Skip to main content

Yfirstandandi sérsýningar

Landnámskonan

Sumarsýning Minjasafns Austurlans árið 2024 ber yfirskriftina Landnámskonan. Tvær ríkulega búnar landnámskonur skipa heiðurssess á sýningunni, annars vegar höfðingjakonan sem hvíldi í einu kumlinu sem grafið var upp í Firði á Seyðisfirði árið 2021 og hins vegar fjallkonan dularfulla sem fannst í hellisskúta á Vestdalsheiði upp af Seyðisfirði árið 2004. Bæði kumlin í Firði og líkamsleifar fjallkonunnar eru frá því um 950 og því ljóst að hinar látnu hafa verið uppi á sama tíma. Á sýningunni eru niðurstöður rannsókna á þessum fornleifafundum nýttar til að beina sjónum að konum á þessum tíma, lífi þeirra og störfum.

Sýningin er samstarfsverkefni Minjasafns Austurlands, Antikva, Rannsóknarseturs HÍ á Austurlandi og Þjóðminjasafns Íslands. Sýningar höfundur er Rúna K. Tetzschner en auk hennar voru í sýningarnefnd þær Ragnheiður Traustadóttir, Rannveig Þórhallsdóttir og Elsa Guðný Björgvinsdóttir. Um hönnun og uppsetningu sá Hanna Chriestel Sigurkarlsdóttir og grafísk hönnun var í höndum Ingva Arnar Þorsteinssonar.

Sýningin er auk þess hluti af sýningaröð þriggja safna á Austurlandi sem ber yfirskriftina Konur / Women. Auk Minjasafnsins Austurlands beina Tækniminjasafn Austurland og Héraðsskjalasafn Austfirðinga sjónum sínum að konum á sumarsýningum sínum. Á sýningu Tækniminjasafnsins er dregin upp mynd af störfum kvenna á Seyðisfirði um aldamótin 1900 með áherslu á reynsluheim þeirra og framlag til atvinnulífsins; á Héraðsskjalasafninu verður sögð saga Margrétar Sigfúsdóttur, 20. aldar verkakonu, kennara og skálds í Fljótsdal.

Gripir Guðmundar frá Lundi

Nú stendur yfir örsýning tileinkuð Guðmundi Þorsteinssyni (1901-1989) frá Lundi í sýningarskápnum á þriðju hæð Safnahússins. 

Guðmundur var fæddur á Brennistöðum í Eiðaþinghá en kenndi sig við Lund í Lundareykjardal þar sem hann dvaldi um árabil sem ráðsmaður. Hann vann t.d við sýningaruppsetningu og lagfæringu gripa, fyrst um sinn á Þjóðminjasafni Íslands en einnig fékkst hann nokkuð við viðgerðarstörf fyrir Minjasafn Austurlands og Byggðasafn á Höfn í Hornafirði. Hann hafði gríðar mikla þekkingu á hvers kyns fornum hlutum, amboðum og verkfærum sem hann hafði sjálfur alist upp við og nýttist vel í þeirri vinnu.

Eitt af áhugamálum hans var að tálga ýmis húsdýr og villt dýr úr íslenskri náttúru en hann tálgaði úr rekaviði annars vegar oh hinsvegar úr plasti sem rak á fjörur á Melrakkasléttu, þar sem hann bjó lengi. Á sýningunni má sjá fjöldann allan af þessum útskornu dýrum, en einnig ýmis verkfæri sem hann smíðaði sjálfur - sum sérstaklega fyrir Minjasafnið.

Kjarval - Gripirnir úr bókinni

Nú stendur yfir á Sarpi vefsýningin Kjarval - Gripirnir úr bókinni. Þar er hægt að skoða nánar þá gripi sem birtust í bókinni Kjarval: Málarinn sem fór sínar eigin leiðir sem kom út á síðasta ári. 

Í bókinni segir Margrét Tryggvadóttir sögu Jóhannesar Sveinssonar Kjarval, eins ástsælasta listamanns þjóðarinnar, á heillandi og aðgengilegan hátt. Bókina prýðir fjöldi mynda, m.a. af hlutum sem voru í eigu Kjarvals og eru nú varðveittir á Minjasafni Austurland og eru þeir allir til sýnis á vefsýningunni nýju.  

Við hvetjum sýningargesti til að setjast niður við tölvuna með bókina við höndina, skoða hana samhliða sýningunni og reyna að finna alla gripina á síðum bókarinnar. Einnig hafa þrír auka gripir sem ekki eru í bókinni laumað sér með á sýninguna. Getur þú fundið þá?

Minjasafn Austurlands varðveitir mun fleiri gripi úr eigu Kjarvals en þá sem birtust í bókinni. Myndir og upplýsingar um þá eru einnig aðgengilegar á Sarpi, sjá hér.