Skip to main content

Gripur mánaðarins - Júní

Gripur mánaðarins er að þessu sinni tengdur póstsögu landsins en það er þessi skemmtilegi póstlúður, gerður úr látúni.

Lúðurinn, sem á vantar ólina, átti Einar Ólason, landpóstur, en lúðrar af þessu tagi voru notaðir til að tilkynna komu póstsins, svo hann þyrfti ekki að koma heim á hvern einasta bæ í sveitinni. Póstferðir á Íslandi, kostaðar af opinberu fé, hófust 1782 - fyrst á Vestfjörðum. Voru þeir menn sem kölluðust landpóstar þekktir menn á sínum tíma vegna þeirra harðinda og erfiðleika sem þeir urðu við að etja á ferðum sínum, þá sérstaklega á veturna. Tæp vöð, sundvötn, jökulhlaup og veglausar heiðar - allt var þetta á leiðum póstanna. 

Einar Ólason var fæddur að Útnyrðingsstöðum á Völlum 1. nóvember 1844. Hann hóf póstferðir sínar árið 1882 frá Eskifirði til Bjarnarness eða Borga í Austur-Skaftafellssýslu. Hann sinnti póstferðum á þessari leið til ársins 1894, en lét þá af störfum vegna óskemmtilegs atviks. Það var þannig að úr pósti milli Prestbakka á Síðu og Eskifjarðar hurfu peningar. Á þessari leið voru þá póstar þeir Gísli Gíslason frá Rauðabergi og Einar Ólason. Voru þeir báðir teknir til yfirheyrslu en ekkert kom út úr þeim, en málarekstur þessi hafði það í för með sér að Einar hætti póstferðum, og tók við þeim Pétur Sigurðsson á Högnastöðum í Reyðarfirði. Peningar héldu hinsvegar áfram að hverfa og tóku böndin þá að berast að Bjarna Þórarinssyni, prófasti og póstafgreiðslumanni á Prestbakka á Síðu, og reyndist hann sannur að sök. Að máli þessu loknu var Einari aftur boðin staða sem póstur, en hann taldi sig ekki geta tekið við henni sökum vantrausts þess, er sér hefði verið sýnt. Eftir að hann hætti póstferðum fluttist hann til Borgarfjarðar eystra, fyrst í Hvannstóð en síðar að Hvoli. Þaðan fór hann að Bakkagerði í Borgarfirði og bjó þar í þurrabúð í mörg ár, allt þar til hann flutti til sonar síns, Einars, að Þingmúla í Skriðdal. 

Einar þótti harðsnúinn ferðamaður og bráðduglegur. Hann var hreinn og beinn og stórbrotinn í skapi. Þótti hann jafnvel stundum kappsamur um of í ferðum sínum. Eitt sinn í póstferð, kom Einar að Jökulsá í Lóni ófærri af krapastíflu og íshroða. Töldu allir kunnugir, að áin væri algjörlega ófær. En Einar vildi halda áfram ferð sinni og lagði þegar í ána. Óð hann krapann upp í mitti og braut með hnjám og leggjum ísinn fyrir hestunum og komst þannig yfir um ána. Var hann verulega illa leikinn eftir þetta og bar ör árum saman. 

Einar lést 1. desember 1934 að Hafranesi við Reyðarfjörð, þá níræður að aldri og var jarðsettur að Mýrum. 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins. 

 

Heimild: Söguþættir landpóstanna, 1.-3. bindi.