Nr. 2 Umhverfing
Sýningin Nr. 2 Umhverfing var samsýning 37 listamanna sem allir eiga það sameiginlegt að tengjast Fljótsdalshéraði á einn eða annan hátt. Sýningarstaðirnir voru þrír, Safnahúsið, Sláturhúsið og hjúkrunarheimilið Dyngja. Í tengslum við sýninguna var jafnframt gefin út samnefnd bók með upplýsingum um listamennina og verk þeirra.
Sýningin var hluti af röð sýninga sem settar verða upp víða um land á næstu árum. Fyrsta sýningin var sett upp á Sauðárkróki sumarið 2017 og bar hún titilinn Nr. 1 Umhverfing. Hugmyndin að baki verkefninu er að setja upp myndlistarsýningar í óhefðbundnum rýmum þar sem ekki er hefð fyrir nútíma myndlistarsýningum.
Að sýningunum stendur félagsskapur fjögurra myndlistakvenna sem nefnist Akademía skynjunarinnar. Að henni standa þær Anna Eyjólfsdóttir, Ragnhildur Stefánsdóttir, Rúrí og Þórdís Alda Sigurðardóttir. Þær voru allar á meðal þeirra listamanna sem áttu verk á sýningunni en nöfn þeirra allra má sjá hér. Samstarfsaðilar akademíunnar í verkefninu eru Minjasafn Austurlands, Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Bókasafn Héraðsbúa, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs og Heilbrigðisstofnun Austurlands. Sýningin var styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands, Fljótsdalshéraði og Listasjóði Dungal.