Skip to main content

Gripur mánaðarins - Maí

Gripur mánaðarins er þessi fallega hálsfesti. Hún má teljast nokkuð óvenjuleg að því leyti að hún er búin til úr mannshári. Í festinni er nefnilega hár systranna Sigurlaugar (1847-1936) og Guðríðar Jónsdætra frá Njarðvík. Þær voru dætur Jóns "fræðimanns" Sigurðssonar (1802-1883) fæddum á Surtsstöðum og Sigþrúðar Sigurðardóttur (1816-1887) frá Njarðvík. Guðríður og Sigurlaug voru giftar feðgum, þeim Stefáni Benediktssyni (1836-1914) og Þorvarði Stefánssyni (1859-1944) frá Borgarfirði eystra. Systurnar fluttu frá Borgarfirði með fjölskyldum sínum til Ameríku á miðjum aldri og bjuggu þar til æviloka. Guðríður lést fyrr og lét þá systir hennar, Sigurlaug, búa til festina úr hári þeirra beggja og bar hún hana þar til hún lést. Ágústa Þorvarðardóttir (líklega dóttir Guðríðar) sendi festina til Íslands að þeim látnum til Sigríðar Eyjólfsdóttur (1921-2008) prestsfrúar á Borgarfirði eystra. Ásta Steingerður Geirsdóttir, dóttir Sigríðar, gaf safninu gripinn. Til gamans má hér sjá mynd af Guðríði og Þorvarði, og hér af Sigurlaugu, Stefáni og fósturdóttur þeirra en myndirnar eru varðveittar á Ljósmyndasafni Austurlands. 

Í Evrópu hefur frá fornu fari þekkst að vinna list- og skrautmuni úr mannshári og á 19. öld varð þar til sérstök fagstétt sem notaðist við þennan efnivið til að gera myndir. Algengt var að á síðari hluta 19. aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu að úr mannshári væri gerðir ýmsir skartgripir, s.s. hálsfestar, eyrnalokkar, hringar, snúrur á vasaúr, nælur og fleira. Að öllum líkindum var þessi festi gerð í Ameríku, en vitað er um að umboð hafi verið á Seyðisfirði fyrir norskt fyrirtæki sem sérhæfði sig í þessari iðju. Í safnkosti Minjasafnsins er að finna þónokkra hluti gerða úr eða skreytta með mannshári, t.d. þennan hring og þessa úrfesti.

Nánari upplýsingar um grip mánaðarins að þessu sinni má finna HÉR.

Ýttu HÉR til að sjá fleiri gripi mánaðarins.