Skip to main content

Gripur mánaðarins - Nóvember

Gripir mánaðarins nálgast fimmtugsaldurinn en eiga skemmtilega tengingu til dagsins í dag, nánar tiltekið nýsameinaðs sveitarfélags á Austurlandi. 

Í safnkosti Minjasafnsins má nefnilega finna þónokkur stykki af gripum mánaðarins, og eflaust má finna þá á veggjum margra heimila á Austurlandi. Gripirnir eru þessir veggplattar sem framleiddir voru í tilefni 1100 ára Íslandsbyggðar árið 1974. Haldnar voru afmælishátíðir víðsvegar um landið, t.a.m. á Eiðum.  Sérstök þjóðhátíðarnefnd var skipuð og í henni voru aðalmenn Jónas Pétursson (1910-1997), Sigurður Óskar Pálsson (1930-2012) og Þórður Pálsson (1943).

Það var fyrirtækið Glit hf. sem framleiddi veggplattana úr leirmassa fyrir Múlaþing, en samkvæmt skjölum tengdum hátíðinni var hugmyndin að fyrirtækið myndi hanna veggskildi, einn fyrir hvert hérað, á vegum og samkvæmt pöntunum hátíðarnefnda héraða og bæja. Samræmi yrði í stærð og litum plattanna, svo þeir gætu myndað röð handa söfnurum. Þessar einstöku hátíðarnefndir myndu þá taka ákvörðun um teikn eða mynd fyrir skildi viðkomandi héraðs.

Ákveðnar voru tvær myndir fyrir Múlaþing. Annars vegar Dyrfjöllin frá Héraði séð, teiknuð af Steinþóri Eiríkssyni, en hinsvegar dreki – landvættur Austurland, teiknaður af Halldóri Sigurðssyni frá Miðhúsum. Neðst á plöttunum stendur „874 Múlaþing 1974“. Veggskildirnir komu í einfaldri hvítri pappaöskju. Einnig voru pöntuð 7000 barmmerki, hringlaga í 25 eyrings stærð, með mynd af drekanum, útfærð og lituð af teiknistofu Kristínar Þorkelsdóttur í Kópavogi.

Plattarnir voru pantaðir í 2000 eintökum og áttu að kosta 1220 kr/stk. Treyst var á þegnskyldu Austfirðinga að kaupa þessa platta, sem og barmmerkin, en þessir hlutir voru aðaltekjulindin til að standa straum af kostnaði við undirbúning og framkvæmd hátíðinnar.

Nánari upplýsingar um gripina hér og hér. 

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.