Skip to main content

Gripur mánaðarins - September

September er genginn í garð, haustið handan við hornið og því ekki úr vegi að endurvekja grip mánaðarins eftir gott sumarfrí.

Það eru margir sem bíða í ofvæni eftir haustinu, en þá er tími uppskerunnar. Fólk flykkist út í móa til að draga björg í bú, ýmist í sveppa- eða berjamó. Þeir hörðustu sitja heilu dagana með tínur og marga dalla en aðrir láta duga að tína jafnóðum upp í sig. Lítið mál er að skjótast í næstu búð, ef manni skyldi detta í hug að hendast snöggvast í berjamó, og kaupa berjatínur fyrir alla í fjölskyldunni. Það hefur auðvitað ekki alltaf verið svo auðvelt en hlutur septembermánaðar er einmitt gott dæmi um sjálfbæra hugsun fyrri kynslóða og hvernig hlutum af heimilinu var gefið framhaldslíf. Þessi glæsilega berjatína er algjörlega heimasmíðuð úr gamalli pilsnerdós en algengt var að dósir, t.d. niðursuðudósir væru notaðar. Haldið hefur verið tinað við, sem og tindarnir sem grípa berin á lynginu. Neðst á dósinni hefur léreftspoki verið bundinn vð. Berjatínan var gefin á safnið af Sigrúnu Jónsdóttur (f.03.11.1934, d.24.08.2000), húsfreyju á Hafrafelli 1, Fellum. 

Nánari upplýsingar um grip mánaðarins á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.

Til gamans má geta að aðra heimasmíðaða berjatínu, smíðaða úr niðursuðudós, má finna á sýningunni Sjálfbær eining á Minjasafninu.