Skip to main content

Gripur mánaðarins - Maí

Nú er tími ferminganna og tengist því gripur mánaðarins honum! Nú kappkosta verslanir við að selja fermingarbörnum hin fullkomnu fermingarföt. Hér áður fyrr voru þó fermingarfötin oftar en ekki heimasaumuð og er það raunin með grip mánaðarins að þessu sinni en það er þessi undurfagri fermingarkjóll sem er úr kremhvítu krepi, með kraga úr hvítu atlassilki. Með honum fylgir hvítur undirkjóll úr lérefti. Fermingarkjóllinn sjálfur er alveg gólfsíður og er saumaður af Kristjönu Guðmundsdóttur (f. 20.06.1901, d. 23.06.1985), móður gefanda sem er Gunnþórunn Hvönn Einarsdóttir (f. 01.04.1934) frá Hvanná á Jökuldal. Hún fermdist árið 1948.

Eflaust hefur kjóllinn fengið að njóta sín í kirkjunni, því ekki var farið að nota fermingarkyrtla af ráði á þeim árum. Það var ekki fyrr en um og eftir 1955 sem þeir fóru að ryðja sér rúms og voru keyptir í hverja kirkjuna á fætur annarri hérlendis. Þeir þóttu gera ferminguna hátíðlegri en ella en ekki síður gerðu þeir að verkum að ekki sást munur á fátækum og ríkum við athöfnina. Safnið geymir einmitt líka nokkra kyrtla frá Þingmúlakirkju í safnkosti sínum. Í tímariti Húsfreyjunnar frá 1. mars 1955 má finna skemmtilega grein um fermingarkyrtla og reynt að gefa leiðbeiningar um t.d. úr hvaða efni sé best að sauma þá og hversu mikið efni þarf í hvern kyrtil. Einnig er, með mynd frá fermingu í Akraneskirkju, sýnt fram á hversu klæðilegir kyrtlarnir eru, jafnt á piltum sem stúlkum. Á þá einnig að liggja í augum uppi hversu mikill sparnaður þetta er fyrir aðstandendur barnanna, "ekki sízt stúlkna, því að fermingarkjólar þeirra hafa oft verið óhæfilega dýrir fyrir efnalitla foreldra".

Nánari upplýsingar um gripinn á Sarpi.

Ýttu hér til að sjá fleiri gripi mánaðarins.