Skip to main content

Gripur mánaðarins - Október

Október er mættur í allri sinni dýrð. Gripur októbermánaðar er ekki af verri endanum og eflaust margir sem kannast við grip af þessu tagi, nema kannski aðeins nýlegri gerð sem algengt var að sjá á heimilinum í kringum 1960-1970. Gripurinn sem hér um ræðir er nefnilega þrívíddarmyndakíkir úr tré ásamt 46 heilum myndum (og fimm brotnum). Gripurinn var einnig stundum nefndur "myndsjá og var notaður til að skoða myndir í þrívídd en þá var myndunum stillt upp á "syllu" fyrir framan sjónglerin og svo var kíkt í gegn.  Myndirnar sem fylgja með eru geymdar í tveimur gömlum vindlakössum en á þeim sést aðallega erlent landslag í svarthvítu. Myndsjár af þessu tagi voru algengar í byrjun 20. aldar, og kemur þessi frá Hallormsstað. Gefendur eru synir Guttorms Pálssonar, skógarvarðar, þeir Hjörleifur Guttormsson (f. 1935) og Gunnar Guttormsson (f. 1935). Upphaflega gæti myndsjáin hafa komið með föður þeirra frá Danmörku þegar hann kom frá skógræktarnámi árið 1908 og minnast synir hans þess að hún hafi ætíð verið geymd í skáp í svonefndri "litlu stofu" á Hallormsstaðabænum. Þegar krakkarnir voru veikir og lágu í bælinu var gripurinn oft dreginn fram til ánægju og yndisauka. 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.