Skip to main content

Gripur mánaðarins - Janúar

Gleðilegt nýtt ár! Þá hefur janúarmánuður tekið við, sem mörgum hverjum finnst vera erfiðasti mánuðurinn á árinu. Það er þó ekkert nýtt, en janúar og febrúar hafa frá fornu fari þótt erfiðir mánuðir vegna kulda og harðinda.

Það er þó óhætt að segja að janúar sé nú á dögum frekar yfirstíganlegur þar sem við flest getum hrósað happi yfir upphituðum híbýlum, nóg af mat og þar fram eftir götunum.

 

Oft getur þó verið erfitt að koma sér aftur í rútínu eftir ljúft jólafrí en það er nú ekkert sem gripur mánaðarins getur ekki lagað! Hann er að þessu sinni þessi glæra og ferkantaða glerflaska sem eitt sinn hefur verið full af lýsi en geymir nú reyndar aðeins gulleitar leifar af þeim dýrlega miði. Á flöskunni, sem í er korktappi, er grænleitur límmiði sem á stendur: „Kaldhreinsað þorskalýsi, Nr. 1. KRON“. Kron stóð fyrir Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis sem var sameinað félag Kaupfélags Reykjavíkur, Pöntunarfélags verkamanna og nokkurra annarra félaga í Hafnarfirði en það starfaði frá árinu 1937 til 1990 og stofnsetti allmargar sölubúðir í Reykjavík og nágrenni. Ekki er vitað hvaðan þessi flaska kemur.

Lýsi er samheiti á fitu sem unnin er úr sjávarfitu. Fyrr á öldum var lýsi notað sem ljósmeti á Íslandi og af því dregur það nafn sitt.  Þá hefur lýsi líka verið notað við sútun á skinnum, sem eldsneyti fyrir vélar eða hráefni í málningu svo fáein dæmi séu tekin. Flestar lýsistegundir eru nánast hrein fita og eru þess vegna sérlega orkuríkar og góðar fyrir heilsuna.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.

Heimildir: "KRON - Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis". Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Af www.skjaladagur.is/2011/005-91.html

og "Hvað er lýsi? Hvernig er það nýtt og hver er aðal uppspretta orkunnar í því?" Svar frá Jóni Ögmundssyni, gæðastjóra hjá Lýsi af www.visindavefurinn.is.