Jólagluggi verslunar Pálínu Waage
Jólasýning Minjasafnsins árið 2018 bar yfirskriftina Jólagluggi Verslunar Pálínu Waage.
Verslun E.J. Waage á Seyðisfirði var upphaflega stofnuð af Pálínu Guðmundsdóttur Waage árið 1907 í nafni eiginmanns hennar, Eyjólfs Jónssonar Waage. Síðar tók Jón sonur þeirra við rekstrinum en árið 1962 var komið að Pálínu Waage yngri, dótturdóttur Pálínu og Eyjólfs að taka við keflinu. Undir stjórn Pálínu yngri var verslunin nefnd Pöllubúð í daglegu tali. Búðin er ógleymanleg öllum sem í hana komu en þar var sannarlega hægt að fá allt milli himins og jarðar. Í viðtali við Morgunblaðið árið 1999 svaraði Pálína spurningu um hvað hún seldi í búðinni með orðunum "hvað sel ég ekki?"
Minjasafn Austurlands geymir mikið safn gripa sem tengist verslunarrekstri Pálínu Waage og bættist í það safn árið 2018 þegar safnið fékk afhenta fleiri gripi, m.a. nokkra sem tengust jólum. Í tilefni af því var jólasýning safnsins helguð versluninni og settur var upp búðargluggi með jólavörum úr búðinni í skápnum fyrir framan Bókasafnið á þriðju hæð.