Grýla hét tröllkerling leið og ljót
Á aðventunni 2022 var opnuð sýning í sýningarsal Minjasafnsins sem tileinkuð var Grýlu. Auk fróðleiks um Grýlu og hennar hyski reis gríðarmikill Grýluhellir á sýningunni þar sem gestir gátu farið inn og virt fyrir sér hýbýli hennar. Þar gat meðal annars að líta fleti Grýlu, pottinn hennar stóra og föt að ógleymdum hrísvendinum sem hún notar til að flengja jólasveinana. Þá kom í ljós að Grýla er bókelsk og les bæði Dalalíf Guðrúnar frá Lundi og Harry Potter. Sýningin var hluti af jóladagskrá Minjasafnsins og var einnig nýtt í heimsóknum skólahópa á safnið en í kringum 230 nemendur komu í heimsókn á safnið í skipulögðum heimsóknum í desember 2023.