Skip to main content

Gripir Guðmundar frá Lundi

Nú stendur yfir örsýning tileinkuð Guðmundi Þorsteinssyni (1901-1989) frá Lundi í sýningarskápnum á þriðju hæð Safnahússins. 

Guðmundur var fæddur á Brennistöðum í Eiðaþinghá en kenndi sig við Lund í Lundareykjardal þar sem hann dvaldi um árabil sem ráðsmaður. Hann vann t.d við sýningaruppsetningu og lagfæringu gripa, fyrst um sinn á Þjóðminjasafni Íslands en einnig fékkst hann nokkuð við viðgerðarstörf fyrir Minjasafn Austurlands og Byggðasafn á Höfn í Hornafirði. Hann hafði gríðar mikla þekkingu á hvers kyns fornum hlutum, amboðum og verkfærum sem hann hafði sjálfur alist upp við og nýttist vel í þeirri vinnu.

Eitt af áhugamálum hans var að tálga ýmis húsdýr og villt dýr úr íslenskri náttúru en hann tálgaði úr rekaviði annars vegar oh hinsvegar úr plasti sem rak á fjörur á Melrakkasléttu, þar sem hann bjó lengi. Á sýningunni má sjá fjöldann allan af þessum útskornu dýrum, en einnig ýmis verkfæri sem hann smíðaði sjálfur - sum sérstaklega fyrir Minjasafnið.