Skip to main content

Hreindýradraugur #3

Sumarsýning Minjasafns Austurlands var opnuð 17. júní 2022. Þar sýndi franski sjónlistamaðurinn François Lelong skúlptúra og málverk sem innblásin voru af hreindýrum og náttúru Austurlands.

François hefur í meira en áratug unnið með landslag og innan þess. Hann velur staði fyrir inngrip og finnur þar efni sem hann notar í skúlptúra og innsetningar sem eru innblásin af menningarlegum, félagslegum og sögulegum einkennum hvers staðar fyrir sig. Þannig vinnur François með tengingarnar milli manna, dýra og umhverfis og á sýningu hans í Minjasafni Austurlands birtist þessi áhugi í tilvist hreindýranna og samspili þeirra við mannfólkið. Efniviðinn sækir hann í náttúruna og vinnur m.a. með hreindýrshorn, tré og jurtir. Sýningin fléttast saman við aðra fasta sýningu safnsins, Hreindýrin á Austurlandi, þannig að til verður skemmtilegt samspil milli listar og menningararfs. 

Sýningin var þriðja sýning François sem innblásin var af hreindýrum en áður hafði hann unnið að list sinni og sett upp sýningar á Húsavík og á Skriðuklaustri. François dvaldi á Fljótsdalshéraði í aðdraganda sýningarinnar á Minjasafni Austurlands og vann að nýjum skúlptúr sem bætist við fyrri verk hans tengd hreindýrunum. 

Sýningin hlaut styrki úr Safnasjóði, Uppbyggingarsjóði Austurlands og frá Múlaþingi. 

Vefur listamannsins.