Skip to main content

Gripur mánaðarins - Febrúar

Sólin sífellt hærra á lofti og tími fyrir nýjan grip mánaðarins! 

Að þessu sinni tengist gripur mánaðarins leik barna hér áður fyrr. Þessi fallegi leikfangakistill og innihald hans kemur frá Höfða á Völlum og heimasmíðaður að öllu leyti, eitthvað sem var ekki óalgengt að sjá. Kistillinn er úr grófum spýtum og hefur verið blámálaður að utan en málningin talsvert farin að mást af. Innan í kistlinum má svo finna leikföng, útskorin úr tré; tveir hestar, tvö folöld, ein kona og tveir karlar. Þau hafa einnig öll verið máluð blá en sér nú mikið á þeim, líklega vegna þess hversu mikið hefur verið leikið með þau. Kistillinn var gefinn á safnið árið 1990 af Aðalsteini Bjarnasyni (1914-2002) en hann ólst upp hjá systkinunum frá Höfða á Völlum, þeim Eyjólfi, Einari, Jónasi og Hólmfríði Jónsbörnum (fædd á árunum 1878-1885). Systkinin áttu kistilinn er þau bjuggu sem börn í Mjóanesi í Vallahreppi. Ingibjörg Stefánsdóttir (1916-2003), ljósmóðir á Egilsstöðum, afhenti safninu gripinn en hún mundi sjálf eftir að hafa leikið sér að leikföngunum sem barn í kringum 1923-1924. 

Gott dæmi um hvað fólk þurfti að vera sjálfu sér nægt um hina ýmsu hluti, og óhætt er að segja að þeir hlutir verði dýrmætari með tímanum. 

Við viljum vekja athygli á því að ný örsýning, "Uppáhalds gripir", hefur litið dagsins ljós í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins en þar má einmitt finna þennan fallega leikfangakistil ásamt fleiri uppáhaldsmunum úr safnkostinum að mati starfskvenna Minjasafnsins. Við hvetjum gesti og gangandi til að líta við. 

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.