Skip to main content

Skráning safnskosts

Skráningarvinna er stór hluti af vinnu safnvarða Minjasafnsins enda er góð skráning undirstaða alls safnastarfs. Í mörgum tilfellum felst varðveislugildi gripanna fyrst og fremst í sögu þeirra og því er afar mikilvægt að allar upplýsingar um þá séu réttar og vel varðveittar.

Þegar munir berast Minjasafninu eru þeir skráðir á eins nákvæman hátt og kostur er. Skráðar eru upplýsingar um útlit gripanna, efni þeirra, stærð, ástand, notkun og sögu þeirra auk upplýsinga um eigendur og gefendur.

Frá því að Minjasafn Austurlands var stofnað árið 1943 hafa margvíslegar aðferðir verið notaðar við skráningu safnkostsins. Með aukinni tækni hefur skráning orðið skilvirkari og upplýsingarnar aðgengilegri.

Safnverðir Minjasafnsins vinna nú að viðamiklu verkefni sem fellst í að mynda allan safnkost safnsins og skrá hann í menningarsögulega gagnasafnið Sarp. Farið er yfir allar eldri skráningar, þær samræmdar og fyllt í eyður áður en þær eru settar inn í gagnasafnið.

Sarpur er tvískiptur, annars vegar er um að ræða innri vef sem er vinnutæki safnvarða og hins vegar ytri vef þar sem almenningi gefst kostur á að skoða þá muni sem skráðir hafa verið. Nú þegar eru upplýsingar um stóran huta safnkosts Minjasafnsins aðgengilegar á ytri vef Sarps en þó er enn langt í land.

Við þyggjum með þökkum allar ábendingar og frekari upplýsingar um munina sem skráðir hafa verið.