Skip to main content

Starfsstefna

Minjasafn Austurlands setur sér starfsstefnu á fjögurra ára fresti þar sem áherslur starfseminnar næstu árin eru tíundaðar og sett fram markmið sem ætlunin er að ná á tímabilinu.

Starfsstefna Minjasafns Austurlands 2025-2029

1. Fagmennska, mannauður, húsnæði

Markmið:
Að tryggja faglega og ábyrga stjórnun safnsins, efla mannauð og bjóða upp á viðeigandi aðstöðu fyrir starfsfólk og gesti.

Umræða og leiðir að markmiði:

  • Auka samstarf við önnur söfn innan svæðis sem utan, háskóla og rannsóknarstofnanir til að efla faglega þekkingu og menningarstarfsemi á Austurlandi.
  • Áhersla á þjálfun og símenntun starfsfólks í varðveislu menningarminja, fræðslu og sýningargerð auk þess að tryggja viðeigandi vinnuaðstöðu og tækjabúnað.
  • Tryggja að safnið fylgi þeim stefnum sem mótaðar hafa verið af hálfu hins opinbera, lögum, alþjóðlegum siðareglum (ICOM) og öðrum sáttmálum og leiðbeiningum sem gagnlegt er að taka mið af í faglegu starfi.
  • Hafa starfsumhverfi og húsnæði uppfylli faglegar kröfur, sé aðgengilegt og þægilegt fyrir bæði starfsfólk og gesti.
  • Tryggja að safnið hafi viðeigandi aðstöðu til að sinna verkefnum sínum og til að mæta ólíkum hópum gesta.

Mælingar á árangri:

  • Fjöldi samstarfsverkefna við fagaðila.
  • Fjöldi fræðsludaga og námskeiða sem starfsfólk sækir.
  • Stöðumat á ástandi tækjabúnaðar og aðstöðu.
  • Nýr hluti Safnahúss hafi verið tekinn í notkun.
  • Ánægja starfsfólks og gesta með aðstöðu og þjónustu safnsins, t.a.m. með gerð viðhorfskönnunar einu sinni á gildistíma.
  • Fagleg vottun, s.s. eftirlit Safnaráðs, og viðurkenningar sem safnið hefur fengið fyrir starfsemi sína.

Athugasemdir:
Öflugt og hæft starfsfólk er lykillinn að árangri safnsins. Áhersla verður lögð á að halda vel utan um mannauðinn og tryggja starfsumhverfi sem eykur ánægju og skilvirkni.

 

2. Fjármál

Markmið:
Að tryggja sjálfbærni safnsins og stöðugleika í fjármálum og nýta fjármuni á sem skilvirkasta hátt.

Umræða og leiðir að markmiði:

  • Sækja fjárveitingar frá opinberum aðilum, sjóðum og einkaaðilum.
  • Kanna möguleika á sértekjum, t.a.m. í gegnum sölu á varningi sem byggir á safnkosti, sérsniðnum lausnum í menningartengdri ferðaþjónustu og útleigu á rými fyrir minni viðburði (í kjölfar stækkunar).
  • Byggja fjárhagsáætlun á langtímaáherslum sem hámarka sjálfbærni og fjárhagslegt öryggi safnsins.

Mælingar á árangri:

  • Áætlaðar og raunverulegar tekjur safnsins (niðurstöður ársreikninga).
  • Umfang styrkúthlutana til safnsins.
  • Aukning sértekna.

Athugasemdir:
Fjármál safnsins eiga að vera sveigjanleg og styðja við langtímaáætlanir þar sem markmiðið er að tryggja áframhaldandi vöxt og sjálfbærni í starfseminni.

 

3. Safnkostur

Markmið:
Að byggja upp og viðhalda safnkosti sem endurspeglar menningararf svæðisins og gegnir mikilvægu hlutverki í varðveislu menningarminja, sögu og sjálfsmyndar samfélagsins.

Umræða og leiðir að markmiði:

  • Framfylgja söfnunarstefnu safnsins og markvissri söfnun muna með áherslu á svæðisbundinn menningararf.
  • Unnið sé eftir skýrum reglum um varðveislu muna t.a.m. hvað varðar geymslu og forvörslu.
  • Í tengslum við húsnæðisbreytingar verði unnið eftir samþykktri grisjunaráætlun og farið í markvissa og vel ígrundaða grisjun úr safnkosti.
  • Tryggja að safnkostur sé vel skráður í menningarsögulega gagnasafninu Sarpi, varðveittur og aðgengilegur til skoðunar, t.a.m. með sveigjanleika í opnunartíma, nýjum lausnum í miðlun og inngildingu ólíkra þjóðfélagshópa.

Mælingar á árangri:

  • Fjöldi nýrra safngripa sem safnið hefur bætt við safnkost sinn árlega.
  • Ástand geymsla og skipulag (sjá m.a. úttektir Safnaráðs).
  • Umfang grisjunar safnkosts.
  • Staða safnkosts hvað varðar skráningu, varðveislu og frágang.
  • Gestatalningar og -kannanir, fyrirspurnir um safnkost og fjöldi rannsókna.

Athugasemdir:
Það er mikilvægt að safnið varðveiti safnkostinn í samræmi við gildandi reglur og gagnreyndar aðferðir, að safnkosturinn sé aðgengilegur og til vitnis um menningu og sögu Austurlands.

