Sýningarstefna

Um er að ræða tvo flokka sýninga hjá safninu, grunnsýningu til lengri tíma og skemmri sérsýningar

Grunnsýning

Minjasafn Austurlands var sett upp árið 2006 undir formerkjum þeirrar stefnu sem einkenndi það tímabil í safnastarfi að höfða bæri til upplifunar og ímyndunarafls gesta frekar en hafa sýninguna ofhlaðna með textaupplýsingum og sögulegum fróðleik. Upplifun og eigin ímyndun í bland við að fá grunnupplýsingar um sýningargripina og þann tíma sem þeir koma frá var markmiðið. Grunnsýning safnsins ber yfirskriftina „Sveitin og þorpið“ og inniber þematíska hluta, þar sem ýmsum hliðum sögu sveitasamfélagsins og þéttbýlissamfélagsins og þróun samfélagsgerðarinnar á Austurlandi eru gerð skil. Markmiðið með sýningunni er að hún þjóni bæði því markmið að vera dægradvöl og þekkingarbrunnur.

Stefna Minjasafnsins er að endurskoða og breyta grunnsýningu á 10-15 ára fresti.

Sérsýningar

Í kjallara Safnahússins og öðru opnu rými hússins hefur myndast sú hefð að setja upp sérsýningar til styttri tíma í einu. Hefur þá verið um samstarf safnanna í húsinu að ræða (Minjasafns, Héraðsskjalasafns, Ljósmyndasafns og Bókasafns). Þessari hefð verður haldið við og nýjar sýningar settar upp árlega. Gott samstarf hefur verið við Menntaskólann á Egilsstöðum og hafa nokkrar nemendasýningar verið settar upp í tengslum við verkefnavinnu nemenda. Stefna safnsins er að halda þessu samstarfi áfram í samvinnu við kennara skólans. Sýningar í þágu safnfræðslu – Mikilvægt er að hafa á takteinum yfir skólaárið smásýningar til að þjóna skólahópum, sem sækja safnið og vilja fá fræðslu um einhver tiltekin efni, t.d. þorrann og þorramat, jólahald fyrr á tímum, vorverk, leikföng barna, skólahald, o.s.frv. Stefna safnsins er að þróa og styrkja þennan þátt í starfinu í samvinnu við skóla á safnsvæðinu. Lifandi starfsemi/viðburðir – Lifandi starfsemi, þ.e. uppákomur ýmiskonar sem varpa ljósi á sögu Austurlands er hluti af sýningarstarfseminni. Mikilvægt er að hafa ætíð í huga nýjar leiðir til að kynna safnið og hlutverk þess fyrir safngestum. Leiðsögn um sýningar: Hluti af sýningarstefnu Minjasafnsins er að bjóða upp á leiðsögn safnvarða um sýningar safnsins, og lagar leiðsögnin sig að gestum safnsins, þ.e. hvort um er að ræða heimamenn eða aðkomumenn, Íslendinga eða útlendinga, vinnustaðahópa eða nemendur skóla, og þá eftir aldri nemenda, þ.e. hvort þeir eru börn eða unglingar. Útgáfa: Sýningahaldi safnsins fylgir að gefið er út ýmiskonar efni til kynningar sýningunni; Kynningarbæklingur, fræðsluefni tengt sýningunni og niðurstöður rannsókna á vegum safnsins, eins og við á hverju sinni. Stefnan er að halda kostnaði við útgáfu í lágmarki, bæði fyrir safnið og gesti safnsins og hafa í því augnamiði eins mikinn ókeypis aðgang að útgefnu efni og kostur er. Útgefið efni í tengslum við sýningar sem gert er með sölu þess í huga er haft í boði til sölu í safninu, svo gestir geti keypt slíkt efni ef vilji stendur til. Margmiðlun sem sýningaraðferð: Markið Minjasafnsins er að móta sér markvissrar stefnu í nýtingu margmiðlunar í sýningarhaldi og nýta þá leið í sýningahaldi safnsins. Möguleikarnir eru ótalmargir í því, bæði til að opna nýjar gáttir að safnkosti Minjasafnsins en líka til annarra safna í landinu, og út í heim ef því er að skipta.

Aðgengi: Við mótun sýningarstefnu mun safnið hafa samtímakröfur um aðgengi að leiðarljósi, bæði hvað varðar hversu greiðlega gestir með misjafnar þarfir geta komist að og um sýningarrými safnsins og annað rými, og ber þar sérstaklega að huga að hreyfihömluðum og fötluðum, eðli málsins samkvæmt. Safnahúsið er ekki stórt en stefnan er engu að síður að bæta þjónustu við gesti safnsins með því að hafa uppi merkingar innanhúss og skipulagsmynd af safninu, þar sem merkt er inn staðsetning mismunandi sýninga, snyrtingar, fatageymsla og annað sem við á. En stefnan er líka að miða aðgengi að húsakynnum og munum og efniviði sýninga að þörfum ólíkra hópa, undir formerkjum „universal design“ (alheimshönnun) en sú hugmyndafræði gengur út á að allir hafi jafna möguleika á að nýta sér þjónustu safnsins til dægradvalar og þekkingaröflunar (burtséð frá kyni, aldri, þjóðerni, hreyfigetu, menntun, o.s.frv.)

Samstarf: Viðhalda skal og efla samstarf safna, setra, safnvísa, stofnana og einstaklinga á Austurlandi á sviði sýningahalds og viðburða. Einnig er stefnt að samstarfi á landsvísu við söfn, í formi þess að fá gripi til láns á sýningar. Í því efni verður einnig horft út fyrir landssteinana þegar efnahagur safnsins leyfir.