Gripur mánaðarins - September
Nú hefur september runnið upp og liðurinn "Gripur mánaðarins" því kominn úr sumarfríi!
Í sumar barst safninu skemmtilegur gripur með mikla sögu, en það er þessi dásamlega handknúna saumavél. Saumavélin er steypt úr stáli, svartmáluð og á miklum flúruðum fæti en hún kemur úr búi Þórunnar Jóhannesdóttur (f. 11.09.1860, d.09.12.1953), húsfreyju í Geitavík á Borgarfirði eystra. Þórunn var fædd að Mörtungu á Síðu og reiddi Jóhannes S. Kjarval fjögurra ára gamlan frá Meðallandi til Borgarfjarðar en foreldrar Þórunnar tóku hann í fóstur til sín í Geitavík. Jóhannes (f. 24.06.1836, d.12.05.1906), faðir Þórunnar, var móðurbróðir Kjarvals. Talið er víst að Þórunn hafi saumað föt á Kjarval á þessa vél. Þórunn gaf Þorbjörgu Jónsdóttur (f. 08.07.1923, d. 21.08.2006) í Geitavík saumavélina og varð hún síðar eftir þar eftir að Þorbjörg fluttist suður. Dóttir Þorbjargar, Guðrún Björnsdóttir (f. 30.08.1949) gaf safninu vélina í sumar sem áætla má að sé frá því fyrir aldamótin 1900.
Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.
Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.