Gripur mánaðarins - Febrúar
Nú er tíminn til að stunda vetraríþróttirnar!
Hér fyrir austan kom loksins góður snjóskammtur og þeir sem stunda vetraríþróttir fagna eflaust ákaft. Skíði og sleðar af öllum gerðum dregnir fram og allt nýtt út í ystu æsar þó kuldinn sé mikill þessa dagana. Gripur dagsins tengist vetraríþróttum og er þessi fallegi stýrissleði sem kemur frá Hilmari Hilmarsyni (f. 1955) frá Eskifirði. Í lýsingu gripsins á Sarpi segir gefandi:
"Þessi sleði var keyptur Noregi um 1960. Á þeim árum létu Íslendingar (ekki síst Austfirðingar) smíða fyrir sig fjölda fiskiskipa í Noregi. Þegar skipin voru sótt var tækifærið gjarnan nýtt til innkaupa á einu og öðru sem annað hvort var ekki fáanlegt á Íslandi eða hægt var að fá á lægra verði en hér á landi. Meðal þess sem margir sjómenn og útgerðarmenn festu kaup á í þessum ferðum og fluttu heim með skipunum voru barnaleikföng af ýmsu tagi og sem mörg hver þóttu nýstárleg og taka fram því sem hér hafði áður sést. Allmargir sleðar í líkingu við þennan voru fluttir til Eskifjarðar á þessum tíma. Þessi sleði var (ef ég man rétt) stærri, einkum breiðari, en flestir aðrir.
Á sleðum þessum renndu krakkar sér niður brekkur, einkum niður brattar götur þar sem snjór þjappaðist vel og best var reyndar að renna sér þar sem svell hafði myndast. Mest þótti gaman í löngum brekkum þar sem "bunan" gat orðið sem lengst og sleðarnir náð miklum hraða. Skapaðist þá stundum hætta, einkum ef krakkar renndu sér þvert yfir götur þar sem bílar gátu verið á ferð. Kirkjutungan (á Eskifirði) var vinsæl sleðabraut og ef færi var gott þar runnum við stundum alveg niður á bryggju fyrir neðan afgreiðsluna en ekki man ég eftir neinum alvarlegum óhöppum í þessu sambandi. Þó er, eins og sjá má, dæld í stuðarann á sleðanum. Hún á sér þá skýringu að einhvern tíma hafði verið rekinn staur í miðja götuna á móts við hús Jónatans Helgasonar (Kirkjustíg 1), líklega til að hindra för bíla upp götuna. Er svo ekki að orðlengja það að í einni langreið minni á sleðanum niður brekkuna keyri ég beint á staurinn og hendist af sleðanum. Jónatan var þar nærstaddur og sá þetta og hefur líklega brugðið; að minnsta kosti snaraðist hann inn til sín, sótti stóra sög og sagaði staurinn niður með þeim orðum að hann ætlaði sko ekki að láta börnin stórslasa sig á þessari rammbyggilegu umferðarhindrun og eftir það varð umferðarmerkið "innakstur bannaður" að duga til að stöðva bílstjóra sem hugðust keyra upp götuna." (Hilmar Hilmarsson).
Þá má minna á að í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins stendur yfir örsýning sem ber nafnið "Vetur" þar sem sjá má ýmsa hluti sem tengjast vetrinum og vetraríþróttum.
Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.
Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarsins.