Yfirstandandi sérsýningar

Eyðibýli á heimaslóðum.

Eyðibýli á heimaslóðum.

Ljósmyndasýningin "Eyðibýli á heimaslóðum" er nú til sýnis í Safnahúsinu. Sýningin teygir sig á milli hæða í opnu rými hússins en hún er lokaverkefni Önnu Birnu Jakobsdóttur (f. 2001) frá Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 2020. Eins og nafn sýningarinnar gefur til kynna er um að ræða ljósmyndir af nokkrum völdum eyðibýlum á Austurlandi, en samtals tekur Anna Birna fyrir níu eyðibýli víðsvegar um landshlutann og er hægt er að lesa stutta lýsingu á hverju þeirra og sjá á korti hvar þau eru staðsett. Við hvetjum alla sem áhuga hafa að kíkja við og sökkva sér í fortíðina með þessum flottu myndum.

Sýninguna er hægt að skoða á opnunartíma Safnahússins, alla virka daga frá 9-19.


Vetur

Vetur

Nú þegar vetur konungur ræður ríkjum með tilheyrandi frosti og snjó er vel við hæfi að huga að íþróttum og tómstundum sem tengjast vetrinum. Á örsýningunni Vetur, sem nú stendur yfir á efstu hæð Safnahússins, eru til sýnis ýmsir gripir úr safnkosti safnsins sem tengjast vetrinum og vetraríþróttum ásamt ljósmyndum frá Ljósmyndasafni Austurlands sem sýna austfirskar vetraríþróttir í gegnum tíðina. 


Fleyg orð - Flugdrekabók

Fleyg orð - Flugdrekabók

Sýningin Fleyg orð - Flugdrekabók svífur nú um loftin í anddyrinu á miðhæð Safnahússins. Á sýningunni eru sjö verk eftir listamanninn Guy Stewart sem hvert og eitt er tileinkað fornu bókmenntaverki. 

Sýningin er nokkurs konar óður til bókarinnar og bókmenningar, íhuguls lesturs og frelsis ímyndunaraflsins. Listamaðurinn beinir sjónum sínum að þeim áhrifum sem nýir miðlar eins og internetið hafa á hugsanagang okkar og hvernig við umgöngumst bækur í dag. Niðurstaðan er að bækur séu eins og flugdrekar. Á meðan internetið er alltumlykjandi er bókin hlutur sem við tökum okkur í hendur á ákveðnum tímum við ákveðnar aðstæður, rétt eins og flugdrekar sem aðeins er hægt að fljúga í vindi.

Guy Stewart hefur unnið sem leikari, grunnskólakennari og hönnuður. Hann er fæddur og uppalinn í Kanada en hann hefur búið á Íslandi frá árinu 1994.

Sýningin er sett upp í Safnahúsinu á Egilsstöðum í samvinnu við Bókasafn Héraðsbúa og Héraðsskjalasafn Austfirðinga og er styrkt af Fljótsdalshéraði.

Flugdrekabókin hefur verið sett upp á bókasöfnum bæði hér á landi og erlendis. Meðal annars á Amtsbókasafninu á Akureyri, Borgarbókasafni og Íslenska bókasafninu í Háskólanum í Manitoba.


Kjarval - Gripirnir úr bókinni

Kjarval - Gripirnir úr bókinni

Nú stendur yfir á Sarpi vefsýningin Kjarval - Gripirnir úr bókinni. Þar er hægt að skoða nánar þá gripi sem birtust í bókinni Kjarval: Málarinn sem fór sínar eigin leiðir sem kom út á síðasta ári. 

Í bókinni segir Margrét Tryggvadóttir sögu Jóhannesar Sveinssonar Kjarval, eins ástsælasta listamanns þjóðarinnar, á heillandi og aðgengilegan hátt. Bókina prýðir fjöldi mynda, m.a. af hlutum sem voru í eigu Kjarvals og eru nú varðveittir á Minjasafni Austurland og eru þeir allir til sýnis á vefsýningunni nýju.  

Við hvetjum sýningargesti til að setjast niður við tölvuna með bókina við höndina, skoða hana samhliða sýningunni og reyna að finna alla gripina á síðum bókarinnar. Einnig hafa þrír auka gripir sem ekki eru í bókinni laumað sér með á sýninguna. Getur þú fundið þá?

Minjasafn Austurlands varðveitir mun fleiri gripi úr eigu Kjarvals en þá sem birtust í bókinni. Myndir og upplýsingar um þá eru einnig aðgengilegar á Sarpi, sjá hér.