Skip to main content

Gripur mánaðarins - Febrúar

Þó það sé gaman að leika úti í snjónum þá er líka gott að geta leitað inn í mesta kuldanum!

Þá er gott að geta gripið í gott spil, en nóg er til af þeim í safnkosti Minjasafnsins eins og víðar. Eitt af þeim er einmitt gripur mánaðarins og er það þetta flotta fótboltaspil sem er í rauðum tréramma, með masónítspjaldi í botni og grænum plastdúk yfir völlinn. Lokið sjálft er grænt og á því stendur „Football“ og með KRAKPOL í svörtu og hvítu. Á lokinu má einnig sjá mynd af nokkrum fótboltamönnum og einum markmanni sem er að henda sér fyrir boltann. Mörkin í spilinu eru úr hvítu járni og karlarnir eru í rauðum og bláum búningum. Ein stálkúla fylgir spilinu.

Ekki er vitað til fulls síðan hvenær þetta fótboltaspil er, en það er ansi gamalt og kom úr búi Pálínu Þorbjörnsdóttur Waage (1926-2005) verslunarkonu á Seyðisfirði. Pálína rak búðina Verslun E.J. Waage frá 1962 og fram á byrjun 21. aldarinnar, en verslunin sjálf var opnuð árið 1907 af þeim Eyjólfi Jónssyni Waage og Pálínu Guðmundsdóttur Ísfeld. Í versluninni var hægt að fá allt milli himins og jarðar, vefnaðarvöru, skótau, fatnað, tvinna, lopa og þar fram eftir götunum.

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.