 

4. Sýninga- og viðburðahald

Markmið:
Að bjóða upp á fjölbreyttar og aðlaðandi sýningar og viðburði sem stuðla að miðlun og skilningi á menningararfinum.

Umræða og leiðir að markmiði:

  • Unnin verði viðburðaáætlun til þriggja ára sem nái utan um allar sýningar sem tengjast menningararfi og sögu svæðisins, viðburði, fræðslustarf og aðrar uppákomur sem gestum standa til boða.
  • Skipuleggja viðburði og fræðslu sem eru til þess fallnir að efla þátttöku almennings og vera inngildandi.
  • Þróa nýjar leiðir til miðlunar safnkostsins, s.s. stafrænar, með það að markmiði að auðvelda aðgengi og ná til breiðari hóps gesta.
  • Skapandi leiðir við kynningu á því sem safnið hefur upp á að bjóða, m.a. með samstarfi við ferðaþjónustuaðila.

Mælingar á árangri:

  • Gildandi viðburðaáætlun.
  • Fjöldi sýninga og viðburða sem haldnir eru árlega.
  • Fjöldi gesta og þátttaka í viðburðum.
  • Ánægja gesta mæld með könnunum eftir sýningar og viðburði.

 

5. Rannsóknir, tengsl, samstarf

Markmið:
Að efla rannsóknir á menningararfinum og styrkja samstarf við höfuðsafn, önnur söfn, safnvísa og menningarstofnanir innan svæðis og utan, sem og erlendis.

Umræða og leiðir að markmiði:

  • Hvetja til og stuðla að rannsóknum sem tengjast safnkosti og safninu, m.a. með því að sækjast eftir samstarfi við vísinda- og listafólk eða aðra áhugasama.
  • Efla samstarf við aðrar menningar- og fræðastofnanir bæði innanlands og utan, t.d. í gegnum fagfélög, ráðstefnur, verkefni og óformlegar heimsóknir.
  • Auka tengsl við samfélagið og bæta þjónustu safnsins með því að hlusta eftir skoðunum, þörfum og óskum heimafólks og gesta.

Mælingar á árangri:

  • Fjöldi rannsókna og verkefna sem safnið tekur þátt í eða styrkir.
  • Rannsóknarverkefni eða samstarfsverkefni sem hafa verið útfærð með öðrum aðilum, innan svæðis sem utan.
  • Ánægja samstarfsaðila og fræðimanna (viðhorfskannanir í lok samstarfs).

Athugasemdir:
Samstarf við aðrar stofnanir er lykilatriði til að auka áhrif safnsins, sérstaklega þegar kemur að rannsóknum og miðlun menningararfs.

 

6. Útgáfa og miðlun

Markmið:
Að miðla menningararfi safnsins á árangursríkan hátt og til breiðs hóps gesta.

Umræða og leiðir að markmiði:

  • Nýta stafræna miðla, vefsíðu og samfélagsmiðla til að ná til breiðari hóps gesta.
  • Þróa efni út frá sýningum, viðburðum og rannsóknum og gera það aðgengilegt fyrir bæði heimamenn og ferðamenn.
  • Vera vakandi fyrir tækifærum til miðlunar sem koma upp í tengslum við atburði og umræðu í samfélaginu.

Mælingar á árangri:

  • Ánægja gesta með miðlun efnis og upplýsingagjöf safnsins.
  • Nýting á miðlum safnsins.
  • Mat á fjölda og gæðum efnis á miðlum safnsins.
  • Fjölbreytni leiða við miðlun.

Athugasemdir:
Aðgengileg og fjölbreytt miðlun á menningararfinum er lykillinn að því að ná til ólíkra þjóðfélags- og aldurshópa og auðvelda tengsl við safnið og það sem það hefur að bjóða.

 

7. Sjálfbærni

Markmið:
Að stuðla að sjálfbærri þróun í öllum þáttum starfseminnar.

Umræða og leiðir að markmiði:

  • Rækta tengsl við nærsamfélagið með því að vera vettvangur til að mæta þörfum þess. Markvisst skal boðið upp á fræðslu um sjálfbærni á öllum sviðum og taka þátt í verkefnum sem stuðla að sjálfbærni og endurvinnslu.
  • Innleiða markmið Grænna skrefa í rekstri safnsins með það fyrir augum að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfseminni og efla umhverfisvitund starfsmanna.
  • Eiga frumkvæði að samstarfi og samvinnu um sýningar, viðburði og uppákomur, t.a.m. með ferðaþjónustuaðilum á svæðinu um þróun menningartengdrar ferðaþjónustu.
  • Safnkostur er sjálfbær. Unnið er eftir markvissri söfnunarstefnu og ábyrgri grisjunarstefnu með það að markmiði að safnkosturinn nýtist.

Mælingar á árangri:

  • Fjöldi viðburða og fræðslu um sjálfbærni.
  • Fjöldi verkefna sem unnin eru m.a. undir merkjum sjálfbærni og safnið tekur þátt í.
  • Orkusparnaður og minnkun kolefnisspors safnsins.
  • Nýting safnkostsins.

Við gerð starfsstefnunnar var litið til Safnastefnu á sviði menningarminja (2017), Menningarstefnu Múlaþings (2024-2030), Sóknaráætlunar Austurlands (2020-2024) og Svæðisskipulags Austurlands (2022-2044).

Samþykkt á fundi stjórnar Minjasafns Austurlands þann ____________ 2025.