Skip to main content

Gripur mánaðarins - Október

Þá er októbermánuður runninn upp með öllum sínum sjarma og fallegu litum.

Dagurinn verður þó sífellt styttri. Við erum auðvitað löngu orðin vön því ferli og leitum yfirleitt allskonar leiða til að lýsa upp mesta skammdegið, t.d. með að kveikja á kertum og fallegum lömpum. Í vor bættist skemmtilegur hlutur við safnkost Minjasafnsins en hann nýttist einstaklega vel þeim sem ekki voru tilbúnir að segja skilið við sólina í svartasta skammdeginu. Hann átti reyndar líka að hafa gríðarlega góð áhrif á húð og andlega heilsu, en rannsóknir síðari ára hafa reyndar sýnt fram á að mikil notkun á hlutnum geti haft alvarlegar afleiðingar. Við erum auðvitað að tala um háfjallasól en sólin sú var verulega vinsæl á íslenskum heimilum í marga áratugi. 

 Í auglýsingu frá Raftækjaeinkasölu ríkisins í Læknablaðinu árið 1937 segir svo: "Hver sem tekur sólböð háfjallasólarinnar - Original Hanau - finnur andlegt fjör færast í sig, kemst í gott skap, og verður glaðlyndur. Hjá sjúklingum verða áhrifin sefandi, lífgandi og styrkir líðanina allstaðar í hinum sýkta líkama sem fær nýtt fjör og efldan mótstöðukraft gegn sjúkdómsbölinu."

Til eru sögur af því að háfjallasól hafi verið notuð á börn í grunnskólum hér áður fyrr, þar sem þau sátu fyrir framan hana með logsuðugleraugu til að verja augun. Háfjallasólin sem færð var safninu er af tegundinni Original Jomi og kemur í hvítri tösku með handfangi. Græn gleraugu, sem nota skyldi við notkun, fylgja með. 

Nánari upplýsingar um grip mánaðarins á Sarpi.

Ýttu hér til sjá fleiri gripi mánaðarins.