Skip to main content

Sjálfbær eining

Yfirskrift sýningarinnar vísar til þess að áður fyrr þurfti hvert íslenskt sveitaheimili að vera sjálfu sér nægt um brýnustu lífsnauðsynjar, fæði, klæði, áhöld, verkfæri og húsaskjól. Til sýnis eru ýmsir gripir sem tilheyra sögu gamla sveitasamfélagsins á Austurlandi eins og það var fram undir miðja 20. öld. Þessir gripir eru vitnisburður um búskaparhætti, handverk og lífsbaráttu fólks sem lifði af landi sínu og bústofni fyrir daga nútímatækni. Flestir gripirnir á sýningunni tengjast hagnýtu hlutverki þeirra í daglegu lífi, bústörfum, klæða- og matargerð. Aðrir gripir á sýningunni endurspegla að lífið snerist ekki aðeins um hið hagnýta heldur einnig um að búa til fallega hluti til prýði og yndisauka. Á sýningunni má meðal annars finna baðstofu frá bænum Brekku í Hróarstungu. Sýninguna hannaði Björn G. Björnsson.