Skip to main content

Fyrri sýningar

Sauðkind og safnkostur

Íslenska sauðkindin þykir harðgerð enda hefur hún aðlagað sig vel að erfiðum aðstæðum hér á landi. Landsmenn hafa í gegnum tíðina lært að nýta hana til hins ýtrasta og spilaði hún stórt hlutverk í því að halda lífi í þjóðinni. Ull og skinn voru notuð í klæði og skófatnað og úr hornum smíðuðu menn spæni og hagldir. Upp á völur og leggi var undinn þráður og bein og horn voru leikföng barna. Tóbakspungar, buddur fyrir aura og annað smádót var unnið úr hrútspungum. Á sýningunni Saukind og safnkostur gefur að líta muni úr safnkosti Minjasafns Austurlands sem hægt væri tengja við sauðkindina á einn eða annan hátt. 

Kassar

Kassar hafa yfir sér leyndardómsfullan blæ. Hlutverk þeirra er breytilegt og hægt er að nýta þá undir alls kyns gull og gersemar eða dót og drasl. Sumir eru sannkölluð listaverk á meðan aðrir eru þjóna frekar hagnýtu hlutverki en fagurfræðilegu. Ef leitarorðið kassi er slegið inn í skráningarkerfi Minjasafns Austurlands koma upp 175 færslur. Á sýningunni Kassar, sem nú stendur yfir í sýningarskápnum á þriðju hæð Safnahússins, má sjá úrval af þeim kössum sem safnið hefur að geyma og enn fleiri er hægt að sjá hér. 

Grýla hét tröllkerling leið og ljót

Á aðventunni 2022 var opnuð sýning í sýningarsal Minjasafnsins sem tileinkuð var Grýlu. Auk fróðleiks um Grýlu og hennar hyski reis gríðarmikill Grýluhellir á sýningunni þar sem gestir gátu farið inn og virt fyrir sér hýbýli hennar. Þar gat meðal annars að líta fleti Grýlu, pottinn hennar stóra og föt að ógleymdum hrísvendinum sem hún notar til að flengja jólasveinana. Þá kom í ljós að Grýla er bókelsk og les bæði Dalalíf Guðrúnar frá Lundi og Harry Potter. Sýningin var hluti af jóladagskrá Minjasafnsins og var einnig nýtt í heimsóknum skólahópa á safnið en í kringum 230 nemendur komu í heimsókn á safnið í skipulögðum heimsóknum í desember 2023. 

Rýnt í álfkonudúkinn

Á sýningunni Rýnt í álfkonudúkinn má sjá afrakstur vinnu grunnskólanemenda á Austurlandi sem fram fór í tengslum við BRAS 2023. Þar fengu nemendu fræðslu um álfkonudúkinn frá Bustarfelli og unnu í kjölfarið skapandi verkefni innblásið af dúknum. 

Markmið verkefnisins var að kynna merkan grip af Austurlandi fyrir grunnskólanemendum í gegnum fræðslu og skapandi vinnu. Minjasafnið bauð upp á fræðslu um dúkinn, sem varðveittur er á Þjóðminjasafni Íslands, og þjóðsöguna á bak við hann en sagan segir að húsfreyjan á Bustarfelli hafi fengið hann í gjöf frá álfum. Í kjölfarið heimsótti myndlistarkonan Anna Andrea Winther skólana með smiðju þar sem nemendur fegnu að spreyta sig á útsaumi í anda dúksins með því að þrykkja laufblaði á bómullardúk og sauma það svo út eftir eigin höfði. Anna saumaði síðan öll laufblöðin saman þannig að úr varð nýr álfkonudúkur sem er sannkallað samstarfsverkefni barna á Austurlandi. Nemendur veltu jafnframt fyrir sér þjóðsöguforminu með því að rifja upp eða semja eigin þjóðsögu.

Nemendur úr Brúarásskóla, Djúpavogsskóla, Vopnafjarðarskóla og Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla tóku þátt í verkefninu sem heppnaðist afar vel og fékk frábærar viðtökur. Afraksturinn er nú til sýnis í Minjasafninu en þar má bæði skoða útsaum barnanna og lesa þjóðsögurnar sem þau sömdu eða endursögðu. Sýningin stendur yfir til 18. október.

Verkefnið var hluti af BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi og var styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands, Safnasjóði, Menningarsjóði Múlaþings og Höldur-Bílaleigu Akureyrar.

Hreindýradraugur #3

Sumarsýning Minjasafns Austurlands var opnuð 17. júní 2022. Þar sýndi franski sjónlistamaðurinn François Lelong skúlptúra og málverk sem innblásin voru af hreindýrum og náttúru Austurlands.

François hefur í meira en áratug unnið með landslag og innan þess. Hann velur staði fyrir inngrip og finnur þar efni sem hann notar í skúlptúra og innsetningar sem eru innblásin af menningarlegum, félagslegum og sögulegum einkennum hvers staðar fyrir sig. Þannig vinnur François með tengingarnar milli manna, dýra og umhverfis og á sýningu hans í Minjasafni Austurlands birtist þessi áhugi í tilvist hreindýranna og samspili þeirra við mannfólkið. Efniviðinn sækir hann í náttúruna og vinnur m.a. með hreindýrshorn, tré og jurtir. Sýningin fléttast saman við aðra fasta sýningu safnsins, Hreindýrin á Austurlandi, þannig að til verður skemmtilegt samspil milli listar og menningararfs. 

Sýningin var þriðja sýning François sem innblásin var af hreindýrum en áður hafði hann unnið að list sinni og sett upp sýningar á Húsavík og á Skriðuklaustri. François dvaldi á Fljótsdalshéraði í aðdraganda sýningarinnar á Minjasafni Austurlands og vann að nýjum skúlptúr sem bætist við fyrri verk hans tengd hreindýrunum. 

Sýningin hlaut styrki úr Safnasjóði, Uppbyggingarsjóði Austurlands og frá Múlaþingi. 

Vefur listamannsins. 

Skessur sem éta karla

Sumarsýning Minjasafnsins Austurlands, Skessur sem éta karla, verður opnuð á þjóðhátíðardaginn. 

Sýningin er afrakstur rannsókna Dagrúnar Óskar Jónsdóttir þjóðfræðings sem hefur rannsakað mannát í íslenskum þjóðsögum. Á sýningunni vinnur Dagrún með hvernig mannátið birtist í þjóðsögunum og hvað það getur sagt okkur um samfélagið sem sögurnar tilheyra. Í rannsóknum sínum fléttar hún saman þjóðsögum og nútíma hugmyndum um feminisma og bregður þannig ljósi á nýjar hliðar bæði á þjóðsögunum og ójafnrétti kynjanna. "Þjóðsagnir endurspegla á vissan hátt hugmyndaheim og heimsmynd þeirra sem þeim safna og þær skrifað. Tröllskessur ráða ríkjum í tröllaheiminum og í sögum af mannáti eru það nánast alltaf tröllskessur sem éta mennska karlmenn. Það voru aðallega karlar sem söfnuðu, skrifuðu og gáfu út þjóðsagnaefni og hafa fræðimenn velt því fyrir sér hvort þessi birtingarmynd kvenna sem éta karla geti endurspeglað á einhvern hátt ótta karla við að missa völd sín yfir konunum" segir Dagrún. Niðurstöðum sínum miðlar Dagrún á veggspjöldum sem eru fagurlega myndskreytt með vatnslitamyndum Sunnevu Guðrúnar Þórðardóttur. 

Sýningin hefur verið sett upp víða um land, m.a. á Ísafirði, Hólmavík, Akureyri og Reykjavík. Hún verður á neðstu hæð Safnahússins og mun standa til haustsins. Hún verður sem fyrr segir opnuð á þjóðhátíðardaginn en þann dag verður opið hús hjá Minjasafninu frá kl. 10:00 - 18:00 og frítt inn á allar sýningar. 

Sumar

Á sumardaginn fyrsta var opnuð ný örsýning í sýningarskápnum á efstu hæð safnahússins. Sú ber einfaldlega nafnið sumar og er, eins og nafnið gefur til kynna, tileinkuð hinu íslenska sumri. Á sýningunni eru margvíslegir gripir úr safnkosti safnsins sem allir  tengjast sumrinu á einhvern hátt auk þess sem þar er hægt að skoða ýmsar sumarlegar ljósmyndir frá Ljósmyndasafni Austurlands.. 

Eyðibýli á heimaslóðum.

Ljósmyndasýningin "Eyðibýli á heimaslóðum" var lokaverkefni Önnu Birnu Jakobsdóttur (f. 2001) frá Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 2020. Eins og nafn sýningarinnar gefur til kynna var um að ræða ljósmyndir af nokkrum völdum eyðibýlum á Austurlandi, en samtals tók Anna Birna fyrir níu eyðibýli víðsvegar um landshlutann. 

Óskadraumur eiginkonunnar.

Á örsýningunni "Óskadraumur eiginkonunnar" sem stóð yfir haustið 2020 voru til sýnis margvíslegir gripir úr safnkosti safnsins sem allir tengdust snyrtingu og útliti. Þar mátti meðal annars sjá forláta snyrtiborð, háfjallasól og Ronson hárþurrkur. Nafn sýningarinnar var einmitt fengið úr auglýsingu fyrir fyrrnefndar háþurrkur þar sem þeim var lýst á þennan háfleyga hátt. Í sumum tilfellum eru sambærilegir hlutir og sáust á sýningunni notaðir enn í dag á meðan tímans tönn hefur ekki farið eins mildum höndum um aðra.