Skip to main content

Landnámskonan

Sumarsýning Minjasafns Austurlans árið 2024 ber yfirskriftina Landnámskonan. Tvær ríkulega búnar landnámskonur skipa heiðurssess á sýningunni, annars vegar höfðingjakonan sem hvíldi í einu kumlinu sem grafið var upp í Firði á Seyðisfirði árið 2021 og hins vegar fjallkonan dularfulla sem fannst í hellisskúta á Vestdalsheiði upp af Seyðisfirði árið 2004. Bæði kumlin í Firði og líkamsleifar fjallkonunnar eru frá því um 950 og því ljóst að hinar látnu hafa verið uppi á sama tíma. Á sýningunni eru niðurstöður rannsókna á þessum fornleifafundum nýttar til að beina sjónum að konum á þessum tíma, lífi þeirra og störfum.

Sýningin er samstarfsverkefni Minjasafns Austurlands, Antikva, Rannsóknarseturs HÍ á Austurlandi og Þjóðminjasafns Íslands. Sýningar höfundur er Rúna K. Tetzschner en auk hennar voru í sýningarnefnd þær Ragnheiður Traustadóttir, Rannveig Þórhallsdóttir og Elsa Guðný Björgvinsdóttir. Um hönnun og uppsetningu sá Hanna Chriestel Sigurkarlsdóttir og grafísk hönnun var í höndum Ingva Arnar Þorsteinssonar.

Sýningin er auk þess hluti af sýningaröð þriggja safna á Austurlandi sem ber yfirskriftina Konur / Women. Auk Minjasafnsins Austurlands beina Tækniminjasafn Austurland og Héraðsskjalasafn Austfirðinga sjónum sínum að konum á sumarsýningum sínum. Á sýningu Tækniminjasafnsins er dregin upp mynd af störfum kvenna á Seyðisfirði um aldamótin 1900 með áherslu á reynsluheim þeirra og framlag til atvinnulífsins; á Héraðsskjalasafninu verður sögð saga Margrétar Sigfúsdóttur, 20. aldar verkakonu, kennara og skálds í Fljótsdal.