Skip to main content

20 ár í Safnahúsi

Í tilefni af því að 20 ár voru liðin frá því að Minjasafnið flutti í Safnahúsið á Egilsstöðum var sumarsýningu safnsins árið 2016  ætlað að sýna þá fjölbreytni sem einkennir safnkost safnsins. Safnverðir litu yfir geymslurnar og tíndu til nokkra muni sem tilheyra þeim tíu söfnunarflokkum sem skilgreindir eru í safnastefnu Minjasafnsins. Gripirnir voru á öllum aldri og ástand þeirra mismunandi en allir geyma þeir mikilvægar sögur um líf og störf fólks á Austurlandi fyrr og nú. Meðal þess sem sjá mátti á sýningunni var hökull sem sagan segir að hafi komið frá álfum, vídalínspostilla frá 18. öld, skólabjalla frá Alþýðuskólanum á Eiðum, óþekktir forngripir, brauðmót og spáspil. 


Söfnunarflokkar Minjasafns Austurlands eru: Heimilishald, skólahald, atvinnuhættir, félagsleg uppbygging, dægradvöl, hús- og híbýlahættir, fornmunir, ljósmyndir, bækur og skjöl.