Gripur mánaðarins - Nóvember
Hvort sem þið trúið því eða ekki, þá er kominn nóvember......
....og tími til kominn að hér inn komi nýr gripur mánaðarins. Það er úr mörgu að velja í safnkosti Minjasafnsins en alls eru þar skráðir 12.093 gripir þegar þetta er skrifað og hver og einn gripur með sína sögu. Gripurinn sem valinn var að þessu sinni er nú ekki ýkja stór, en fagur er hann. Hér er nefnilega um að ræða einstaklega fallegt gleraugnahulstur. Svona hulstur eru sjaldséð í dag en þetta er gert úr harðviði og opnast með löm að hluta til að ofan. Skorið er ofan í það lykkjumynstur, mánaðardagur og ártal við lömina: "17. apríl 1901". Á bakhliðinni stendur: "Ljósbjörg Magnúsdóttir", með einföldu skrauti í kring. Eigandi var langamma gefanda, Ljósbjörg Magnúsdóttir (f.08.01.1848), húsfreyja á Freyshólum í Vallahreppi. Guðjón Jónsson, snikkari á Reyðarfirði, hagur bæði á járn og tré, sonur Ljósbjargar smíðaði gleraugnahúsið. Gleraugun fylgja húsinu.
Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.
Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.