Skip to main content

Gripur mánaðarins - Apríl

Aprílmánuður er runninn upp og sólin sífellt hærra á lofti.

Við erum nýfarin að heyra í okkar yndislegu farfuglum aftur og lundin léttist óneitanlega. Einn af mestu hátíðisdögum Íslendinga í gegnum tíðina er einnig á næsta leyti, Sumardagurinn fyrsti sem í ár ber upp fimmtudaginn 22. apríl. Ýmist þjóðtrú tengist deginum en það átti að boða gott sumar ef sumar og vetur frysi saman aðfaranótt Sumardagsins fyrsta. Í Sögu daganna – hátíðir og merkisdagar (bls. 50, 2. útg., 1977) eftir Árna Björnsson, þjóðháttafræðing segir svo um þennan dag: 

"Hvarvetna var fylgst með því, hvort frost væri aðfaranótt sumardagsins fyrsta, þ.e. hvort saman frysti sumar og vetur. Yfirleitt var það talið góðs viti og jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns". 

Algengt var, og er enn, að gefa sumargjafir og má sjá í gömlum heimildum að þær tíðkuðust að minnsta kosti fjórum öldum áður en jólagjafir komu til sögunnar. Algengt var að fólk gæfi börnum sínum gjafir sem tengdust sumrinu, svo sem veiðidót, tjald, bolta, sápukúlur eða einhverskonar útileikföng. 

Gripir dagsins hafa mögulega einhverntímann verið sumardagsgjafir en það eru þessi fínu krokketsett og eru í því alls 24 gripir - kylfur, boltar og pinnar. Annað settið virðist nokkuð eldra en hitt. Settin koma úr búi Sigurðar Blöndal, skógræktarstjóra, og Guðrúnar Sigurðardóttur á Hallormsstað.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.