba og spil. Sumt kann að koma nútímabörnum spánskt fyrir sjónir en önnur leikföng hafa elst betur og gætu allt eins hafa verið keypt í gær.


Ging gang gúllí á Ásnum

Ging gang gúllí á Ásnum

Á þessu ári eru 55 ár frá því að skátafélagið Ásbúar var formlega stofnað á Egilsstöðum. Í tilefni af því hefur verið sett upp skátamót í skápnum fyrir framan Bókasafnið á þriðju hæð Safnahússins. Þar eru til sýnis margvíslegir munir úr fórum Minjasafnsins sem allir tengjast starfi félagsins á fyrri tíð. 


Minningar um torfhús

Minningar um torfhús

Sýningin Minningar um torfhús var í sett upp á neðstu hæð Safnahússins í janúar 2017. Á sýningunni voru 25 ljósmyndir sem franski fornleifafræðingurinn Sandra Coullenot tók af gömlum byggingum vítt og breitt um Ísland. Ljósmyndirnar voru hluti af doktorsverkefni Söndru en í rannsóknum sínum skoðaði hún m.a. hvort og hvernig torfhús hafa haft áhrif á íslenska sagnahefð og notaði til þess bæði aðferðir þjóðfræði og fornleifafræði.

Markmið sýningarinnar var að vekja upp minningar og hugrenningar sem sýningargestir tengdu við torfhús. Sérstakur minningarkassi var á sýningunni og voru gestir hvattir til að skrifa hugrenningar sínar á miða sem hægt er að stinga í kassann. 

Sýningin var sett upp í samstarfi við söfnin í Safnahúsinu og Gunnarsstofnun en Sandra dvaldi í gestaíbúðinni á Skriðuklaustri í byrjun árs 2017.


Festum þráðinn

Festum þráðinn

Sýningin Festum þráðinn - samræður um útsaum spor fyrir spor var opnuð í Minjasafninu 2. nóvember 2016. Þar voru til sýnis útsaumuð verk 10 kvenna, fimm frá Austurlandi og fimm frá Vesterålen í Noregi. Allar eru konurnar á aldrinum 67- 95 ára og eiga það sameiginlegt að hafa stundað útsaum frá unga aldri. Sýningin er hluti af rannsókn norsku listakonunnar Ingrid Larssen á útsaumshefðum beggja svæða. Afrakstur rannsókna sinna gaf hún út í bók í samstarfi við Minjasafnið. Bókin er samnefnd sýningunni og er til sýnis og sölu á Minjasafninu. Í tengslum við sýninguna stóð Minjasafnið fyrir útsaumskaffi þar sem Guðrún Sigurðardóttir, handmenntakennari og þátttakandi í verkefninu, kynnti mismunandi útsaumsaðferðir og leyfði gestum að spreyta sig. Nánari upplýsingar um sýninguna og rannsókn Ingridar er að finna hér.

Sýningin stóð fram að jólum og var eftir það sett upp í Sortland Museum í Vesterålen í Noregi. 


Fjöllistamaður í fjallasal

Fjöllistamaður í fjallasal

Sumarsýning Minjasafnsins árið 2016 var samstarfsverkefni safnsins, Héraðsskjalasafns Austfirðinga og Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs. Sýningin bar heitið Fjöllistamaður í Fjallasal og var tileinkuð alþýðulistamanninum Jón A. Stefánssyni frá Möðrudal sem var mikill hagleiks- og listamaður, málaði málverk, skar út í tré, spilaði á orgel, samdi lög og söng. Frægastur var hann þó fyrir að hafa byggt Möðrudalskirkju og málað altaristöfluna sem í henni er en kirkjuna byggði hann til minningar um konu sína, Þórunni Oddsen. Sýningin var sett upp í Sláturhúsinu og þar voru til sýnis málverk og listmundir eftir Jón auk þess sem hægt var að skoða skjöl tengd honum og hlusta á viðtöl við hann og upptökur á söng hans.  Í tengslum við sýninguna gafst einstakt tækifæri til að safna saman upplýsingum um verk Jóns sem til eru víða. Frétt um opnun sýningarinnar má finna hér.
20 ár í Safnahúsi

20 ár í Safnahúsi

Í tilefni af því að 20 ár voru liðin frá því að Minjasafnið flutti í Safnahúsið á Egilsstöðum var sumarsýningu safnsins árið 2016  ætlað að sýna þá fjölbreytni sem einkennir safnkost safnsins. Safnverðir litu yfir geymslurnar og tíndu til nokkra muni sem tilheyra þeim tíu söfnunarflokkum sem skilgreindir eru í safnastefnu Minjasafnsins. Gripirnir voru á öllum aldri og ástand þeirra mismunandi en allir geyma þeir mikilvægar sögur um líf og störf fólks á Austurlandi fyrr og nú. Meðal þess sem sjá mátti á sýningunni var hökull sem sagan segir að hafi komið frá álfum, vídalínspostilla frá 18. öld, skólabjalla frá Alþýðuskólanum á Eiðum, óþekktir forngripir, brauðmót og spáspil. 


Söfnunarflokkar Minjasafns Austurlands eru: Heimilishald, skólahald, atvinnuhættir, félagsleg uppbygging, dægradvöl, hús- og híbýlahættir, fornmunir, ljósmyndir, bækur og skjöl.


"Brostu þá margir heyranlega"

31. október 2015 var opnuð sýning um Sigfús Sigfússon, þjóðsagnasafnara frá Eyvindará í tilefni af því að 160 ár voru liðin frá fæðingu hans. Sýningin, sem bar yfirskriftina "Brostu þá margir heyranlega" var samstarfsverkefni Héraðsskjalasafns Austfirðinga, Minjasafns Austurlands og Bókasafns Héraðsbúa. Á sýningunni voru veggspjöld með margvíslum fróðeik um Sigfús og verk hans, bækur, skjöl og bréf úr fórum Sigfúsar og munir frá þeim tíma þegar Sigfús var uppi auk þess sem hægt var að hlusta á þjóðsögur úr safni hans.

Nála

Nála

Haustsýning Minjasafnsins árið 2015 var farandsýningin Nála sem byggð er á samnefndri bók bók eftir Evu Þengilsdóttur. Bókin Nála - riddarasaga kom út hjá Sölku í lok árs 2014 og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Sagan er ævintýri um valið milli góðs og ills, stríðs og friðar. Innblástur sótti höfundur í íslenskt handverk og sagnahefð. Sýningin var sniðin að yngstu bekkjum grunnskóla. Þar var ýtt undir hugmyndaflug og sköpunargleði og gestir hvattir til að snerta, skapa og skemmta sér. Auk þess útbjó Eva skemmtilegan ratleik sem teygiði sig um allt Safnahúsið. 140 skólabörn af öllu Austurlandi heimsóttu sýninguna ásamt kennurum sínum.