Gripur mánaðarins - Mars
Marsmánuður er mættur á svæðið og langþráður öskudagur að renna upp!
Öskudagur er upphafsdagur lönguföstu, miðvikudagurinn í 7. viku fyrir páska. Hann hefur löngum verið mikilvægur dagur í kaþólska kirkjuárinu og er nafn hans dregið af því að þá er sumstaðar ösku dreift yfir höfuð kirkjugesta og jafnvel notaður sérstakur vöndur til þess. Askan átti að hreinsa fólk af syndum þess.
Nafnið öskudagur kemur fyrir í íslenskum handritum frá 14. öld. Þar má sjá að dagurinn gegnir sama hlutverki hér og í öðrum kaþólskum sið í Evrópu, hann er dagur iðrunar fyrir gjörðar syndir. Þótt hátíðleiki öskudagsins hafi minnkað og jafnvel horfið hér á landi við siðbreytinguna hélt fólk áfram að gera sér glaðan dag síðustu dagana fyrir lönguföstu og hér hafa þróast ýmsir siðir kringum bolludag, sprengidag og öskudag. Að hengja öskupoka á fólk á þessum degi virðist hafa verið alíslenskur siður. Eina útlenda dæmið um einhvers konar öskupoka, sem fundist hefur, er frá Danmörku og kemur fyrir hjá sagnfræðingnum Troels-Lund í verki hans Dagligt liv i Norden, en það er í þá veru að menn hafi slegið hvern annan með öskupokum, en ekki hengt þá hver á annan. Í gamla daga var til siðs að konur hengdu poka með ösku á karla en karlar hengdu poka með smásteinum á konurnar.
Elsta heimild um orðið „öskupoki“ er úr orðabók Jóns Ólafssonar úr Grunnavík, líklega frá miðbiki 18.aldar en þar segir:
„Öskupoki, stundum öskuposi: Lítill poki fylltur ösku, sem piltar eða stúlkur hengja, sér til gamans á klæði annarra eða koma öðrum til að bera óvart á einhvern hátt á öskudag, það er að segja miðvikudag í föstuinngang. Sama á við um burð á steinum eða steinvölum. Þessi venja er án efa leifar úr kaþólskum sið.“
Gripur mánaðarins að þessu sinni er því að sjálfsögðu þessi glæsilegi öskupoki, en þeir eru þónokkrir í safnkostinum. Sá sem varð fyrir valinu að þessu sinni kemur úr dánarbúi Jónasar Péturssonar, Lagarfelli í Fellabæ og var gefinn á safnið af Önnu Bryndísi Tryggvadóttur árið 1997. Pokinn er úr hvítu fóðursilki, kappmellaður á hliðum með appelsínugulu bandi. Framan á er bróderuð blá skeifa og ýmis blóm í rauðum og appelsínugulum lit. Efst er band sem hægt er að þrengja opið með þegar búið var að setja eitthvað ofan í pokann.
Til gamans má geta að samkvæmt hjátrúnni á öskudagurinn sér 18 bræður sem þýðir að á eftir honum eiga að koma 18 dagar með eins veðurfar. Ekki eru allir sammála um það hvort það séu 18 næstu dagar eða hvort þeir geti dreifst á lengra tímabil.
Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.
Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.
Stutt kennslumyndband sem sýnir réttu handtökin í öskupokagerð frá Minjasafni Austurlands,í samstarfi við Bókasafn Héraðsbúa og Soroptimistaklúbb Austurlands.
Heimildir: "Af hverju er öskudagurinn haldinn hátíðlegur?" Svar frá Unnari Árnasyni, bókmenntafræðingi, 5.3.2003. Af Vísindavef Háskóla Íslands.