Yfirstandandi sérsýningar

Ferðalög fyrr á tímum
Sumarsýningin Ferðalög fyrr á tímum var opnuð 17. júní síðastliðinn í Krubbunni, sýningarrými í sýningarsal Minjasafnsins.
Á sýningunni er að finna framsetningu muna sem skapa sviðsmynd tjaldferðalags í íslenskri náttúru fyrr á tímum. Í dag þykja okkur ferðalög sjálfsagður hluti af nútímalífstíl en það er í raun er ekki langt síðan að þau voru aðallega iðkuð í þeim tilangi að komast á milli staða af praktískum ástæðum. Lítill frítími og lélagar samgöngur höfðu þar megin áhrif. Þó eru til einstaka heimildir um bæði Íslendinga og útlendinga sem nutu þess að ferðast um íslenska náttúru hvort sem það voru lengri eða styttri ferðir í nærumhverfi og eru dæmi um slíkar heimildir dregin fram á sýningunni. Sýningin stendur í allt sumar.
Sýningin er styrkt af menningarsjóði Múlaþings og ljósmyndir á veggspjöldum eru fengnar að láni hjá Héraðsskjalasafni Austfirðinga.

Spengja, stoppa, staga, stykkja
Sýningin Spengja, stoppa, staga, stykkja var sett upp í tilefni af alþjóðlega safnadeginum 2023. Á hverju ári síðan 2020 hefur Alþjóðlegi safnadagurinn varpað ljósi á valin heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og að þessu sinni var lögð áhersla á markmiðin heilsa og vellíðan, aðgerðir í loftslagsmálum og líf á landi. Yfirskrift dagsins var Söfn, sjálfbærni, vellíðan og nýttu söfnin margvíslegar leiðir til að sýna fram á hvernig söfn geta stuðlað að sjálfbærni og vellíðan í þeirra samfélögum.
Sýning Minjasafns Austurlands, Stoppa, staga, stykkja voru sýndir gripir sem allir eiga það sameiginlegt að bera vitni um nýtni og hagleik fyrri kynslóða. Um er að ræða hluti úr safnkosti safnsins sem voru annaðhvort bættir eftir mikla notkun eða þeim breytt þannig að þeir öðluðust nýtt hlutverk. Sýningin er vitnisburður um ótrúlega nýtni og hugvitsemi fólks hér áður fyrr þegar fólk átti færri hluti og notuðu þá til hins ýtrasta, nokkuð sem nútíma fólk mætti oft taka sér til fyrirmyndar.
Í tengslum við safnadaginn og sýninguna var jafnframt boðið upp á fataviðgerðarsmiðju í samstarfi við Soroptimistaklúbb Austurlands en þar gafst almenningi kostur á að fá aðstoð við að gera við föt sem þörfnuðust lagfæringar.

Kjarval - Gripirnir úr bókinni
Nú stendur yfir á Sarpi vefsýningin Kjarval - Gripirnir úr bókinni. Þar er hægt að skoða nánar þá gripi sem birtust í bókinni Kjarval: Málarinn sem fór sínar eigin leiðir sem kom út á síðasta ári.
Í bókinni segir Margrét Tryggvadóttir sögu Jóhannesar Sveinssonar Kjarval, eins ástsælasta listamanns þjóðarinnar, á heillandi og aðgengilegan hátt. Bókina prýðir fjöldi mynda, m.a. af hlutum sem voru í eigu Kjarvals og eru nú varðveittir á Minjasafni Austurland og eru þeir allir til sýnis á vefsýningunni nýju.
Við hvetjum sýningargesti til að setjast niður við tölvuna með bókina við höndina, skoða hana samhliða sýningunni og reyna að finna alla gripina á síðum bókarinnar. Einnig hafa þrír auka gripir sem ekki eru í bókinni laumað sér með á sýninguna. Getur þú fundið þá?
Minjasafn Austurlands varðveitir mun fleiri gripi úr eigu Kjarvals en þá sem birtust í bókinni. Myndir og upplýsingar um þá eru einnig aðgengilegar á Sarpi, sjá hér.