Skip to main content

Gripur mánaðarins - Janúar

Nýtt ár gengið í garð, jóladagatalið búið og nýr gripur mánaðarins lítur dagsins ljós!

Nú er kominn tími til að pakka jóladótinu í kassa og henda upp á háaloft. Sumir hverjir umbreyta heimilinu algjörlega fyrir jólin til að koma öllu jóladótinu fyrir, skipta t.d. út gardínum og dúkum. Þar sem jóladúkarnir ættu nú að vera komnir ofan í kassa, er kominn tími til að finna þá dúka sem voru á heimilinu fyrir jól. Vel gæti verið að gripur mánaðarins að þessu sinni hafi einhverntímann þurft að víkja fyrir jóladúk í desember en það er þessi fallegi kommóðudúkur sem kom til safnsins árið 1948 og er því kominn talsvert til ára sinna, en er mikil prýði þrátt fyrir það. Dúkurinn, sem er 46x85 cm stór, er heklaður með rússnesku hekli. Grunnurinn er jurtalitaður brúnn og breiður kantur er allan hringinn. Munstur er heklað í dúkinn, en í miðju er hann prjónaður og munstur þar saumað út með krosssaumi í ýmsum litum. Dúkurinn var gerður af Guðnýju Halldórsdóttur (1878-1953), ráðskonu á Krossanesi við Reyðarfjörð. Guðný var fædd á Haugum í Skriðdal.

Á vef Héraðsskjalasafnsins má sjá mynd (nr. 14) af Guðnýju viðra handavinnu sína en myndin er úr safni Jónasar Jónassonar frá Kolmúla. 

Nánari upplýsingar um grip mánaðarins á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.