Skip to main content

Aðgengi

Minjasafn Austurlands
Heimilsfang: Laufskógar 1, Egilsstöðum
Sími: 471-1412
Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Aðgengi að húsi:
Minjasafn Austurlands er til húsa í Safnahúsinu sem einnig hýsir Bókasafn Héraðsbúa og Héraðsskjalasafn Austfirðinga. Sýningarsalur safnsins er á miðhæð hússins og hægt er að komast inn á þá hæð beint af götunni frá Laufskógum. Við Laufskóga eru bílastæði hægra megin við húsið og bílastæði fyrir fatlaða er á sama stað, næst húsinu. Um 35 metrar eru frá bílastæðinu að húsinu. Þá er möguleiki að keyra bíl alveg upp að útidyrum hússins ef þörf er á því. Útidyr hússins opnast sjálfkrafa þegar komið er að þeim að utan en innan frá eru dyrnar opnaðar með því að ýta á takka á veggnum vinstra megin við hurðina. 3 cm þröskuldur er á útidyrum. 

Salerni:
Eitt salerni er á sömu hæð og sýningarsalur Minjasafnsins. Þar er hjólastólaaðgengi og þar er einnig skiptiborð fyrir börn. Fleiri salerni eru á neðstu hæð hússins.

Aðgengi á milli hæða:
Lyfta er upp á efstu hæð hússins þar sem Bókasafn Héraðsbúa er til húsa. Á neðstu hæð hússins er Héraðsskjalasafn Austfirðinga. Ekki er lyfta á milli neðstu og miðhæðar hússins en hægt er að komast inn á neðstu hæðina af götunni frá Tjarnarbraut. Við þann inngang eru einnig hægt að leggja bílum. Á neðstu hæð hússins eru fjögur salerni, þar af eitt sérmerkt fyrir fatlaða.  

Sýningarsalur:
Í sýningarsal safnsins eru tvær sýningar. Vinstra megin í salnum (þegar gengið er inn í hann) er sýningin Sjálfbær eining og hægra megin er sýningin Hreindýrin á Austurlandi. Ágætt hjólastólaaðgengi er um sýningarnar. Sýningartextar á sýningunum eru á íslensku og ensku. Á sýningunni Sjálfbær eining er baðstofa sem heimilt er að fara inn í en upp í hana eru tvö þrep. Stóla er að finna hér og þar í sýningarsalnum þar sem hægt er að tylla sér. Á sýningunni Hreindýrin á Austurlandi er lítill bíósalur með sætum. Þar eru sýndar þrjár myndir, ein stutt teiknimynd og tvær heimildamyndir. Einu hljóðin á sýningunni berast frá kvikmyndunum, það eru tónlist, tal og umhverfishljóð. 

Starfsfólk safnsins er boðið og búið að aðstoða gesti til að gera heimsóknina sem ánægjulegasta. Ekki hika við að hafa samband ef einhverjar spurningar eða vangaveltur vakna. 

Verið velkomin í heimsókn.